Eiginlega get ég ekkert verið með í umræðunni þessa dagana. Ég er svo gömul í hettunni og íhaldssöm og bara alls ekki með á nótunum, fylgist ekki með og er dottin út úr öllu. Ég er nefnilega enn ekki búin að fara í Costco. Versla bara í Bónus og Nettó og Hagkaupum og Nóatúni eins og ég er vön og missi af öllum dásemdunum í Garðabæjarkaupfélaginu.
Ég hef ekkert á móti Costco, neineinei. Ég væri örugglega búin að fara þangað að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar ef það væri ekki einmitt þarna suðurfrá og fyrir bíllausa manneskju eru uppsveitir Garðabæjar úti á landi. Svo að það bíður betri tíma. Ég er samt búin að vera að skoða Facebooksíður og jújú, það er ýmislegt álitlegt þarna og annað minna álitlegt. Öllum ber til dæmis saman um að ávextir og grænmeti séu til mikillar fyrirmyndar og það er nú aldeilis ágætt.
Ég hef hins vegar mun minni (les: engan) áhuga á öllum tilbúnu og hálftilbúnu réttunum sem fást þarna – margir virðast mjög hrifnir af þeim og ekkert að því en slíkt er bara ekki á mínu sviði og ég reyni nú yfirleitt að gera sem mest frá grunni, það er betra, skemmtilegra, hollara og yfirleitt ódýrara. En hentar auðvitað ekki öllum.
Það er ekki þar með sagt að ég geri allt heima, maður styttir sér nú leið eftir þörfum. Í réttinum sem hér kemur uppskrift að og var í matinn fyrir okkur mæðginin í gær verkaði ég til dæmis ekki beikonið sjálf og notaði líka niðursoðnar kjúklingabaunir í stað þess að sjóða þær. (Og ég veiddi ekki þorskinn, flakaði hann ekki einu sinni sjálf, mjólkaði ekki kýrnar eða skildi mjólkina til að fá rjómann, ræktaði ekki grænkálið eða kartöflurnar …)
Flestir eru sammála um að það sé gott að borða sem minnst af unnum mat en þá er spurning: hvenær telst matur unninn? Í rauninni má segja að allt sem gert er við matvæli sé einhvers konar vinnsla og spurning hvar á að setja mörkin ef maður vill halda sig við óunninn mat. Það er ákveðin vinnsla á hveitinu að baka úr því brauð, hvort sem maður kaupir verksmiðjubrauð eða bakaríssúrdeigsbrauð eða dregur fram steypujárnspottinn og bakar það sjálfur heima. En ekki er þetta nú allt jafngilt.
En þetta var útúrdúr og hér kemur uppskriftin.
Þorskhnakkastykkið sem ég átti var tæp 400 g en við vorum tvö og ég vissi að sonurinn yrði svangur þegar hann kæmi svo að ég ákvað að drýgja fiskinn með ýmsu sem til var í ísskápnum. Til dæmis nokkrum þykkt skornum beikonsneiðum, sem ég skar í bita og byrjaði á að steikja á pönnu þar til þær voru brúnar og stökkar á báðum hliðum. Þá tók ég þær af og setti til hliðar.
Eða reyndar hafði ég byrjað á að sjóða nokkrar litlar kartöflur þar til þær voru nærri alveg meyrar. Þá hellti ég vatninu af þeim, skar þær í tvennt og steikti þær í dálitlu smjöri á annarri pönnu (ég á sko nóg af svoleiðis en þeir sem búa við pönnuhallæri geta gert allt á sömu pönnu, tekið þá bara kartöflurnar af pönnunni þegar þær eru tilbúnar og haldið þeim heitum á meðan fiskurinn er steiktur).
En ég semsagt steikti kartöflurnar við meðalhita þar til þær voru vel brúnaðar.
Á meðan kryddaði ég þorskhnakkann með pipar og salti, hitað 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á beikonpönnunni og steikti fiskinn við nokkuð góðan hita í svona 2 mínútur áður en ég sneri honum.
Svo skar ég sirka þrjú grænkálsblöð í ræmur – það mætti líka nota væna lúku af spínati eða eitthvað slíkt – og setti á pönnuna á milli fiskstykkjanna.
Ég opnaði svo eina kjúklingabaunadós, hellti baununum í sigti og lét renna af þeim og setti þær svo á pönnuna ásamt beikoninu, hellti 150 ml af rjóma á pönnuna og lét malla þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn – svona 3-4 mínútur eftir að ég sneri stykkjunum við.
Svo bar ég fiskinn fram á pönnunni …
… og hafði steiktu kartöflurnar með.
*
Beikonþorskur með grænkáli og kjúklingabaunum
350-400 g þorskhnakki
pipar
salt
100-150 g beikon, þykkt skorið
350-400 g litlar kartöflur, soðnar
50 g smjör + 1 msk
1 msk olía
nokkur grænkálsblöð eða spínat
1 dós kjúklingabaunir
150 ml rjómi