Fyrir grænkera og smalastúlkur

Flestir kannast líklega við hefðbundna breska réttinn smalaböku eða shepherd’s pie, sem líka kallast cottage pie þegar notað er nautahakk en ekki lambahakk. Reyndar er cottage pie upprunalega nafnið, hitt sést ekki fyrr en um miðja 19. öld en er nú mun þekktara, að minnsta kosti utan Bretlands, þar sem það er iðulega notað þótt ekki sé lambakjöt í bökunni.

Í smalaböku er semsagt kjöthakk, sem látið er malla í sósu, oftast með lauk og oft öðru grænmeti eins og gulrótum, selleríi eða baunum og jafnvel fleiru, og svo er sett kartöflustappa ofan á og þetta bakað þar til yfirborð stöppunnar fer að taka lit. Rétturinn var upphaflega gerður til að nýta afganga en nú er ekki síður algengt að gera hann frá grunni – rétt eins og með plokkfiskinn okkar.

Hér er hins vegar útgáfa sem inniheldur ekkert kjöt og raunar engar dýraafurðir svo að hún hentar fyrir grænkera, er semsagt vegan. Mér skilst að í Bretlandi séu slíkar útgáfur stundum kallaðar shepherdess pie, smalastúlkubaka, en ég kýs samt að sleppa smalamennskunni alveg og kalla þetta bara garðyrkjumannsböku.

Þetta er frekar auðveld útgáfa því að ég notaði frosna grænmetisblöndu en auðvitað má líka nota ófrosið grænmeti sem þarf þá að skera niður og sumt af því þarf að sjóða lengur með, t.d. gulrætur, séu þær notaðar.

IMG_4904.jpg

Ég byrjaði á að saxa einn rauðlauk (en má vera venjulegur) og 3-4 hvítlauksgeira. Hitaði svo 2 msk af ólífuolíu í potti og lét lauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur við meðalhita. Hrærði svo 300 g af grænum linsubaunum saman við ásamt nokkrum timjangreinum eða 1 tsk af þurrkuðu timjani.

Svo hellti ég 1 l af sjóðandi vatni yfir, hrærði 1 msk af grænmetiskrafti saman við ásamt pipar og salti og lét malla við hægan hita í opnum potti í um 30 mínútur, eða þar til linsurnar voru rétt tæplega meyrar og nær allur vökvi gufaður upp.

IMG_4909

Ég var með 400 g af frosinni grænmetisblöndu sem ég hrærði saman við og lét malla í nokkrar mínútur.

Á meðan linsurnar suðu hafði ég búið til kartöflustöppu: Flysjaði 1 kg af bökunarkartöflum, skar þær í bita og sauð þær í saltvatni þar til þær voru vel meyrar. Þá hellti ég vatninu af þeim og stappaðu þær með 6 msk af olíu (ég notaði 3 msk af ólífuolíu og 3 msk af repjuolíu). Kryddaði með pipar og salti eftir smekk. Ég hrærði svo um fjórðungi af stöppunni saman við baunablönduna – þá verður hún þykkari og helst betur saman.

IMG_4919

Ég var búin að hita ofninn í 225°C og pensla eldfast mót með olíu og nú hellti ég baunablöndunn í það og sléttaði yfirborðið. Dreifði svo afganginum af kartöflustöppunni jafnt yfir, sléttaði gætilega og dró svo teinana á gaffli yfir til að ýfa yfirborðið.

Garðyrkjumannsbaka (11)

Ég setti svo mótið í ofninn og bakaði garðyrkjumannsbökuna í 15-20 mínútur, eða þar til þekjan hafði tekið góðan lit.

Garðyrkjumannsbaka (13)

Með þessu þarf ekki annað en grænt salat.

*

Garðyrkjumannsbaka

1 rauðlaukur (eða venjulegur)

3-4 hvítlauksgeirar

2 msk ólífuolía

300 g grænar linsubaunir

nokkrar timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan

1 l vatn

1 msk grænmetiskraftur

pipar og salt

400 g blandað frosið grænmeti

um 1 kg bökunarkartöflur

6 msk olía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s