Ný eldhúsgræja og tvöföld uppskrift

Ég er ekkert rosalega græjuóð, sko. Ég á til dæmis ekkert sous vide-tæki. Ég á heldur ekki kaffivél, örbylgjuofn, mínútugrill, kleinuhringjajárn, djúpsteikingarpott, hægsuðupott, súkkulaðigosbrunn, eggjasuðutæki, spíralskera eða – já. Ýmsa aðra hluti. Suma þeirra hef ég einhverntíma átt en ekki séð ástæðu til að endurnýja þegar þeir gáfu upp öndina. Suma hef ég aldrei eignast og ekki séð ástæðu til.

En ég verð að eiga góða matvinnsluvél. Ég hef reyndar átt þær nokkrar, eignaðist þá fyrstu fyrir meira en 35 árum, en þær sem ég átti framan af voru frekar kraftlitlar og entust illa, enda frekar mikið notaðar. Matvinnsluvél er eitt af þessum tækjum sem maður getur alveg komist af án, alveg þangað til maður eignast það … Reyndar veit ég að ýmsir eiga matvinnsluvél inni í skáp og nota hana sjaldan eða næstum aldrei. Sem er alveg eðlilegt, matargerð fólks er afar misjöfn og sumir þurfa afar sjaldan á matvinnsluvél að halda. Ég nota mína hins vegar gjarna daglega og stundum oft á dag.

Ég eignaðist fyrst góða vél fyrir 12 árum, Magimix, reyndar minnstu gerðina en hún er nú búin að duga mér mjög vel samt og hefur verið afar mikið notuð. En nú hefur brotnað smástykki á skálinni svo að hún festist ekki alveg á vélinni – það er vel hægt að nota hana, þarf bara lagni við það – en aftur á móti er stundum erfitt að ná lokinu af skálinni. Og mér finnst bitið í hnífnum vera farið að minnka svo að líklega þyrfti ég að skipta um bæði hníf og skál. Og svo eru hlutir sem ég hef aldrei verið alveg ánægð með (en suma er reyndar held ég búið að laga á nýrri módelum). Svo að ég fór að hugsa um að endurnýja.

Þá mundi ég eftir vél sem ég hafði séð og orðið mjög hrifin af og veit að hefur skorað mjög hátt í öllum samanburðarprófum; ástralska Breville-matvinnsluvélin. Flott græja og  rosalega kröftug, 2000 wött. Hún fæst ekki hér á landi (held ég) en hún fæst hjá Amazon í Bretlandi, reyndar undir nafninu Sage by Heston Blumenthal af því að Evrópuréttindin að nafninu voru seld óskyldum aðila fyrir mörgum áratugum þannig að Breville-tækin sem fást í Bretlandi eiga ekkert skylt við ástralska fyrirtækið og það varð að nota annað nafn þegar farið var að markaðssetja vörurnar í Evrópu fyrir fáeinum árum. Allavega, sumar Sage-vörur fást hér í einhverjum búðum en ég hef ekki séð matvinnsluvélina og þegar litið er á verðmuninn sem er á öðrum Sage-vörum hér miðað við Bretland, þá hefði örugglega borgað sig að panta hana frá Amazon þótt hún fengist hér.

Sem var semsagt einmitt það sem ég gerði, pantaði græjuna á mánudaginn og fékk hana á föstudaginn. Kostaði 66.000 með sendingarkostnaði og aðflutningsgjöldum.

IMG_9222

Allt sem ég er búin að prófa svínvirkar og þetta er toppgræja, nærri þrefalt kraftmeiri en Magimix-vélin og allt sem ég hafði við hana að athuga er í góðu lagi hér. Og ýmiss konar fídusar (hnífur með fjórum blöðum, tímamælir og fleira). Svo að ég er býsna sæl með hana.

Ég þurfti náttúrlega að nota vélina eitthvað þegar ég var að elda kvöldmatinn, nýbúin að taka hana úr kassanum. Reyndar var ég að fara að elda rækjupasta sem bauð kannski ekki beinlínis upp á að nota hana mikið en eitthvað gat ég nú gert … Vélinni fylgir hnífur/skeri sem hægt er að stilla á mismunandi þykkt, allt frá 1/2 mm (ekki veit ég hvað maður myndi skera svo þunnt) upp í 8 mm. Svo að ég skar blaðlauksbútinn sem ég var með í 1 1/2 mm sneiðar og kúrbítinn í 3 1/2 mm sneiðar. Tók 1-2 sekúndur hvort um sig …

Ég gleymdi að taka myndir af matreiðslunni en hér er uppskrift – eða kannski öllu heldur uppskriftir, því að ég notaði afganginn í gratín sem ég hafði í kvöldmatinn í kvöld. Sem sagt, tveir fiskréttir (jæja, sjávarréttir) því að ég átti 300 g af rækjum sem ég hafði látið þiðna í ísskápnum.

IMG_9268

Sonurinn kom í mat svo að ég sauð 250 g af penne í saltvatni, það tekur 11 mínútur. Á meðan hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu, setti fínskorna blaðlaukinn (15 cm bút, græna og ljósgræna hlutann – og það má alveg skera hann með hníf og þarf ekkert að vera svona fínt) á hana og lét krauma í 1-2 mínútur. Kramdi á meðan einn hvítlauksgeira og bætti honum svo á pönnuna ásamt hálfum kúrbít í sneiðum. Lét þetta krauma við fremur vægan hita í svona 5 mínútur og hrærði oft á meðan. Blaðlaukurinn bráðnaði næstum, svona fínt skorinn.

Svo setti ég kúfaða skeið af rauðu pestói á pönnuna og hrærði. Bætti svo við svona 125 ml  af rjóma, 10-12 ólífum og 1/2 tsk af þurrkaðri basilíku, ásamt pipar og salti, og lét þetta malla þar til pastað var soðið. Þá hellti ég því í sigti og lét renna af því. Setti á meðan rækjurnar á pönnuna og lét þær hitna í gegn. Setti svo pastað í skál, hellti sósunni yfir og blandaði vel. Bar þetta svo fram með klettasalati og pecorino-osti (nú, eða parmesan) til að rífa yfir.

Þótt við mæðginin borðuðum bæði vel af þessu var nóg eftir í matinn handa mér einni í dag.

IMG_9294

Ég hitaði ofninn í 200°C og hrærði pastaafganginum saman við 2 egg og 75 ml af rjóma (má vera mjólk). Svo mundi ég eftir smábita af cheddarosti sem var að byrja að harðna í ísskápnum, svona 40 g, svo að ég skar hann í smábita og hrærði saman við ásamt dálitlum pipar. Setti þetta í lítið, smurt form, reif nokkrar matskeiðar af pecorino-osti yfir, setti þetta í ofninn og bakaði í um 20 mínútur.

Þetta var barasta alveg ágætt. En næstu dagana mun ég örugglega elda ýmislegt sem gefur mér kost á að nota nýju fínu matvinnsluvélina mína meira.

*

Rækjupasta með kúrbít og blaðlauk

300 g rækjur, soðnar og skelflettar

250 g penne eða annað pasta

salt

10-15 cm bútur af blaðlauk

1/2 kúrbítur

1 hvítlauksgeiri

kúfuð matskeið af rauðu pestói

125 ml rjómi

10-12 ólífur

1/2 tsk þurrkuð basilíka

pipar

*

Rækjupastagratín

afgangur af rækjupasta

2 egg

75 ml rjómi eða mjólk

smábiti af osti (má sleppa)

pipar

rifinn pecorino- eða parmesanostur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s