Ég átti von á matargesti sem kom svo ekki og ég hætti við að elda kjúklingalærin sem áttu að vera í matinn, hafði ætlað að gera eitthvað úr þeim sem hentar ekki fyrir einn. Svo að ég kom við í Krónunni til að kaupa eitthvað létt til að elda handa mér í kvöldmatinn og þar rak ég augun í þennan fagurgræna danska spergil sem freistaði mín óskaplega. Svo að ég keypti hann og þóttist vita að ég ætti eitthvað heima sem færi vel með honum.
Spergiltímabilinu er líklega akkúrat að ljúka í Danmörku núna og ekki seinna vænna að fá sér danskan spergil. Reyndar er hægt að fá spergil hér mestallt árið núna en þá hefur hann oft verið fluttur yfir hálfan hnöttinn, geymdur allt of lengi og oft við rangar aðstæður svo að hann er farinn að tréna, þorna, slepja eða jafnvel mygla, og er auk þess rándýr. Ekki góð kaup. Þessi var býsna frísklegur og kostaði ekki nema 349 krónur fyrir 250 grömm. (Og þó var hann ekki úr Costco.)
Ef ég hefði þurft að geyma hann í nokkra daga hefði ég líklega skorið mjóa sneið neðan af stönglunum, sett þá upp á endann í glas með köldu vatni og látið standa í ísskápnum. En ég þurfti þess ekki. Tók hann úr umbúðunum um leið og ég kom heim, skar aðeins neðan af stönglunum og skar þá svo í svona 3 bita hvern.
Svo hitaði ég pönnu – hún þarf að vera með loki (eða hægt að setja lok af potti ofan á hana, nú eða bara breiða álpappír yfir). Ég notaði steypujárnspönnu en það er svosem ekki nauðsynlegt. Setti svona 25 g af smjöri á hana og þegar það fór að bráðna setti ég spergilinn á hana, hrærði í til að þekja hann í smjöri, kryddaði með ögn af salti og pipar, hellti 2-3 msk af vatni yfir, lokaði pönnunni, lækkaði hitann og lét spergilinn krauma í svona 4 mínútur.
Á meðan braut ég þrjú egg í skál, bætti við þremur matskeiðum af mjólk, pipar og salti, og þeytti þetta vel saman.
Þegar spergillinn var tilbúinn tók ég hann af pönnunni og setti á disk. Þerraði pönnuna með eldhúspappír, bræddi svona 40 g af smjöri á henni, og hellti svo eggjahrærunni á miðja pönnuna. Hafði hitann í meðallagi.
Ég lét eggjahræruna alveg óhreyfða í eina mínútu …
… en þá tók ég hitaþolna sleikju (eða tréspaða eða sleif, en sleikja er best) og fór að ýta hrærunni frá börmunum og í átt að miðju og hallaði pönnunni um leið svo að fljótandi eggjahræra rynni inn í eyðuna. Ég hélt þessu áfram í 1-2 mínútur, eða þar til mestöll hræran var stífnuð – en þó ekki alveg öll.
Ég var búin að skera smábita af sterkum enskum cheddarosti (eða hvaða osti sem er, ef það er bragð að honum) í teninga – þetta voru kannski 2-3 msk – og stráði yfir eggjahræruna og setti svo spergilinn yfir allt saman.
Að lokum saxaði ég dálitla basilíku og stráði yfir, hellti hvítvíni í glas og – ja, þá var ekkert eftir nema að borða.
Það var ekki vandamál. (Og þetta dugir fyrir tvo, með góðu brauði og kannski grænu salati.)
*
Spergill með hrærðum eggjum
250 g spergill
65 g smjör
salt
pipar
2-3 msk vatn
3 egg
3 msk mjólk
2-3 msk saxaður cheddarostur eða annar ostur
nokkur basilíkublöð