Hér er önnur uppskrift úr pikknikkþættinum sem ég nefndi í gær – þótt það sé auðvitað ekki mikið pikknikkveður núna. Þessar ágætu skonsur geta nefnilega átt við nánast hvar sem er.
Ósætar enskar skonsur eru fljótbakað og einfalt brauðmeti. Þessar eru bragðmiklar og hægt að borða þær með smjöri eða jafnvel eintómar en það má líka setja á þær álegg og þær eru mjög hentugar með salati eða súpu. Ég notaði sinnepsduft (Colman’s), enskan cheddar og salvíu, sem allt er mjög breskt, en það má bragðbæta skonsurnar á ýmsa vegu, til dæmis hafa svolítinn cayennepipar í stað sinnepsduftsins og rósmarín eða timjan í stað salvíunnar.
Þessi skammtur ætti að duga í um 8 skonsur.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo blandaði ég saman 150 g af heilhveiti, 100 g af hveiti (en það má líka nota bara hveiti eða bara heilhveiti), 2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1 tsk af sinnepsdufti eða öðru kryddi (það má líka sleppa því).
Svo bætti ég við 60 g af smjöri. Ég gerði þetta í matvinnsluvél en það er ekki nauðsynlegt, það má blanda deiginu saman í skál og þá er smjörið mulið saman við með fingurgómunum. Svo bætti ég við einu eggi og 100 ml af súrmjólk (það þarf 125 ml samtals en hitt er til að pensla með – og svo má líka nota hreina jógúrt), reif svo 100 g af osti, helst bragðsterkum (ég var með enskan cheddar) og blandaði rúmlega helmingnum af honum saman við deigið, ásamt nokkrum smátt söxuðum salvíulaufum.
Deigið ætti að vera hnoðunarhæft, lint en ekki blautt; það má blanda dálitlu köldu vatni saman við ef það er of þurrt.
Ég flatti svo deigið út í um 2 1/2 cm þykkt, það er hæfilegt fyrir skonsur af þessu tagi. Allavega ekki þynnra en 2 cm. Síðan stakk ég út kringlóttar kökur. Ég var með útstungujárn/hring sem er um 8 cm í þvermál. Það má nota glas en best er þó að nota eitthvað sem er með frekar hvössum börmum svo að skurðurinn verði sléttur og beinn og skonsurnar lyfti sér betur – beint upp en ekki út á hlið. Þegar ég var búin að stinga út eins margar skonsur og ég gat úr deiginu hnoðaði ég afskurðinn saman, flatti hann út aftur og stakk út fleiri skonsur – þær urðu átta í allt.
Ég setti skonsurnar á pappírsklædda bökunarplötu og penslaði þær að ofan (en ekki hliðarnar) með afganginum af súrmjólkinni.
Svo stráði ég afganginum af rifna ostinum ofan á og lagði eitt salvíublað á hverja skonsu. Bakaði þær á næstneðstu rim í 12-14 mínútur – bökunartíminn getur þó verið svolítið misjafn eftir stærð og þykkt og gott að fylgjast með þeim síðustu mínúturnar.
Ég lét skonsurnar svo kólna á grind. Reyndar eru þær mjög góðar volgar líka.
*
Ostaskonsur
150 g heilhveiti
100 g hveiti (eða önnur hvort tegundin eingöngu)
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 tsk sinnepsduft (má sleppa)
60 g smjör
1 egg
125 ml súrmjólk eða hrein jógúrt
100 g bragðsterkur ostur, t.d. enskur cheddar
15-20 salvíulauf (eða aðrar kryddjurtir, má líka sleppa)
ískalt vatn ef þaraf