Blóðappelsínutíminn er ekki langur en ég held að hann standi samt enn yfir, að minnsta kosti á ég slatta af blóðappelsínum í ísskápnum. Og þess vegna datt mér í hug uppskrift að salati sem ég gerði fyrir nokkrum árum.
Í þetta salat má nota ýmiss konar meyrt nautakjöt en ég var með hanger-steik, sem mig minnir að ég hafi keypt í Matarbúrinu á meðan það starfaði en ætti að fást í öðrum kjötbúðum. Það má líka nota aðra bita.
Ég hugsaði þetta sem forrétt eða smárétt og þá ætti það að duga fyrir 4-6. En salatið getur líka verið aðalréttur fyrir 2-3.
Ég byrjaði á að blanda saman 2 msk af ólífuolíu, 1 msk af balsamediki, 1 msk af worchestersósu, nokkrum timjangreinum (eða þurrkuðu timjani), pipar og salti í eldföstu móti, setti kjötið út í og velti því til að þekja það með maríneringu. Lét það liggja í nokkrar klukkustundir og sneri því öðru hverju. Svo hitaði ég grillið vel, penslaði grindina með olíu og grillaði kjötið eftir þykkt og smekk – ég grillaði steikina í 4-5 mínútur á hvorri hlið. Svo má líka steikja kjötið á grillpönnu, eða á pönnu í blöndu af smjöri og olíu.
Eftir að ég tók kjötið af grillinu lét ég það bíða í a.m.k. 10 mínútur – mér finnst best að hafa það við stofuhita. Síðan skar ég það í mjög þunnar sneiðar.
Á meðan kjötið beið gerði ég jarðarberjasósuna: setti 100 g af jarðarberjum og 10-12 basilíkulauf í matvinnsluvél (eða blandara), skar eina væna blóðappelsínu í tvennt (ef þær eru litlar má nota eina heila) og kreisti safann úr henni yfir, lét vélina ganga þar til komið var grófgert mauk og hellti 3 msk af ólífuolíu smátt og smátt saman við á meðan. Kryddaði með pipar og salti eftir smekk.
Ég tók svo tvær vænar lúkur af salatblöndu og dreifði á fat. Skar 100 g af blómkáli smátt og dreifði því yfir. Svo dreifði ég kjötsneiðunum jafnt yfir salatið. dreifðu þeim jafnt á salatið. Ég flysjaði svo eina og hálfa til tvær blóðappelsínur (eftir stærð) með hníf (skar hvíta börkinn alveg af), skar þær í litla bita og dreifði þeim yfir.
Ég dreypti svo dálitlu af jarðarberjadressingunni yfir salatið og bar afganginn fram með.
*
Nautakjötssalat með blóðappelsínum og jarðarberjasósu
400-500 g nautasteik, t.d. hanger-steik
5 msk ólífuolía
1 msk balsamedik
1 msk worchestersósa
nokkrar timjangreinar
pipar
salt
100 g jarðarber
10-12 basilíkulauf
2-3 blóðappelsínur, eftir stærð
2 vænar lúkur salatblanda
100 g blómkál