Engin sumaruppskrift núna, heldur sterk og nærandi súpa. Kræklingasúpa með austurlensku yfirbragði, nánar til tekið. Nei, ég fór nú ekki í kræklingatínslu um helgina, heldur átti ég afgang af frystum kræklingi – hafði keypt hann til að nota í ákveðið verkefni en þurfti bara helminginn. Svo að þarna var hálft kíló af þiðnuðum kræklingi sem þurfti að nota. Svo að ég eldaði súpu.
Ég byrjaði á að taka einn af mínum mörgu ágætu steypujárnspottum – þessi er Pyrex og er óvenju grunnur, svolítið eins og djúp panna, og hentar vel fyrir ýmsar súpur og pottrétti þar sem magnið er ekki mikið – en það er annars hægt að nota alls konar potta. En ég semsagt skar niður hálfan lauk, hvíta og ljósgræna hlutann af einum vorlauk, einn hvítlauksgeira, svona 3 cm bita af engifer og hálft chili, hitaði 1 msk af olíu í pottinum og lét þetta allt krauma í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var glær og mjúkur.
Þá bætti ég út í tveimur kúfuðum teskeiðum af rauðu taílensku karrímauki (red curry paste – eða meira eða minna, eftir því hvað maður vill hafa þetta sterkt. Bætti líka við hálfri teskeið af túrmeriki en það var nú mest upp á litinn á súpunni, það má alveg sleppa því. Hrærði þetta saman við og lét krauma í svona eina mínútu.
Svo opnaði ég dós af kókosmjólk, hellti innihaldinu í pottinn og hrærði því saman við. Ég bætti líka við vökvanum sem var í kræklingspokanum (ef það er enginn vökvi eða maður hefur óvart hent honum má bara nota svolítið vatn og fiskikraft).
Ég lét súpuna malla í nokkrar mínútur. Svo smakkaði ég hana og bragðbætti með salti og e.t.v. öðru eftir þörfum/smekk – sumum þætti kannski betra að setja svolítinn sykur, teskeið eða svo, út í en ég gerði það nú ekki.
Svo setti ég kræklinginn út í, hitaði að suðu, setti lok á pottinn og lét malla við vægan hita í 2 mínútur til að hita kræklinginn í gegn.
Að lokum skreytti ég súpuna með grænu blöðunum af vorlauknum, svolitlu rauðu chili og kóríanderlaufi (má sleppa).
Kræklinga-karrísúpa
1/2 laukur
1 vorlaukur
1 hvítlauksgeiri
3 cm biti af engifer
1/2 rautt chili
1 msk olía
2 kúfaðar tsk rautt karrímauk, eða eftir smekk
1/2 tsk túrmerik (má sleppa)
1 dós kókosmjólk
salt
e.t.v. 1 tsk sykur
500 g kræklingur
vorlaukur, chili og kóríanderlauf til skreytingar