Jæja, nú eru bara þrír dagar eftir af fiskbrúar og kannski varpa bara allir öndinni léttar þegar honum lýkur – og þó, reyndar vill svo til að þótt ekki séu liðnir nema 26 dagar af mánuðinum hef ég aldrei fengið jafnmargar heimsóknir á bloggið í einum mánuði þótt ég hafi eingöngu birt hér uppskriftir að fiski og fiskmeti. Svo að kannski er það ekki alveg rétt sem bæði ég og aðrir bloggarar hafa sagt að maður fái færri heimsóknir á fiskuppskriftir – meðalfjöldi heimsókna á dag er orðinn töluvert hærri en nokkru sinni áður, sýnist mér.
En ég lofa að gera hlé á birtingu fiskuppskrifta eftir mánaðamótin, það er svosem af nógu öðru að taka. Hins vegar borða ég sjálf yfirleitt fiskmeti þrisvar til fjórum sinnum í viku og það breytist ekkert þótt ég hafi fengið mér fisk daglega í mánuð. Í kvöld borðaði ég reyndar beikonvafinn þorsk – leifar frá í gær því þá var ég með gesti í mat og gaf þeim meðal annars tvo fiskrétti, hinn var bakaður lax í soja-chili-engifermaríneringu með spergilkáli – en rétturinn sem hér kemur uppskrift að er þó ekki annar þeirra, heldur er hann úr bókinni Létt og litríkt en uppskriftin birtist reyndar upphaflega í MAN, þá með öðru meðlæti. Hér eru báðar útgáfurnar.
Ég matreiði lax og silung mjög gjarna á þennan hátt en þessi útgáfa, með rósapipar, er sérlega bragðgóð. Þar sem hitinn er svona vægur ætti steinseljan að haldast græn meðan laxinn bakast.
Ég var með bita af laxaflaki, svona 350-400 g, ætti að duga fyrir tvo eða allavega fyrir mig og gott nesti daginn eftir. En ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 120°C og setja bökunarpappír á plötu. Svo grófsteytti ég 1 msk af rósapipar í mortéli. Það er líka hægt að setja hann í plastpoka og merja hann létt með kökukefli.
Svo skipti ég laxinum í tvö stykki (en það má líka baka flakið heilt). Penslaði þau með 1 msk af ólífuolíu og saltaði þau. Svo saxaði ég svona 2-3 msk af steinselju (það má líka nota aðrar kryddjurtir) og stráði henni yfir laxinn ásamt rósapiparnum. Setti plötuna í ofninn og bakaði í um 25 mínútur.
Á meðan laxinn var í ofninum saxaði ég blaðlauksbút smátt og einn hvítlauksgeira mjög smátt. Hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu og lét lauk og hvítlauk krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Þá bætti ég 100 g af grænum baunum (frystum, sem ég var þó búin að þíða) og 1/2 tsk af þurrkuðu timjani á pönnuna og kryddaði með pipar og salti. Lét þetta malla í nokkrar mínútur í viðbót.
Þá setti ég væna lúku af spínati og nokkur basilíkublöð á pönnuna, steikti í 2-3 mínútur og hrærði oft á meðan.
Laxinn var einmitt tilbúinn og ég tók hann út. Líklega hefur hitinn verið aðeins of hár, steinseljan á að vera grænni (sjá neðstu myndina). Ég setti spínat- og baunablönduna á diska (eða fat) og setti laxinn ofan á.
Hin útgáfan, sem ég gerði fyrir MAN, var með rótargrænmeti og þá þarf að baka það á undan laxinum því að hitastigið er allt annað. Nema náttúrlega ef maður er með tvo ofna eins og ég …
Þá var ég með svona 300-400 g af blönduðu rótargrænmeti – þða má nota ýmiss konar grænmeti og ég var með gulrætur, gulrófur, sætar kartöflur og nípur en einnig mætti nota t.d. butternutkúrbít, sellerírót eða hnúðkál. Ég hitaði ofninn í 200°C. Flysjaði grænmetið og skar það í litla teninga, 1–1 1/2 cm á kant. Hellti olíunni í eldfast form, setti allt grænmetið í formið, kryddaði með pipar og salti og hrærði vel til að þekja allt grænmetið með olíu. Setti þetta svo í ofninn og bakaði í um 20 mínútur, eða þar til allt grænmetið var rétt orðið meyrt. Þá setti ég það á diska (eða fat) og laxinn ofan á. Skreytti með meiri steinselju.
*
Hægbakaður lax með rósapipar
350-400 g laxaflak
1 msk ólífuolía
salt
1 tsk rósapipar
2-3 msk söxuð steinselja (eða aðrar kryddjurtir)
*
Grænar baunir og spínat
10-15 cm bútur af blaðlauk
1 hvítlauksgeiri
1 msk ólífuolía
100 g grænar baunir, frosnar
½ tsk timjan
pipar
væn lúkufylli af spínati
nokkur basilíkublöð
*
Bakaðir rótargrænmetisteningar
300-400 g blandað rótargrænmeti
1 msk ólífuolía
pipar og salt