Fundnar múffur og fleira

Ég hef nú ekki verið með margar bakkelsisuppskriftir að undanförnu, hef svosem ekki verið í miklu bakstursstuði það sem af er árinu og eiginlega ekkert bakað nema brauð. En svo rakst ég á gamla uppskrift í dag sem ég var búin að gleyma – reyndar rakst ég á ýmislegt í dag sem ég var búin að gleyma því að ég er að skipta um ísskáp og var að tæma þann gamla og aftarlega í efri hillunum var satt að segja eitt og annað sem ég hafði steingleymt að ég ætti. Til dæmis krukka af kirsiberjum sem ég er nokkuð viss um að kom í mína eigu þegar ég átti næsta ísskáp á undan þessum …

Annars er hann nú ekkert gamall, kominn eitthvað á fimmta ár, og er í fínasta lagi og ég mun sjá töluvert eftir honum vegna þess hve hann er stór og rúmgóður. Rúmar heilt helvíti, eins og Steingrímur bóndi á Silfrastöðum sagði um Silfrastaðakirkju. En þetta er kæliskápur, án frystihólfs. Ég á frystiskáp, tuttugu ára gamlan eða meira, sem ég hef alltaf verið með í eldhúsi eða í búri inn af eldhúsi þar sem ég hef búið, svo að ég hef ekki þurft á frystihólfi að halda.

En svo flutti ég hingað í Efstalandið og það er ekki pláss fyrir frystiskáp í eldhúsinu og það er ekkert búr. Svo að ég verð að hafa hann niðri í geymslu. Það er svosem alveg hægt að skjótast niður þegar mann vantar kjötstykki eða fiskflak úr frystinum. En mun meira vesen ef mann vantar kannski bara lúkufylli af frosnum berjum. Eða er að búa til ís eða eitthvað. Þá er ansi mikil fyrirhöfn að fara niður tvær hæðir og inn í læsta geymslu. Ekki síst fyrir roskna konu sem er slæm í hnénu …

Það tók mig samt ríflega hálft annað ár að komast að þeirri niðurstöðu að ég yrði að fá mér ísskáp með frystihólfi. Það er nefnilega ekki pláss fyrir stærri ísskáp heldur – ekki extra breiðan eða háan – svo að ég var lengi að melta með mér hvort ég vildi fórna kæliplássi fyrir frysti. Það varð semsagt úr að gera það og þess vegna var ég ekki bara að færa á milli, heldur líka grisja ýmislegt … og kirsiberin fengu að fjúka ásamt fleiru sem ég fann.

Ég fann þessa múffuuppskrift samt ekki í ísskápnum, heldur bara í tölvunni minni. Hún er reyndar gerð fyrir pikknikkþátt sem ég gerði einu sinni í MAN, 2015 held ég, og því eru myndirnar af tilbúnu múffunum frekar sumarlegar. En múffurnar eiga við á öllum árstímum.

Þessar eru án viðbætts sykurs en stútfullar af góðgæti – döðlum, nektarínum (einnig mætti nota ferskjur eða aðra ávexti), bláberjum og kókosmjöli. Jú, og svo er heilhveiti í þeim svo að þær eru alveg þokkalega hollar af múffum að vera.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 190°C. Svo tók ég átta döðlur, steinhreinsaði þær og setti þær í matvinnsluvél ásamt tveimur eggjum og maukaði vel. Bræddi svo 10 g af  smjöri og hrærði því saman við ásamt 100 ml af hreinni jógúrt (má líka vera súrmjólk). Síðan blandaði ég 125 g af heilhveiti, 60 g af kókosmjöli, 2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af matarsóda saman í skál og hrærði þurrefnunum svo saman við blautefnin._MG_0876

Svo tók ég tvær eða þrjár nektarínur – svona 200 g alls – steinhreinsaði þær og skar þær í litla bita – engin þörf á að afhýða þær. Blandaði þeim saman við deigið ásamt 100 g af bláberjum. (Og þótt þetta sé þarna í matvinnsluvélarskálinni notaði ég nú bara sleikju til að blanda þessu saman, ef ég hefði kveikt á vélinni hefði þetta bara orðið einhver blágrá deigklessa.)

_MG_0882

Ég skipti svo deiginu jafnt í 12 múffuform og bakaði á næstneðstu rim í ofninum  í um 18 mínútur (ívið skemur ef notuð eru fleiri form og minna sett í hvert).

Og svo er það bara að ná í pikknikkkörfuna og fara upp á Hólmsheiði, þar sem þessi mynd var tekin … eða nei, bara setjast við eldhúsborðið með kaffi og múffu.

Bláberja-, ferskju- og kókosmúffur (2)

*

Múffur með bláberjum, nektarínum og kókos

8 döðlur

2 egg

100 g smjör

100 ml hrein jógúrt (eða súrmjólk)

125 g heilhveiti

60 g kókosmjöl

2 tsk lyftiduft

½ tsk matarsódi

2-3 nektarínur (um 200 g)

100 g bláber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s