Sólin skín á Indlandi þótt hér sé slagviðri …

Í svona slagviðri vill maður gjarna eitthvað mjúkt og rjómalagað og bragðmikið, eða þá eitthvað kryddað. Eða bara hvort tveggja í einu. Og þá datt mér í hug þessi suður-indverski fiskréttur, sem er bara alveg ágætur og á vel við núna – en reyndar eldaði ég í kvöld pasta með rækjum og kúrbít og blaðlauk og ólífum og spínati og rjómalagaðri tómatsósu fyrir mig og soninn; langaði að prófa nýju matvinnsluvélina sem ég var að eignast og er draumur í dós og greip bara það sem til var í skápunum.

Þessi uppskrift er hins vegar úr bókinni minni, Pottur, panna og Nanna, en hafði reyndar áður birst í indverskum þætti sem ég gerði fyrir MAN. Þetta er pottréttur en það má líka bæta við annarri dós af kókosmjólk eða bara meira vatni og bera hann fram sem súpu.

_MG_2544

Ég var með 250 g af risarækjum, hráum, og byrjaði á láta þær þiðna. Og svo var ég með steinbít, svona 600 g, sem ég skar í bita og setti til hliðar. Svo hitaði ég 2 msk af olíu á pönnu, setti 1 tsk af sinnepsfræjum og 2 lárviðarlauf (ættu að vera karrílauf en ég átti þau ekki til og þá má notast við lárviðarlauf ef í harðbakka slær) og lét krauma í hálfa mínútu eða svo.

_MG_2546

Ég var búin að skera niður 1 lauk, 2-3 hvítlauksgeira, 1 chilialdin og 2-3 cm bita af engifer. Setti þetta nú á pönnuna og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast.

_MG_2547

Þá stráði ég 1 msk af meðalsterku karrídufti yfir, ásamt 1/2 tsk af túrmeriki, dálitlum nýmöluðum svörtum pipar og salti, hrærði og lét krauma í 2–3 mínútur.

_MG_2550

Síðan opnaði ég eina dós af kókosmjólk, hellti innihaldinu á pönnuna, hitaði að suðu og lét malla í 5 mínútur.

_MG_2553

Þá setti ég fiskbitana út í og svo rækjurnar 2 mínútum síðar. Lét þetta malla í 2–3 mínútur í viðbót, þar til rækjurnar höfðu breytt um lit og fiskurinn var rétt soðinn í gegn.

_MG_2575Ég smakkaði karrísósuna, bragðbætti hana með límónusafa eftir smekk (og salti ef þarf) og bar þetta fram með miklu af kóríanderlaufi, soðnum hrísgrjónum og e.t.v. límónubátum.

_MG_2623

 

Fiskur í kókoskarrísósu 

 

250 g risarækjur, hráar en skelflettar

600 g hvítur fiskur, t.d. steinbítur eða langa

2 msk olía

1 tsk sinnepsfræ

nokkur karrílauf eða 2 lárviðarlauf

1 laukur, saxaður

2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 chilialdin, fræhreinsað og saxað smátt

2 –3 cm biti af engifer, saxaður smátt

1 msk karríduft, meðalsterkt

1/2 tsk túrmerik

nýmalaður svartur pipar

salt

1 dós kókosmjólk

1 límóna

kóríanderlauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s