Ég ætla að halda eitthvað áfram með lambakjötið (það er jú nóg eftir af lærinu, til dæmis) og þegar ég sat úti á pallinum í vinnunni í hádeginu í dag í sól og blíðu kom mér af einhverri ástæðu Grikkland í hug. Og þegar ég fór svo að hugsa um kjötið sem ég átti heima var eiginlega bein tenging við souvlaki. Það er reyndar nokkuð fast í mér að souvaki sé alltaf lambakjöt en það er nú ekki. Í Grikklandi og Kýpur, þar sem það er upprunnið, er frekar notað svínakjöt þótt lamb, naut eða kjúklingur þekkist líka.
En mér finnst nú samt að þetta eigi að vera lamb.
Hvað sem því líður þýðir souvlaki lítið spjót eða eitthvað slíkt og á grísku eynni Santorini hefur fundist útigrill – ja, allavega steinar með rákum fyrir teina – sem er talið eitthvað rúmlega 3500 ára gamalt. Svo að grilleldamennska á sér nokkuð langa sögu í Grikklandi. Ég er orðin svo gömul að ég er nú meira fyrir grísku aðferðina en sous vide og svoleiðis. En ég nota samt Weber-gasgrillið mitt fyrir svona.
Ég byrjaði á því um leið og ég kom heim úr vinnunni að gera maríneringu: safi úr hálfri sítrónu, 2 1/2 msk ólífuolía, 3 hvítlauksgeirar, saxaðir, 1 1/2 tsk óreganó, pipar og salt.
Svo tók ég annan pakkann með gúllasinu sem ég skar niður í gær. – Þegar ég skipti því setti ég kjötið neðst af leggnum og aðra bita sem innihéldu mikið af bandvef og himnum í annan pakkann, því slíkir bitar þurfa mun lengri og hægari eldun. Í þessum pakka, sem var rétt rúm 400 g, voru hins vegar eingöngu meyrari bitar, yfirleitt 3-4 cm á kant eða stærri. Ég setti þá út í maríneringuna og velti þeim upp úr henni. Lét svo standa í 1-1 1/2 klst. og hrærði öðru hverju.
Þá kveikti ég á grillinu og þræddi svo kjötbitana upp á teina. Ég var með þrjá málmteina; ef notaðir eru tréteinar er best að leggja þá í bleyti í svona hálftíma svo að þeir brenni síður.
Svo setti ég teinana á grillið og grillaði þá við meðalhita, líklega í svona 10 mínútur samtals, eða þar til kjötið var meyrt, og sneri þeim nokkrum sinnum. Ég hafði lokið á grillinu mestallan tímann.
Á meðan útbjó ég sósu – 1 dós (170 ml) hrein AB-jógúrt (má vera venjuleg hrein jógúrt), 2 tsk ólífuolía, svolítill pipar og salt, dálítið af ferskum kryddjurtum. Bara það sem maður á til eða vill nota; ég rækta svo margar tegundir á svölunum að ég hafði úr ýmsu að velja en þarna er rósmarín, ferskt óreganó og steinselja. Hrærði þetta saman, smakkaði og bragðbætti með ögn meiri pipar.
Svo skar ég dálítinn gúrkubita í teninga og tvo vel þroskaða tómata í sneiðar. Dreifði þessu á lítið fat ásamt nokkrum ólífum, bita af muldum fetaosti (helst grískum), sítrónubátum – og svo hafði ég rekist á þessi litlu krúttlegu bok choi-salathöfuð í Rabarbarnum í Mathöllinni á Hlemmi; ég skar eitt þeirra í tvennt og hafði með.
Ég hafði líka keypt súrdeigsrúnnstykki á Hlemmi og hafði það með. Auðvitað ætti þetta að vera pítubrauð en maður fær nú varla almennileg svoleiðis nema baka þau sjálfur. Svo að ég lét hitt duga. Gjörsvovel, souvlaki með grísku salati og jógúrtsósu.
Bara alveg ágætt. Og helmingurinn af lærinu eftir enn.
*
Souvlaki með grísku salati
(fyrir 2)
400-500 g lambagúllas, ekki mjög litlir bitar
safi úr 1/2 sítrónu
2 1/2 msk ólífuollía
1 1/2 tsk þurrkað óreganó
3 hvítlauksgeirar
pipar
salt
gúrkubiti
tómatar, vel þroskaðir
ólífur
fetaostur, helst grískur
salatblöð (má sleppa)
*
Jógúrt-kryddjurtasósa
1 dós (170 g) AB-jógúrt, hrein
2 tsk ólífuolía
2-3 msk saxaðar ferskar kryddjurtir eftir smekk
pipar
salt
[…] var annar gúllasskammturinn sem var eftir. Hinn notaði ég í souvlaki í fyrradag og eins og ég sagði þá flokkaði ég kjöti sem ég skar í gúllasbita dálítið niður og […]