Lambakjötsfjallið er mikið í umræðunni þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Fyrirsjáanleg lækkun á afurðaverði til bænda er auðvitað grafalvarlegt mál sem stefnir afkomu þeirra í voða og það snertir mig, sveitastelpuna gömlu. Ég get auðvitað ekkert gert í útflutningsmálunum og það er spurning hvað ég get gert til að auka sölu á lambakjöti – þótt mér þætti ekki verra ef þetta viðtal hefur haft einhver smá-áhrif.
En það sem ég get allavega gert er að kaupa lambakjöt, elda það, borða og skrifa um það. Og ég er að hugsa um að gera það næstu dagana, hvernig sem það gengur – það sem ég var jú fyrst og fremst að ræða í þessu viðtali var að mér finnst skortur á úrvali á ódýru, aðgengilegu (og helst ófrosnu) lambakjöti. Ég tala nú ekki um þegar maður er bara að elda fyrir einn eða tvo. En sjáum til hvernig gengur. Ég efast nú um að ég eldi lamb á hverjum degi í heilan mánuð, eins og fiskinn í „fiskbrúar“. En við sjáum til.
Eitt af því sem ég nefndi í viðtalinu að mér þætti vanta var að hægt væri að ganga að góðu lambagúllasi. Ég fór í sex verslanir – Bónus á Granda, Krónuna á Granda, Nettó á Granda, Hagkaup í Skeifunni, Nóatún í Austurveri og Víði í Skeifunni – og aðeins í tveimur þeirra fékkst lambagúllas. Í annarri voru almennilegir gúllasbitar (þó í minna lagi) í kjötborði, en of dýrir að mér fannst. Í hinni voru til þrír bakkar með lambagúllasi, 400- 500 g hver, á mun lægra verði. Hins vegar var þetta ekki það sem mér finnst vera gúllasbitar (teningar, 3-4 cm á kant; þannig var nauta- og svínagúllasið sem fékkst í flestum þessara verslana), heldur fremur eins og afskurður, litlir en þó misstórir og óreglulegir bitar og misjafnir. Hefðu til dæmis alls ekki hentað á grillpinna og of litlir fyrir almennilega lambagúllassúpu og margt annað.
En þótt þetta séu ekki gúllasbitar – finnst mér – hentar svona kjöt samt ágætlega í suma rétti og ég keypti einn bakkann. 425 g, kostaði rúmlega 900 krónur. Ætlaði að elda kjötið á fimmtudag eða föstudag en af því varð ekki og í gærkvöldi grillaði ég svo lambalæri (998 krónur kílóið í Víði, frábært verð). En í kvöld kom sonurinn í mat og ég eldaði lambakjötið (sem ég vil helst ekki kalla gúllas). Í þessum rétti hentar vel að bitarnir séu litlir og ef ég hefði verið með alvöru gúllasbita hefði ég líklega skorið þá í tvennt eða fernt.
Ég gleymdi satt að segja að taka myndir þangað til eiginlega allt var komið í pottinn. En ég byrjaði á að saxa tvo lauka og þrjá eða fjóra hvítlauksgeira. Svo tók ég víðan steypujárnspott (en ef maður á ekki svoleiðis er betra að nota þykkbotna pönnu), hitaði í henni 2 msk af olíu og lét laukinn krauma í henni við meðalhita þar til hann var að byrja að taka lit. Þá setti ég kjötið í pottinn ásamt hvítlauknum og lét það krauma þar til það var allt farið að brúnast – hrærði oft í því á meðan.
Svo stráði ég kryddi yfir: 1 1/2 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af túrmeriki, cayennepipar á hnífsoddi, pipar og salti, og hrærði vel, þar til kryddið fór að ilma. Setti svo vel kúfaða matskeið af hnetusmjöri út í (en það má svosem sleppa því), hellti úr einni dós af kókosmjólk á pönnuna, bætti við dálitlu vatni, hrærði vel, hitaði að suðu, setti svo lok yfir (ef maður á ekki pönnu með loki má leggja álpappírsörk yfir pönnuna) og lét malla í svona 35-40 mínútur. Eða þar til kjötið er meyrt, það tekur lengri tíma ef mikið er af bandvef og himnum í því.
Gott er að hræra í öðru hverju, kannski skafa botninn, og bæta við dálitlu vatni eftir þörfum. Þegar kjötið var meyrt tók ég svo grænkál – reyndar bara tvö blöð en þau voru óvenju stór – skar stilkinn úr þeim, grófsaxaði þau og setti út í. Og af því að ég átti dálítinn afgang af rjóma hrærði ég líka svona 100 ml af honum saman við – en það má alveg sleppa því.
Svo setti ég lokið aftur yfir og lét malla á lágum hita í svona 6-8 mínútur.
Bar þetta svo fram með soðnum hrísgrjónum. Og sellerílaufi sem ég rækta á svölunum af því að mér fannst það taka sig svo vel út á diskinum (og bragðið fer líka vel með) en það má nota eitthvert annað salatgrænmeti. Eða sleppa því.
Ég notaði ekkert grænmeti nema lauk og grænkál en það hefði alveg mátt setja t.d. gulrætur, spergilkál eða blómkál með.
*
Lambakjöt í kókoskarrísósu með grænkáli
400-500 g smátt skorið lambakjöt
2 laukar
3-4 hvítlauksgeirar
2 msk olía
1 1/2 tsk kóríanderduft
1 tsk kummin
1 tsk túrmerik
cayennepipar á hnífsoddi
pipar
salt
kúfuð matskeið af hnetusmjöri (má sleppa)
1 dós kókosmjólk
vatn eftir þörfum
nokkur grænkálsblöð
(skvetta af rjóma ef maður á hann til)
Algjörlega sammála með lambakjötið. Verður að skera og hantera betur fyrir nútímafolk. Gamla lambalærið þvi sem næst ósnyrt og eins skorið í 100 ár. Veit ekki hvað þeir eru að hugsa. Nenni ekki að kaupa það þó òdýrt sé i Víði.
[…] séu ekki mjög litlir; ég hefði t.d. ekki notað smátt skorna kjötið sem ég keypti í þennan rétt og var kallað gúllas í […]