Bræddar apríkósur

Apríkósur fást ekki alltaf í búðum en þeirra tími er sumarið og það hafa fengist býsna fallegar og góðar apríkósur að undanförnu. Hin ýmsu apríkósuafbrigði geta reyndar verið býsna misjöfn og það er ekki alltaf hægt að treysta á litinn en þessar eru „rjóðar í kinnum“ og sérlega freistandi, finnst mér – það er hins vegar rétt að sneiða hjá mjög fölum og ljósum apríkósum og eins þeim sem farnar eru að krumpast.

Apríkósur eru ágætar eins og þær koma fyrir og t.d í salötum en þær eru satt að segja enn betri þegar þær hafa verið bakaðar eða eldaðar á einhvern hátt, t.d. í bökum og mylsnubökum, soðnar í safa eða víni og bornar fram með rjóma eða ís og svo eru þær góðar í grauta, sultur og fleira slíkt.

.Ég átti von á fólki í mat og var ekki búin að ákveða eftirréttinn en ég átti apríkósur og ég átti hindber (fengust á mjög góðu verði í Nettó, eins og reyndar apríkósurnar líka) svo að ég ákvað að nota þetta saman og gera einfaldan eftirrétt sem ég þóttist vita að yrði nokkuð góður. Ef maður lætur þroskaðar apríkósur krauma í smjöri kemur svolítill karamellukeimur af þeim – án þess að nokkur sykur sé notaður.

_MG_9995

Ég var með rúmlega 500 g af vel þroskuðum, ítölskum apríkósum – tólf stykki – en það mætti líka nota ferskjur, nektarínur eða plómur; apríkósur eru þó bestar í þennan rétt, finnst mér.

_MG_9997

Ég skar þær í tvennt og fjarlægði steininn. Hann var mjög laus svo að það tók ekki langan tíma.

_MG_9999

Svo hitaði ég pönnu og bræddi 60 g af smjöri á henni við meðalhita.

_MG_0006

Svo raðaði ég apríkósuhelmingunum á pönnuna með skurðflötinn niður og lét krauma í 5-8 mínútur, eða þar til apríkósurnar voru farnar að mýkjast og linast án þess að fara í mauk; og kannski farnar að taka örlítinn lit en þó ekki að brúnast. Þær eiga eiginlega að bráðna saman við smjörið.

_MG_0009

Þá sneri ég þeim gætilega og lét þær krauma í 2-3 mínútur á hinni hliðinni.

_MG_0017

Þá tók ég pönnuna af hitanum, dreifði 200 g af hindberjum yfir og síðan svona 50 g af grófsöxuðum pekanhnetum, og bar fram með þeyttum rjóma.

Þetta var nú aldeilis ágætt bara.

*

Bræddar apríkósur með hindberjum

500-600 g apríkósur, vel þroskaðar

60 g smjör

200 g hindber

50 g pekanhnetur

rjómi, þeyttur (eða sýrður rjómi eða ís)

2 comments

  1. Núna fara lesendur síðunar að verða spenntir eftir að Nanna fari að kenna okkur hinum að nota öll spennandi matvælin sem fást í Costco

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s