Lax fyrir fjölskylduna

Ég eldaði þennan afar auðvelda laxarétt fyrir fjölskylduna í gær. Það stóð ekkert til að setja uppskriftina hingað inn og ég tók engar myndir af undirbúningnum – þegar ég er með þau eða aðra gesti í mat set ég það sjaldnast á bloggið og er ekkert að tefja matinn með myndatökum, mér finnst ekki hægt að láta fólk bíða eftir matnum á meðan ég er að mynda hann í bak og fyrir og eiginlega enn síður að gestirnir setjist við borðið og byrji á meðan gestgafinn tekur diskinn sinn og bisar við myndatökur annars staðar í íbúðinni. Það er ekki mikil gestrisni, finnst mér.

Ég hef samt lent í því einu sinni eða tvisvar að vera ekki alveg búin með myndatökuna þegar fjölskyldan kemur af því að ég hef tafist af einhverri ástæðu svo að þau hafa þurft að bíða í fáeinar mínútur á meðan ég skaut seinustu myndirnar en mér leið bara ekkert vel á meðan. Til allrar hamingju komu myndirnar vel út, annars hefði ég verið grútfúl út í sjálfa mig.

Ég smelli hinsvegar gjarna af einni mynd eða svo um leið og ég set matinn á borðið, bara   til að ég muni eftir réttinum og hvað var í honum svo að ég eigi auðveldara með að endurtaka hann ef hann líkar vel og ég ákvað að endurtaka hann og taka betri myndir. Og stundum set ég þessar myndir á Facebook eða Twitter. Og það var einmitt það sem ég gerði í gær þegar ég eldaði lax fyrir fjölskylduna, smellti mynd og setti á Facebook. En ýmsum leist vel á og ég var beðin um uppskriftina. Svo að ég ákvað að setja hana hér þótt ég sé bara með tvær myndir, aðra tók ég áður en laxinn fór í ofninn og hina þegar ég tók hann út.

Ég keypti laxinn innpakkaðan í stórmarkaði og öll flökin sem þar voru til voru á bilinu 650-800 g. Það er of lítið fyrir okkur sex svo að ég keypti tvö þau minnstu sem ég fann. Það er aftur á móti heldur mikið en afgangurinn dugir mér vel í hádegismatinn í dag og á morgun … Ég hefði keypt flak upp á svona 1 kg eða rúmlega það ef það hefði verið í boði en ætla að miða uppskriftina við 700-800 g, sem ætti að vera hæfilegt fyrir fjóra.

IMG_9047

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo penslaði ég eldfast mót með 1 msk af ólífuolíu, lagði laxinn í það með roðhliðina niður (auðvitað má líka nota roðflettan lax) og kryddaði hann með salti og pipar, helst grófmöluðum. Ég notaði regnbogapipar (fimmlita piparblöndu) en það er ekki nauðsynlegt. Svo skar ég tómatana (mikilvægt að þeir séu knallrauðir og vel þroskaðir) í bita, fræhreinsaði paprikuna og skar hana í bita, skar rauðlaukinn í tvennt og síðan í sneiðar og grófsaxaði vorlaukinn. Dreifði þessu öllu saman yfir laxinn, ásamt nokkrum ólífum. Ég var með svartar, hálfþurrkaðar ólífur (ekki í pækli eða olíu) af því að mér þyka þær dálítið góðar en það má nota hvaða ólífur sem manni líka vel. Nú, eða sleppa þeim ef maður er bara ekkert fyrir ólífur. Að lokum ýrði ég 1 1/2 msk af olíu yfir allt saman.

IMG_9052

Svo setti ég þetta í ofninn og bakaði í svona 20 mínútur, eða þar til laxinn var eldaður í gegn og grænmetið meyrt – olían, safinn úr laxinum og úr tómötunum ætti að blandast saman á botni formsins og mynda sósu. Ég stráði svo dálítilli steinselju yfir af því að ég átti hana til og bar þetta fram með soðnum hrísgrjónum (sérstaklega fyrir Úlf, sem er mikill hrísgrjónavinur) og grænu salati.

Flóknara er það nú ekki.

*

Bakaður lax með grænmeti og ólífum

1 laxaflak, 700-800 g

grófmalaður pipar

salt

2 1/2 msk ólífuolía

1 rauðlaukur

2 vorlaukar (má sleppa)

2-3 tómatar, vel þroskaðir (má vera meira)

1 lítil rauð paprika

12-16 ólífur

steinselja ef til er

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s