Ég er búin að vera að elda alla helgina – reyndar hefði ég eiginlega átt að vera að gera skattskýrsluna mína en það er bara svo miklu skemmtilegra að elda … En allavega, í dag var ég meðal annars með egg og avókadó og paprikur og klettasalat basilíku í höndunum og þá rifjaðist upp fyrir mér uppskrift (sörpræs). Og hér er hún – þetta eru semsagt paprikur fylltar með salati.
Fyllt grænmeti er kannski ekki eins algengt hér og sumstaðar annars staðar; ég var á matarráðstefnu erlendis fyrir nokkrum árum þar sem þemað var „fyllt“ og þar sá maður og heyrði um ótrúlegu fyllingar og samsetningar. Og matseðlarnir byggðust meira og minna á réttum sem voru fylltir á einn eða annan hátt og þar var einmitt fyllt grænmeti mjög áberandi.
Ég byrjaði á að harðsjóða fjögur egg og svo kældi ég þau, skurnfletti og saxaði þau smátt. Svo flysjaði ég eitt vel þroskað avókadó og skar það í litla teninga. Svo fræhreinsaði ég eitt chilialdin og saxaði það mjög smátt. Blandaði svo eggjum, avókadói og chili saman í skál.
Ég reif svo börkinn af einni sítrónu og kreisti úr henni safann og hrærði þessu saman við 100 g af grískri jógúrt, 2 msk af ólífuolíu, 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af óreganói, pipar, salt og 10-12 söxuð basilíkublöð.
Ég blandaðu þessu saman við eggin og avókadóið og blandaðu að lokum lúkufylli af klettasalati saman við. Nú, eða öðrum salatblöðum, eftir því hvað maður á eða vill nota.
Ég tók svo tvær meðalstórar paprikur (reyndar hefði ég frekar viljað nota fjórar litlar en þegar ég var að gera þetta fengust bara stórar paprikur), skar þær í tvennt, fjarlægði fræin og hvítu rifin og raðaði svo paprikuhelmingunum á fat.
Svo fyllti ég paprikuhelmingana með eggjasalatinu og skreytti e.t.v. með klettasalati. Ef illa gengur að láta paprikurnar liggja beinar og kyrrar má skera örþunna sneið neðan af til að fá sléttan flöt – þó helst ekki í gegn. (En það er svosem allt í lagi þótt komi smágat, maður er ekkert að fara að lyfta paprikunum upp og bíta í þær.)
Svo er bara að borða paprikurnar og hafa gott brauð með.
*
Eggja- og avókadósalat í paprikuskálum
4 egg
1 stórt avókadó, vel þroskað
1 chilialdin, eða eftir smekk
1/2 sítróna
100 g grísk jógúrt
2 msk ólífuolía
1/2 tsk kummin
1/2 tsk óreganó, þurrkað
pipar
salt
10-12 basilíkublöð
lúkufylli af klettasalati (eða öðrum salatblöðum)
2 meðalstórar paprikur eða 4 litlar