Ég þurfti í búð eftir vinnu og fór í Krónuna á Granda. Ég held að ég hafi nefnt um daginn að þegar ég fór í leiðangur að skoða framboð á lambakjöti í búðum fannst mér úrvalið af bitum af því tagi sem ég hef verið að leita eftir – ófrosnir, tiltölulega ódýrir, ekki mjög stórir skammtar – einna best í Krónunni. Nema mér finnst auðvitað að þar ætti að vera kjötborð …
En Krónan stendur sig betur en margir aðrir og ég sá ekki betur en úrvalið væri jafnvel meira en um daginn. Til dæmis sá ég steikur eða hluta af úrbeinuðu læri, vel innan við kíló – fínn biti til dæmis til að hægsteikja í ofnpotti eða skera í gúllasbita og ýmsar steikur. En ekkert lambahakk auðvitað … Það voru líka til niðurskorin slög, hræódýr; úr þeim má vel gera góðan mat. Og svo var þarna kindainnanlæri á eitthvað rétt rúmlega tvö þúsund krónur kílóið. Fínn matur sem ég ætla örugglega að elda fljótlega.
Innanlæri, já. Dýrustu lambakjötsbitarnir sem ég fann í lambakjötsleiðangrinum í síðustu viku voru innanlærisbitar (og reyndar líka lambageiri og ribeye) frá Norðlenska, eitthvað kryddað eða marínerað, sem fékkst í Víði og kostaði 6850 krónur kílóið.
6850 krónur.
Það er töluvert meira en bændur geta gert ráð fyrir að fá fyrir hvert lamb í haust. Heilt lamb. Og það er brjálæði. Ég á eiginlega ekki annað orð yfir það.
En í Víði keypti ég líka þetta læri sem ég er búin að vera að matreiða síðustu daga og nú var einmitt komið að innanlærvöðvanum. Lærið kostaði semsagt 998 krónur kílóið, hreint kjöt af því var 1500 g, sem gerir um 1300 krónur/kíló. Þar með talinn þessi ríflega 400 gramma innanlærvöðvi, sem kostaði mig þá kannski 550 krónur. Passaði fyrir tvo.
Það borgar sig vissulega fyrir mig að úrbeina sjálf. Maður þarf ekki einu sinni að kunna það, þetta verður ekki óætt þótt það sé ekki skorið eftir kúnstarinnar reglum og kannski klaufalega …
Þegar ég opnaði ísskápinn til að kanna hvað ég ætti til sem gæti nýst við matargerðina rak ég augun í poka með (fyrrverandi) frosnum bláberjum, villtum, sem ég hafði tekið úr frysti og ætlað að nota um helgina en hætti við. Og það þurfti eiginlega að fara að brúka þetta eitthvað svo að ég ákvað að elda bara lamb í bláberjasósu.
Ég byrjaði á að skjótast út á svalir og ná í rósmaríngrein ög ögn af timjani sem ég rækta þar og kryddaði kjötið með þessu, ásamt grófmöluðum pipar og salti. Það má líka nota þurrkaðar kryddjurtir eða bara það krydd sem manni dettur í hug. Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu og 1 msk af smjöri á lítilli, þykkbotna pönnu og setti kjötið á hana.
Brúnaði það við góðan hita í svona 2 mínútur á hvorri hlið. Þegar ég var búin að snúa því setti ég einn lauk, sem ég var búin að saxa, og tvo smátt saxaða hvítlauksgeira á pönnuna og lét krauma.
Þegar kjötið var búið að brúnast vel og laukurinn var byrjaður að taka lit hellti ég innihaldi bláberjapokans (225 g, ber og safi) á pönnuna og bætti svo við svona 100 ml af vatni og 1 tsk af lambakrafti. Lét suðuna koma upp og lækkaði svo hitann eins og hægt var, lagði lok yfir (þarf ekki að vera alveg þétt, ég notaði bara lok af einum pottinum mínum) og lét þetta malla í svona 8-12 mínútur, eða eftir því hvað maður vill hafa kjötið mikið steikt. Mitt var 8 mínútur.
Svo smakkaði ég sósuna og bragðbætti hana með pipar og salti. Berin eru svolítið súr og það gæti verið að einhver mundi vilja setja ögn af hunangi eða jafnvel sykri út í. Ég geri það ekki og finnst engin þörf á. Ég þykkti heldur ekki sósuna en það má alveg; þó er best að hún sé fremur þunn.
Ég var búin að sjóða bygg (perlubygg frá Vallanesi, en það má líka nota venjulegt bygg, nú eða hafa bara hrísgrjón eða kartöflur eða eitthvað allt annað) og setti það á fat. Setti kjötið með og jós berjum og sósu yfir.
Og með þessu var svo heimaræktað blandað salat. Alveg bara ljómandi gott fyrir 1300 krónur kílóið. Ég hefði kannski ekki borgað 6850 krónur fyrir þetta en það hefði ég nú heldur ekki gert fyrir kjötið sem ég nefndi í upphafi.
Þið steikið kjötið bara ögn lengur ef ykkur sýnist svo …
*
Lambainnanlæri í bláberjasósu
(fyrir 2)
400-500 g lambainnanlæri
rósmarín og timjan, ferskt eða þurrkað
nýmalaður pipar
salt
1 msk ólífuolía
1 msk smjör
1 laukur, lítill
2 hvítlauksgeirar
225 g bláber (fryst en þiðnuð)
100 ml vatn, eða eftir þörfum
1 tsk lambakraftur