Hollustan uppmáluð

Hér er réttur sem ég eldaði í hitteðfyrra en uppskriftin hefur ekki birst áður. Einber hollusta, náttúrlega, fiskur og bygg og grænmeti … Þetta er annars réttur sem ekki myndi þýða fyrir mig að bjóða syni mínum upp á, þótt hann hafi hreint ekkert á móti fiski (já, auðvitað er þetta fiskréttur, febrúar er ekki alveg liðinn). En rauðrófur kann hann ekki að meta og er reyndar ekki einn um það. Svo að þeir sem eru sama sinnis geta sleppt þeim eða notað eitthvað annað í staðinn, til dæmis gulrótateninga.

Ég var með svona 400 g af löngu sem ég kryddaði með pipar og salti og setti svo til hliðar og lét bíða dálítla stund. En það þarf auðvitað ekkert að vera langa, það má nota annan hvítan fisk í staðinn, til dæmis þorsk eða steinbít.

_MG_2080

Ég notaði reyndar rauðrófur sem ég keypti soðnar (fást vakúmpakkaðar í grænmetisborðum stórmarkaða); geri það stundum til að flýta fyrir mér, en það fer þó alfarið eftir því í hvað ég ætla að nota þær og hér fannst mér það í lagi. En auðvitað má líka baka þær eða elda á annan hátt og flysja þær svo. Þetta voru tvær eða þrjár meðalstórar rauðrófur og ég skar þær í litla teninga. Hafði bökunarpappírsbút undir til að bletta ekki skurðarbrettið.

Svo sauð ég 150 g af byggi. Ég notaði perlubygg, finnst það bragðbetra og svo er suðutíminn mun styttri, ekki nema svona 15 mínútur, en 40-45 mínútur fyrir venjulegt bygg. Það má auðvitað sjóða það í venjulegum potti en ég sauð það í hrísgrjónapotti eins og ég geri við flest kornmeti, setti rauðrófurnar út í og sauð þær með. Ef notað er venjulegt bygg er fínt að setja þær út í þegar svona 10 mínútur eru eftir af suðutímanum. Saltaði þetta svo.

_MG_2090 (1)

Ég reif svona 3 meðalstórar gulrætur frekar fínt. Reif börkinn af einni límónu yfir með fínu rifjárni og blandaði svo pipar, salti, safanum úr límónunni og 2 msk af olíu saman við.

_MG_2098

Ég hitaði svo pönnu, setti 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á hana og steikti lönguna við nokkuð góðan hita í svona 3 mínútur á hvorri hlið (eða eftir þykkt).

_MG_2125

Svo bar ég lönguna fram með rauðrófubygginu og gulrótasalatinu og slatta af basilíku – þetta er reyndar dvergbasilíka en það má alveg nota venjulega. Nú, eða aðrar kryddjurtir  eftir smekk.

Langa með rauðrófubyggi

350-400 g langa (eða annar hvítur fiskur)

pipar og salt

2-3 rauðrófur, soðnar

150 g bygg, gjarna perlubygg

3 gulrætur, meðalstórar

1 límóna

3 msk olía

1 msk smjör

basilíka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s