Vöfflur, súkkulaði og ber

Nei, ég er ekkert hætt að blogga. Ég hef hins vegar látið bloggið eiga sig síðustu mánuði af því að ég var á kafi að ganga frá nýrri matreiðslubók sem kemur út í haust (segi meira frá henni fljótlega) og öll umframorka hefur farið í hana. En nú er hún tilbúin í prentsmiðju – eða minni vinnu er allavega lokið – og ég get farið að sinna öðru. Til dæmis blogginu.

Nú ætti ég kannski að koma með einhverja rosalega sumarlega uppskrift en veðrið gefur ekki endilega tilefni til þess – þótt það hafi komið góðir dagar inn á milli, það vantar ekki, þar sem létt og sumarleg salöt eða girnilegur grillmatur hefur verið á borðinu á svölunum hér í Efstalandinu. Og þær uppskriftir koma örugglega. En hér er aftur á móti uppskrift sem gengur á öllum árstímum

Þetta eru vöfflur – belgískar gervöfflur – sem eru hér gerðar enn betri með því að dýfa þeim í súkkulaði. Ég gerði þær upphaflega fyrir þátt í MAN með ýmiss konar steiktu bakkelsi – vöfflum, lummum og pönnukökum, sætum og ósætum.

Ég byrjaði á að velgja 50 ml af mjólk í um 40°C og hella í skál. Svo stráði ég 2 tsk af þurrgeri yfir og lét standa í nokkrar mínútur. Svo bræddi ég 100 g af smjöri í potti, hellti 300 ml af mjólk í viðbót út í og velgdi í um 40°C. Hrærði þessu saman við gerblönduna. Svo tók ég 2 egg, aðskildi þau og hrærði  rauðunum saman við mjólkurblandið, ásamt 2 msk af sykri, 1 tsk af vanilluessens, 1/2 tsk af salti og síðan 300 g af hveiti.

_MG_6107

Svo stífþeytti ég eggjahvíturnar í annarri skál og blandaði  þeim gætilega saman við með sleikju. Breiddi viskastykki yfir skálina og lét hana standa á hlýjum stað í um 1 klst.

_MG_6118

Ég hitaði svo vöfflujárnið. Setti ausu af soppunni í járnið og steikti vöfflurnar við ríflega meðalhita …

_MG_6123

… þar til þær voru gullinbrúnar og svolítið stökkar. Lét þær svo kólna.

_MG_6129

Ég bræddi svo 150 g af suðusúkkulaði í vatnsbaði og hellti því á disk. Tók svo hverja vöfflu fyrir sig og dýfði henni í súkkulaðið.

_MG_6131

Ef maður vill aðeins láta súkkulaðið þekja brúnirnar á vöfflumynstrinu er vöfflunum dýft létt í bráðið súkkulaðið (og þá má komast af með 100 g af súkkulaði) en vilji maður þekja allt yfirborðið með súkkulaði er þeim þrýst niður (og þá er ágætt í lagi að nota meira).

_MG_6134

Láttu súkkulaðið storkna alveg.

_MG_6161

Berðu svo vöfflurnar fram með berjum og e.t.v. kókosmjöli til að strá yfir.  Og kannski þeyttum rjóma eða einhverju öðru góðgæti.

_MG_6166

Súkkulaðihúðaðar gervöfflur

350 ml mjólk

2 tsk þurrger

100 g smjör

2 egg, aðskilin

2 msk sykur

1 tsk vanilluessens

1/2 tsk salt

300 g hveiti

*

100-200 g suðusúkkulaði

fersk ber

e.t.v. kókosmjöl

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s