Vorboðinn súri

Maður er svona aðeins farinn að láta sér detta í hug að það komi einhverntíma sumar. Mögulega. Og kannski má það koma fram í uppskriftunum, ég á góðan slatta af sumarlegum uppskriftum á lager frá því í fyrra og hitteðfyrra og kannski eldri. Það er samt ekki aaaalveg kominn tími á köldu súpurnar – ég á nokkrar óbirtar uppskriftir að svoleiðis góðgæti en læt þær bíða eftir næstu hitabylgju kannski – en nú er allavega kominn rabarbaratími.

Rabarbarinn er vorboðinn í íslenskum matjurtagörðum, sá sem ég rækta í potti á svölunum hefur tekið vel við sér þrátt fyrir veðrið. Aðrar ætilegar jurtir eru ekki enn komnar á það stig að ég geti farið að nota þær í mat, nema skessujurtin. En ég sá nú ekki betur áðan en það væru komin blóm á einhverjar af jarðarberjaplöntunum og sólberjarunninn blómstraði í vor. Og það líður ekki á löngu þar til ég get farið að nota einhverjar af salatjurtunum. Þetta er allt í góðum gír – ég tala nú ekki um ef fer að hlýna …

En rabarbari semsagt. Hér er uppskrift að rabarbarasalati. Ég gerði þetta fyrir MANB vorið 2016 og myndirnar sem ég tók af undirbúningnum hafa líklega glatast í harðadiskshruninu skömmu seinna. En þær eru nú ekkert krítískar, held ég.

Rabarabari er fullsúr til að nota hann alveg hráan í salat en það er heldur ekki gott að elda hann svo mikið að hann fari að linast að ráði, þá fer hann bara í mauk og það er ekki sniðugt. Ekki í salati. Svo að ég hálfbakaði hann. – Það er alveg hægt að gera þetta á öðrum árstímum og nota frosinn rabarbara en þá er eiginlega enn mikilvægara að baka hann ekki of lengi.

Salatið er gott sem meðlæti, t.d. með svínakjöti, lambakjöti eða kjúklingi.

Rabarbarasalat (7)

Ég byrjaði á að hita ofninn í 220°C. Tók svo 200 g af rabarbara (gjarna rauðum), skar hann í bita og setti þá í lítið, eldfast mót. Saxaði líka einn lítinn rauðlauk smátt og blandaði saman við. Dreypti 2 msk af hunangi og 1 msk af balsamediki jafnt yfir og bakaði rabarbarann í um 6 mínútur, eða þar til hann var farinn að mýkjast dálítið en hélt enn vel lögun. Ef notaður er frosinn rabarbari þarf hann e.t.v. aðeins lengri tíma. Hellti svo leginum af rabarbarann í skál og lét hann síðan kólna.

Svo tók ég 200 g af blönduðum salatblöðum og setti á fat (eða í skál), ásamt 40 g af grófmuldum valhnetum og 40 g af ljósum rúsínum (mega vera dökkar en ljósar eru betri). Svo grófmuldi ég 75 g af fetaosti og blandaði meirihlutanum af honum saman við salatið. Síðan hristi ég eða þeytti saman löginn af rabarbaranum, 3 msk af ólífuolíu og dálítinn pipar og salt, hellti þessu yfir salatið og blandaðu. Og að síðustu dreifði ég rabarbarabitunum yfir, ásamt afganginum af fetaostinum.

Rabarbarasalat

200 g rabarbari

2 msk hunang

1 msk balsamedik

1 lítill rauðlaukur

200 g blönduð salatblöð

40 g valhnetur, grófmuldar

40 g rúsínur, gjarna ljósar

75 g fetaostur, mulinn

3 msk ólífuolía

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s