Ekki í takt við veðrið

Það er búið að vera svo ansi fjölbreytt veður þessa síðustu daga að ég var að hugsa um það í gærkvöldi að það væri nú eins gott að ég skyldi ekki hafa einsett mér að elda í takt við veðrið … Auðvitað tekur maður oft mið af veðrinu í eldamennsku, suma daga hentar að elda matarmikla pottrétti og súpur, aðrir dagar eru léttmetisdagar.

Líklega er dagurinn í dag fremur af fyrrnefnda taginu en uppskriftin sem ég ætla að setja hér núna er þó fremur í hina áttina, enda er hún úr bókinni Létt og litríkt, sem ég sendi frá mér fyrir tveimur árum. Frekar í hollari kantinum alltsvo. En alveg ágæt og getur vel yljað manni þegar kaldir vindar blása, það vantar ekki.

En hér er uppskriftin, rauðspretta með kapers, ólífum, og volgu spergilkáls- og gulrótasalati. Þetta er skammtur fyrir tvo. Ég var semsagt með eitt stórt rauðsprettuflak sem ég skar í tvennt eftir endilöngu því það var fullstórt til að steikja það í heilu lagi, sem ég geri yfirleitt við minni flök.

En ég byrjaði á að taka 150 g af spergilkáli, skipta því í litla kvisti og skera stönglana í sneiðar eða bita. Svo hitaði ég saltvatn í potti, setti stönglana út í og sauð þá í 3-4 mínútur. Þá bætti ég spergilkálskvistunum út í (þeir þurfa styttri suðu) og sauð þetta í 3 mínútur í viðbót. Hellti svo vatninu af spergilkálinu.

_MG_2514

Á meðan spergilkálið var í pottinum reif ég tvær meðalstórar gulrætur á rifjárni. Svo setti ég þær í skál ásamt heitu spergilkálinu, og blandaði 1 msk af ólífuolíu og safa úr 1/4 af sítrónu saman við.

_MG_2512Svo hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu. Blandaði 2 msk af heilhveiti saman við pipar og salt á diski og velti rauðsprettuflökunum upp úr blöndunni. Svo steikti ég flökin við meðalhita í um 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þau voru rétt steikt í gegn. Tók þau svo af pönnunni (ég nota pönnukökuspaða) og setti á fat.

_MG_2516 (1)

Ég setti svo 10-12 steinhreinsaðar ólífur og 1 msk af kapers sem ég var búin að skola í köldu vatni á pönnuna, ásamt lófafylli af saxaðri steinselju og lét krauma í 1-2 mínútur.

_MG_2521

Ég hellti þessu svo yfir rauðsprettuna og bar fram strax með grænmetissalatinu.

*

Rauðspretta með kapers og ólífum

400 g rauðsprettuflök

150 g spergilkál

salt

2 gulrætur, meðalstórar

1 msk ólífuolía

safi úr ¼ sítrónu

1 msk olía

1 msk smjör

2 msk heilhveiti

pipar

10-12 steinlausar ólífur

1-2 msk kapers, skolaður

lófafylli af saxaðri steinselju

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s