Pottar og pönnur

Ókei, fyrst nýju steypujárnspottarnir mínir eru nú orðir blaðaefni (sjá DV í dag), þá er best að ég sýni ykkur þá. Facebookvinir mínir eru náttúrlega búnir að sjá þá því ég var að monta mig af þeim. Ég er nefnilega, eins og ég held að áður hafi komið fram, með steypujárnsblæti og þegar ég ákvað að gefa sjálfri mér gjöf í tilefni af sextugsafmælinu, þá urðu emaleraðir steypujárnspottar fyrir valinu. Nema hvað. Þetta er nú ég …

Ég átti svosem slíka potta fyrir. Tvo eldgosarauða Le Creuset, misstóra, og einn svartan KitchenAid. En mig langaði í fleiri liti og öðruvísi lögun og svona. Þannig að ég fékk mér þessa hér:

_MG_6278

Grænan Lodge-pott, 5,7 lítra, bláan, grunnan Zelanico og gulan aflangan KitchenAid. Fallegir gripir. En þeir hafa samt ekkert í þennan hér að gera:

_MG_6922

Grænn Staub. Ég er búin að vera ástfangin af honum um tíma og þess vegna notaði ég tækifærið þegar ég var í London á þriðjudaginn, keypti hann og dröslaði honum heim í farangrinum. Ég segi ekki að ég sé búin að sitja og klappa honum síðan en pottar gerast ekki fallegri, skal ég segja ykkur. (Já, ég er dálítið gefin fyrir græna litinn.)

Þið eigið örugglega eftir að sjá þessum pottum bregða fyrir hér. Oft.

Uppskriftin í dag er samt ekki elduð í honum og reyndar ekki í steypujárni, en það hefði þó átt ágætlega við. Annaðhvort grunni, blái Zelanico-potturinn eða bara steypujárnspanna. En ég notaði nú bara eldfast leirfat. Þetta er grænmetisréttur, býsna góður bara. Birtist fyrst i MAN í nóvember, í þætti sem ég gerði um kjötlausa veislurétti.

_MG_6266

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C. Svo tók ég 2 meðalstóra kúrbíta (eða kannski 3) og skar þá í í 4-5 mm þykkar sneiðar langsum, penslaði þær á báðum hliðum með ólífuolíu, kryddaði með pipar og salti, raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu …

_MG_6269

… og bakaðu þær í 12-15 mínútur, eða þar til þær voru orðnar meyrar. Ég lét þær svo kólna á meðan ég bjó til fyllinguna og sósuna.

_MG_6274

Fyrst sósan: ég setti 2 msk af ólífuolíu, 3 saxaða hvítlauksgeira, nokkar timjangreinar og 1 rósmaríngrein (það má líka nota þurrkaðar kryddjurtir)  í pott og lét krauma í nokkrar mínútur. Þá bætti ég 1 dós af söxuðum tómötum í pottinn, kryddaði með pipar og salti og lét malla í um 10 mínútur. Veiddi kryddjurtirnar upp úr (augljóslega óþarfi ef ekki voru notaðar ferskar kryddjurtir), smakkaði og kryddaði eftir þörfum.

 

 

_MG_6271

Ég setti 150 g af spínati, 2 msk af vatni, svolítinn sítrónusafa, pipar og salt í pott, setti lok lok yfir og lét malla í svona 2 mínútur, eða þar til spínatið hafði sölnað. Þá kreisti ég vökvann úr því ef þarf og maukaði það í matvinnsluvél ásamt lófafylli af basilíku, 150 g af kotasælu (mætti líka vera svona 100 g af rjómaosti) og 50 g af parmesanosti.

_MG_6283

Svo skipti ég fyllingunni jafnt á kúrbítssneiðarnar og stillti ofninn í 200°C.

_MG_6285

Ég hellti svo tómatsósunni úr pottinum í eldfast mót. Rúllaði kúrbítssneiðunum upp utan um fyllinguna og raðaði þeim í mótið.

_MG_6290

Svo reif ég svona 25 g af parmesanosti til viðbótar fínt niður, stráði yfir kúrbítsrúllurnar, setti formið í ofninn og bakaði þetta í um 20 mínútur.

Kúrbítsvefjur 4

Ég bar vefjurnar fram í mótinu og skreytti með basilíku (af því að ég átti hana til).

Kúrbítsvefjur 5

Kúrbítsvefjur með spínat-ostafyllingu

2-3 kúrbítar, meðalstórir

ólífuolía til penslunar

pipar og salt

150 g spínat

2 msk vatn

svolítill sítrónusafi

pipar og salt

lófafylli af basilíku

150 g kotasæla (eða 100 g rjómaostur)

75 g nýrifinn parmesanostur

Kryddjurtabætt tómatsósa

2 msk ólífuolía

3 hvítlauksgeirar, saxaðir

nokkrar timjangreinar

1 rósmaríngrein (eða þurrkaðar kryddjurtir)

1 dós (400 g) saxaðir tómatar

pipar og salt

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s