Hér áður fyrr, þegar ég var ekki sérlega gefin fyrir fiskát, var stundum verið að reyna að segja mér að maður yrði svo gáfaður af að borða fisk. En mér fannst ég alveg nógu gáfuð og át ekkert meiri fisk fyrir vikið; fannst þetta aukinheldur ekki sérlega trúverðug speki. En svo er þetta víst alveg rétt. Ómega-3-fitusýrurnar í feitum fiski hafa góð áhrif á heilafrumurnar og maður verður klárari af þeim. Eða þannig.
Það gildir að vísu bara um feita fiskinn. En ég er nú búin að vera með þónokkrar uppskriftir að laxi og bleikju hér og svo er ég búin að elda/borða fleiri feita fiska núna í fiskbrúar án þess að uppskriftir hafi komið að því – lúðu til dæmis, og síld. Og í kvöld kom fjölskyldan í mat og ég ofnbakaði lax með grænmeti og ólífum. Ekki veitir nú af að örva heilastarfsemina – allavega hjá barnabörnunum, sem eru bæði í námi.
Uppskrift dagsins er samt ekki að feitum fiski, heldur þorski og er frá í fiskbrúar í fyrra. En magri fiskurinn er nú yfirleitt bærilega hollur líka …
Ég notaði svartkál, sem er nú ekki mjög algengt grænmeti en fæst þó stundum, ekki síst á þessum árstíma – ég er nýbúin að heyra það auglýst – en það má alveg eins nota grænkál. Ég var með svona 300 g af þorski, sem passar fínt fyrir mig í kvöldmat og nesti daginn eftir en getur líka vel dugað fyrir tvo í matinn, fer eftir meðlætinu. Það má líka auka aðeins við skammtinn.
Ég byrjaði á að skera þorskinn í munnbitastærð og krydda með pipar og salti. Setti hann svo til hliðar en tók svona 75 g af sveppum – þessir voru litlir og ég hafði þá heila en það má líka skera þá niður. Ég skar líka niður 1 vorlauk, svona fjórðung af chilialdini og 1 hvítlauksgeira, hitaði 1 msk af olíu á pönnu og setti þetta allt á hana, ásamt 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti, og lét krauma í nokkrar mínútur.
Á meðan tók ég nokkur blöð af svartkáli og skar þau niður. Eins og ég sagði má alveg eins nota grænkál en þá myndi ég skera stöngulinn úr blöðunum. Svo setti ég það á pönnuna með sveppunum og lét það krauma í nokkrar mínútur.
Ég ýtti kálinu og sveppunum svo út til hliðanna og setti dálítinn bita af smjöri – kannski svona 30 g – á miðja pönnuna og lét það bráðna.
Ég setti svo þorskbitana á pönnuna og lét krauma við meðalhita í 2 mínútur eða svo. Hrærði gætilega í nokkrum sinnum á meðan.
Þá bætti ég 150 ml af rjóma á pönnuna, ásaamt hálfri dós af niðursoðnum baunum – ég notaði grænar límabaunir en það má t.d. nota cannellini-baunir eða hvaða ljósar baunir sem er. Lét þetta malla við vægan hita í 2-3 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn og baunirnar heitar. Hrærði gætilega í, smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.
Að lokum setti ég þetta (eða hluta af því) á disk, setti smáhrúku af klettasalati ofan á (en því má sleppa) og bar fram.
*
Þorskur með svartkáli og baunum
300 g þorskur
pipar og salt
75 g sveppir, gjarna litlir
1 vorlaukur
1/4 chilialdin
1 hvítlauksgeiri
¼ tsk timjan, þurrkað
1 msk olía
nokkur blöð svartkál eða grænkál
30 g smjör
150 ml rjómi
1/2 dós ljósar baunir
e.t.v. klettasalat