Saltfisksalat

Saltfiskur, já. Við Íslendingar kunnum lengi vel lítið með saltfisk að fara þótt við gætum verkað hann og selt. Hann var bara soðinn og étinn með kartöflum, rófum og hamsatólg: annað en suðrænar þjóðir sem áttu 365 uppskriftir að saltfiski. (Reyndar komst ég að því á árshátíð í Barcelona fyrir nokkrum árum að það er ekki endilega trygging fyrir því að saltfiskur sé góður að hann sé eldaður af spænskum kokki, en það er önnur saga.)

En saltfiskur getur vissulega verið alveg hreint ágætur, og það þótt hann sé bara soðinn, en tólginni má sleppa mín vegna (þótt ég myndi ekki slá hendinni á móti ögn af hömsum ef því er að skipta); ég man enn hvernig það var að stinga upp í sig saltfiskbita löðrandi í bráðinni tókg og súpa svo á kaldri mjólk, sem allir drukku með mat í þá daga, þannig að tólgin storknaði upp við góminn.

Þetta er ekki svoleiðis saltfiskur þótt hann sé soðinn. Engin tólg og hvorki kartöflur né rófur. Bara eitthvert fansí grænmeti og dót. Ágætis kvöldmatur en getur jafnvel líka verið forréttur; þegar ég var með uppskriftina í MAN var gert ráð fyrir að þetta væri einn af nokkrum réttum á hlaðborði. – Í staðinn fyrir sykurbaunir mætti vel nota léttsoðið spergilkál, skipt í litla kvisti.

_MG_0279

Ég var með 600 g af saltfiski sem búið var að afvatna. Þetta var flak svo að ég skar það í stykki – venjulega er nú samt búið að því – setti þau í pott með köldu vatni og hitaði að suðu. Ég lét þetta malla mjög rólega í 2-4 mínútur (eftir þykkt stykkjanna). Slökkti þá undir pottinum og lét fiskinn standa í 6-8 mínútur. Tók hann þá upp með gataspaða og lét hann kólna.

Næst tók ég 150 g af sykurbaunum, skar þær í tvennt, hitaði léttsaltað vatn að suðu í litlum potti, setti baunirnar út í og lét þær sjóða í tvær mínútur. Hellti þeim þá í sigti og setti undir kalda kranann. Lét svo renna af þeim.

_MG_0305

Ég skar 8-10 radísur í þunnar sneiðar, blandaði þeim saman við 75 g af klettasalati og blandaði svo baununum saman við.

_MG_1012

Ég hristi saman 3 msk af ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, pipar, salt og 2 tsk af mirin (það má sleppa því), hellti því yfir baunirnar og salatið og blandaðu vel. Svo roðfletti ég saltfiskinn, losaði hann sundur í flögur og blandaði gætilega saman við. Settu salatið á fat og skreytti með radísuspírum.

_MG_0383

Þetta er reyndar aðeins önnur útgáfa, þarna notaði ég minna af grænu salati en bætti við nokkrum paprikubitum.

*

 

Saltfisksalat með radísum og sykurbaunum

600 g saltfiskur

150 g sykurbaunir

salt

75 g klettasalat eða salatblanda

8-10 radísur

3 msk ólífuolía

safi úr 1/2 sítrónu

pipar

2 tsk mirin (má sleppa)

lófafylli af radísuspírum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s