Fiskur sem þolir ekki bið

Túnfiskur – það er að segja ekki úr dós – er ekki sérlega algengur á borðum hér. Hann fæst samt stundum frosinn og þá yfirleitt í stykkjum sem eru hæfileg fyrir einn. Svo að ég á hann stundum í frysti og gríp til hans þegar mig vantar eitthvað í matinn fyrir mig eina.

Þannig var það einmitt þegar ég eldaði þennan túnfiskbita (sem var ekki núna í kvöld – ég var með ofnbakaðar rækjur með spergilkáli og kúrbít) – ég tók hann úr frysti og setti í ísskápinn kvöldið áður en ég ætlaði að hafa hann í matinn. Ef mér hefði legið meira á hefði ég kannski stungið honum í vel lokaðan poka og sett hann í skál með köldu vatni, hann þiðnar á nokkrum klukkutímum þannig.

En það borgar sig aldrei að geyma ferskan túnfisk lengur en þarf – og ekki lengur en í sólarhring. Ég man vel þegar ég eldaði túnfisk fyrst, það eru rúm nítján ár síðan. Ég tók hann úr frysti, setti í ísskápinn og ætlaði að elda hann daginn eftir. En þann dag fékk ég að vita að fyrsta bókin mín, Matarást, yrði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þá seinnipartinn. Og það var freyðivín og jarðarber í vinnunni og svo var tilnefningarathöfnin og þar var meira freyðivín og konfekt og kransakaka eða eitthvað slíkt. Og ég var ekki í neinu skapi til að elda svo að ég fór með krakkana mína og barnabarnið út að borða – örugglega bara á pítsustað eða eitthvað slíkt, ég átti ekki fyrir öðru á þeim árum – og geymdi túnfiskinn.

Og þegar ég eldaði hann kvöldið eftir, þá var komið leiðindabragð af honum, hálfgert lýsisbragð. Krakkarnir neituðu að borða hann, ég þrælaði einhverju af honum oní mig en gafst svo upp og útbjó eitthvað annað. Og síðan þá hef ég passað mig að láta túnfisk aldrei bíða lengur en þarf …

Þessi gerði það ekki og hann var alveg ágætur.

_MG_8644

Ég ákvað að hafa salsa með honum og tók til það sem ég ætlaði að nota: bita af rauðri, gulri og appelsínugulri papriku, kannski þriðjung af hverri. Eitt serrano-chilialdin (en það má nota aðrar tegundir ef serrano finnst ekki), grænu blöðin af tveimur vorlaukum, nokkra kokkteiltómata (líklega voru þetta annars litlir plómutómatar), svona hálft knippi af kóríander og fjórðung af sítrónu. Skerðu paprikuna í litla teninga, saxaðu chilialdinið mjög smátt, skerðu tómatana í báta og saxaðu vorlaukinn og mestallt kóríanderlaufið. Settu allt saman í skál ásamt dálitlu salti. Kreistu safa úr sítrónunni yfir og blandaðu öllu saman. Smakkaðu og bættu við meiri sítrónusafa og salti eftir smekk.

_MG_8647

Þerraðu túnfiskinn, penslaðu hann með svolítilli olíu og kryddaðu hann með nýmöluðum svörtum pipar og salti. Hitaðu grillpönnu mjög vel. Settu túnfiskinn á hana og steiktu hann í 1 mínútu á hvorri hlið við háan hita.

_MG_8678

Settu salsað í hrúgu á disk og leggðu túnfiskinn ofan á. Skreyttu e.t.v. með kóríanderlaufi og berðu fram.

*

Túnfiskur á salsabeði

150-200 g túnfiskur, 2 1/2 cm þykk sneið

paprika í 3 litum, samtals um 1 stk

1 serrano-chili (eða annað chilialdin)

grænu blöðin af 2 vorlaukum

6-8 litlir tómatar

1/2 knippi kóríanderlauf

1/4 sítróna, eða eftir smekk

salt

pipar

olía til penslunar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s