Kartöflur, lax og áhrif ljósmæðra á eldamennsku

Sólin skein nú svo glatt í dag að ég komst næstum því í sumarskap og þess vegna er uppskrift dagsins af sumarlegra taginu eins og sést reyndar á myndunum. En ekkert verri fyrir það svosem og gengur alveg að vetri til líka þótt þetta flokkist kannski ekki beinlínis undir notalegheitamat í venjulegum skilningi. Þetta er samt alveg þokkalega notalegt … En þessi uppskrift og þær tvær síðustu hafa vissulega verið sumarlegri en árstíðin gefur tilefni til, það skal ég játa. Ætli ég reyni ekki að hafa þá næstu vetrarlegri.

Ég kallaði þetta reyndar kartöflusalat með tvenns konar laxi þegar ég birti uppskriftina í MAN í fyrrasumar en það má alveg eins kalla það laxasalat með kartöflum. Ég hugsaði það sem volgt salat en daginn eftir myndatökuna kom hópur af konum sem ég vinn með í hádegisheimsókn og ég bauð þeim meðal annars upp á salatið; það reyndist vera alveg eins gott kalt.

Reyndar notaði ég hér nýuppteknar, litlar kartöflur. Þær eru kannski ekki tiltækar núna en ég reyndar flysja sjaldan kartöflur nú orðið, allavega þessar litlu. Ekki nema hýðið sé þeim mun þykkara eða ljótara – en þá reyndar sýð ég þær yfirleitt og steiki svo til að hýðið verði betra. Að hluta til er þetta vegna þess að mér þykir afskaplega leiðinlegt verk að flysja kartöflur. En það er önnur ástæða og hún er þessi:

Á mínu bernskuheimili voru kartöflur aldrei borðaðar með hýðinu, nema þær væru alveg nýuppteknar. Manni datt bara ekki annað í hug en að flysja þær. En þegar ég var nýorðin sautján ára og nýbúin að eiga dóttur mína og lá á sæng á sjúkrahúsinu á Króknum, þá var sængurlegan ein vika (svona er ég nú gömul) og fyrstu tvo dagana mátti maður ekki stíga í fæturna (ég fór nú ekki mikið eftir því). Ég lá ein á stofu og hafði ekkert við að vera og vantaði eitthvað að lesa. Og María ljósa – sem tók á móti dóttur minni og hafði líka tekið á móti mér – bauðst til að ná í eitthvert lesefni fyrir mig á bókasafn sjúkrahússins.

Og það sem hún kom með var matreiðslubók Náttúrulækningafélagsins. Ekki hef ég hugmynd um af hverju, ég var ekkert þekkt fyrir mataráhuga á þeim tíma. En ég tók við bókinni og las hana spjaldanna á milli. Og það sem ég man eiginlega langbest eftir er að þarna var sterklega hvatt til þess að borða alltaf kartöflur með hýðinu, það væri langhollast því það væri svo mikið af næringarefnum í því. Og þessu til stuðnings var sögð saga af fjölskyldu, írskri örugglega, sem hafði ekkert að borða langtímum saman nema soðnar kartöflur. Foreldranir flysjuðu kartöflurnar sínar og fengu einhvern næringarsjúkdóm, en börnin voru svo sársvöng að þau átu kartöflurnar beint upp úr pottinum með hýði og öllu saman og brögguðust ágætlega.

Þetta varð nú ekkert til þess að ég hætti að flysja kartöflur. En smám saman hef ég verið að minnka það, allar götur síðan. Ekkert heilsunnar vegna, samt. Ég hef bara verið að uppgötva það smátt og smátt að kartöfluhýði getur verið bara aldeilis ágætt, ekki síst ef það er steikt eða bakað.

En flysjið endilega kartöflurnar ef ykkur sýnist svo, það urðu ekki allir fyrir áhrifum frá Náttúrulækningafélaginu á viðkvæmu augnabliki í lífinu fyrir tilstilli ljósmóðurinnar sinnar.

Ég var semsagt með svona 600 g af kartöflum – litlum og nýuppteknum í það skiptið – skar þær í tvennt, nema kannski þær allra minnstu, og sauð þær í léttsöltuðu vatni þar til þær voru rétt orðnar meyrar. Ég sauð líka 150 g af sykurbaunum (snjóbaunum, en það má líka sleppa þeim eða nota frosnar baunir eða strengjabaunir) í 2-3 mínútur. Ég setti þær reyndar í sigti sem ég hafði yfir kartöflupottinum, lagði lok yfir og gufusauð þær.

Svo tók ég 250 g af nýjum laxi, sauð hann  í saltvatni þar til hann var rétt eldaður í gegn, lét hann kólna í nokkrar mínútur og skipti honum í flögur. Skar svo 150 g af reyktum laxi í þunnar, litlar sneiðar.

_MG_0019

Þá var það sósan: Ég setti lófafylli af saxaðri steinselju, lófayflli af spínati, 1 eggjarauðu, 1-2 hvítlauksgeira, safa úr 1/2 sítrónu, pipar og salt í matvinnsluvél (eða blandara) og maukaði þetta saman. Hellti svo um það bil 4 msk af matarolíu smátt og smátt út í og þeytti hana saman við.

Ég setti svo heitar kartöflurnar í skál, hellti sósunni yfir og blandaði vel. Jafnvel þótt bera eigi salatið fram kalt er best að blanda a.m.k. kartöflum og sósu saman á meðan kartöflurnar eru heitar, þær taka betur í sig bragð.

_MG_0025Svo blandaði ég sykurbaununum og reykta laxinum saman við.

_MG_0028

Að lokum setti ég ferska laxinn út í og blandaði honum gætilega saman við – hann á að vera í flögum eða bitum og ekki fara í mauk.

Laxa- og kartöflusalat

Svo setti ég þetta á fat og stráði svolítilli steinselju yfir. Já, það var víst sumar …

*

Kartöflusalat með tvenns konar laxi

600 g litlar, nýjar kartöflur

salt

150 g sykurbaunir (snjóbaunir; má sleppa)

250 g ferskur lax

150 g reyktur lax

*

Steinseljusósa

lófafylli af steinselju

lófafylli af spínati

1 eggjarauða

1-2 hvítlauksgeirar

safi úr 1/2 sítrónu

pipar og salt

4 msk matarolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s