Þegar ég hef ekki bloggað í nokkurn tíma hef ég gjarna byrjað aftur eftir hlé á að segja „nei, ég var ekki búin að gleyma blogginu“ eða eitthvað ámóta – en ég skal játa að í þetta skipti var ég hálfpartinn búin að gleyma blogginu. Ég hef bara haft svo mörgu öðru að sinna í sumar og bara ekki verið í neinu bloggstuði.
Eitt af því sem ég var einna mest upptekin af var að ganga frá þessari bók hér, sem er núna farin í prentsmiðju og kemur út í haust, kannski í lok september eða svo:
Þetta er semsagt bók sem er einkum um matreiðslu í steypujárnspottum, -pönnum og öðrum ílátum – en það er samt hægt að elda allt saman í öðrum pottum og pönnum og gefnar leiðbeiningar um það í uppskriftunum. En ég held ákaflega mikið upp á járnpotta og pönnur, eins og lesendur bloggsins ættu nú að vita. Uppskriftirnar eru rúmlega hundrað og eru af öllu tagi – pottréttir, steikur, súpur, kássur, snöggsteiktir réttir, sósur, brauð, kökur, eftirréttir …
En nóg um það (þangað til bókin kemur). Uppskriftin sem hér kemur er hins vegar ekki elduð í steypujárnspotti (en að vísu er steypujárnsgrind á grillinu mínu); grænkáls-baunablandan var að vísu steikt á steypujárnspönnu en ég gleymdi nú að taka mynd af því.
Ég var að fá fólk í mat og fór í fiskbúð. Og þar blasti við mér skötuselur sem ég gat engan veginn staðist.
Svo að ég keypti 8-900 grömm af honum og skar í stykki.
Ég kryddaði stykkin með kummini, kóríanderdufti, pipar (reyndar regnbogapipar en það var nú mest af því að það reyndist vera sá eini sem ég átti) og salti. Velti þeim svo upp úr olíu. Svo hitaði ég grillið.
Á meðan það hitnaði tók ég grænkálsknippi (ekki heimaræktað), skar stönglana úr blöðunum og saxaði þau gróft. Hitaði olíu á pönnu (já, steypujárnspönnu), saxaði tvo hvítlauksgeira og setti á hana og síðan grænkálið. Hrærði oft í því þar til það var farið að mýkjast og þá opnaði ég dós af baunum, hellti vökvanum af þeim í sigti og bætti þeim á pönnuna. Ég var með grænar límabaunir en það má nota ýmsar tegundir, t.d. borlottibaunir, smjörbaunir eða kjúklingabaunir. Að lokum hrærði ég 3-4 msk af pestói saman við. Ég var með heimagert pestó úr kryddjurtum sem ég rækta á svölunum en það má líka nota pestó úr búð.
Ég rækta líka ýmsar tegundir af salajurtum í pottum á svölunum – þarna er ég með lambasalat, rauðlaufssalat, rauðrófulauf, mizuna, tatsoi, klettasalat, sellerílauf og fjólur. Og nokkrar pekanhnetur og ólífuolíu, en það er nú ekki heimaræktað.
Grillið var orðið heitt og ég setti skötuselinn á það og grillaði hann við góðan hita í svona þrjár mínútur á hvorri hlið. Setti svo grænkáls-baunablönduna á fat og fiskinn ofan á.
Og þá var hægt að setja allt á borðið (já, ég gleymdi að ég gerði líka sætkartöflustöppu, kryddaða með pipar, salti, kummini og ögn af ferskri basilíku) og segja gestunum að gjöra svo vel.
Þetta var bara alveg ágætis matur.
*
Grillaður skötuselur með grænkáli og baunum
800-900 g skötuselur
1/2 tsk kummin
1/2 tsk kóríanderduft
nýmalaður pipar
salt
3 msk olía (1 fyrir skötuselinn, 2 fyrir grænkálið)
grænkálsknippi
2 hvítlauksgeirar
1 dós baunir (ég var með grænar límabaunir)
3-4 msk pestó
e.t.v. pipar og salt