Og meira lambakjöt … Ég held ég hafi nefnt það í gær að ég hefði grillað lambalæri um helgina en ég keypti reyndar tvö læri og það var bara annað sem fór á grillið. Hitt fékk að þiðna í rólegheitum í ísskápnum þangað til í dag. Það stóð aldrei til að heilsteikja það, heldur var það hugsað í nokkrar máltíðir fyrir einn eða tvo.
Til þess að það verði þarf maður að úrbeina lærið. Ég veit að það vex mörgum í augum að ráðast á svona kjötstykki … Í útlenskum matreiðslubókum stendur gjarna að maður eigi að biðja slátrarann sinn/kjötkaupmanninn að úrbeina fyrir sig og sjálfsagt fær maður nú svoleiðis þjónustu í sérverslunum hér. En ekki þegar maður kaupir lærið sitt úr kæli í Bónus eða frysti í til dæmis Víði eða Iceland (báðar búðirnar eru með læri á þúsundkall kílóið þessa dagana). Þá verður maður bara að gera það sjálfur. Það er ekki svo mikið mál.
Sjálf er ég enginn snillingur í að úrbeina, kann í rauninni ekki réttu handtökin við það, en það tekst nú samt sem áður ágætlega og tekur ekki langan tíma ef maður á þokkalegan hníf. Bara ráðast á lærið og skera alltaf sem næst beini, láta hnífsoddinn fylgja beininu … þetta kemur.
Ég tók nú engar myndir af úrbeiningunni, enda bar ég mig ekkert fagmannlega að við hana, en það tók mig nú ekki nema svona fimm mínútur að ná kjötinu í heilu lagi af beinunum. Lærið allt var tvö kíló, kjötið rétt tæp 1500 g þegar ég var búin að snyrta það aðeins, svo að kílóverðið á hreinu kjöti er um 1300 kr.
Ég skar svo kjötið niður. Álitlegasta vöðvabitann, um 400 g, ætla ég líklega að heilsteikja seinna. Annan vöðva, heldur minni (300 g) skar ég í þrjár nokkuð þykkar sneiðar. Allt hitt (um 800 g) skar ég í nokkuð stóra gúllasbita. Skipti svo gúllasinu í tvennt og frysti helminginn, en ekki hitt því það verður lambakjöt í matinn næstu dagana …
Ég ákvað að byrja á kjötsneiðunum, steikja þær á pönnu og krydda með regnbogapipar (fimmlitri piparblöndu). En það má bara nota svartan pipar. Ég byrjaði á að grófmala piparinn. Til þess nota ég ekki piparkvörn eða neitt slíkt, heldur þessa frumstæðu og einföldu græju sem ég er búin að eiga í tuttugu ár og gæti varla verið án.
Ég kryddaði sneiðarnar á báðum hliðum með piparblöndunni og flögusalti, sótti svo rósmaríngrein út á svalir, skipti henni í sex litla bita og þrýsti einum bita ofan í hvora hlið á sneiðunum.
Svo hitaði ég 1 msk af olíu á pönnu (steypujárnspönnu auðvitað, en það má alveg vera öðruvísi) og brúnaði kjötsneiðarnar á báðum hliðum við góðan hita.
Ég skar svo niður 250 g af sveppum og setti á pönnuna þegar ég var búin að snúa kjötinu við. Lét þá krauma með í 3-4 mínútur og hrærði oft. (Ef einhver af sveppahöturunum í fjölskyldunni hefði verið í mat hefði ég notað eitthvað annað, mögulega niðurskorinn kúrbít. En þar sem ég var ein fékk ég að hafa mína sveppi í friði). Kryddaði með pipar og salti.
Svo hellti ég svona 125 ml af vatni á pönnuna, lagði lok yfir (þarf ekki að vera þétt svo ég notaði bara lok af einhverjum potti), lækkaði hitann og lét malla rólega í 10-15 mínútur, eða þar til kjötið var meyrt.
Þá þykkti ég soðið með sósujafnara (ég notaði reyndar óvart of mikið, hefði viljað hafa sósuna ívið þynnri), smakkaði hana og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum, og svo tók ég nokkrar grófsaxaðar pekanhnetur og 2 msk af graskersfræjum og stráði yfir. Lét þetta malla í 1-2 mínútur í viðbót. (Það má sleppa þessu ef maður er ekkert fyrir hnetur og fræ.)
Á meðan þetta var að malla hafði ég skotist út á svalir og tínt blöð af nokkrum salatplöntum, og tók líka nokkrar dvergvaxnar radísur, heilar með laufi og öllu, og blandaði þessu saman í salat sem ég setti á disk með kjötinu og sveppunum.
Þetta var alveg ágætt, lambið meyrt og gott. Kjötið í máltíð fyrir einn (og það var nóg eftir í nesti á morgun) kostaði 390 krónur.
*
Lambasneiðar með sveppum, hnetum og fræjum
(fyrir 1-2)
300-400 g lambakjöt (lærvöðvi, skorinn í 1 1/2 cm þykkar sneiðar)
regnbogapipar eða svartur pipar, grófmalaður
salt
rósmaríngrein
1 msk olía
250 g sveppir
125 ml vatn, eða eftir þörfum
sósujafnari
5-8 pekanhnetur, grófsaxaðar
2 msk graskersfræ
[…] ætla að halda eitthvað áfram með lambakjötið (það er jú nóg eftir af lærinu, til dæmis) og þegar ég sat úti á pallinum í vinnunni í hádeginu í dag í sól og blíðu […]
[…] er komið að síðasta hlutanum af lambalærinu sem ég keypti í síðustu viku, ég eldaði hann þegar ég kom heim núna áðan. Þetta tveggja kílóa læri er búið að duga […]