Sumar í aðsigi?

Þótt veðrið hafi verið bara þokkalegt í dag – og kannski var þetta bara fyrsti sumardagurinn hér í höfuðborginni, fyrsti af mörgum ef maður er bjartsýnn (en helgarspáin gefur kannski ekki tilefni til þess) – þá er kannski ekki alveg tilefni til að koma með uppskriftir að mjög sumarlegum mat. Þetta salat hér er meira vorlegt en sumarlegt, kannski …

Uppskriftin birtist reyndar í aprílblaði MAN, í síðasta þættinum mínum þar. Ég var búin að vera með fastan þátt í blaðinu frá byrjun, í fjögur og hálft ár, og fannst alveg kominn tími til að einhver annar tæki við – og svo er ég að reyna að minnka við mig vinnu. Það gengur reyndar misjafnlega …

Eiginlega ætlaði ég upphaflega að nota ferskar nektarínur eða ferskjur í salatið en þegar ég var að gera þetta var það á kolröngum árstíma, nektarínurnar voru allt of dýrar og ferskjurnar sem ég gat fengið voru nær óætar svo að ég greip til þeirra niðursoðnu. Þær eru reyndar alveg ljómandi góðar hér og fara vel með hinu hráefninu. En auðvitað er hægt að nota ferskar líka. Þetta ætti alveg að duga fyrir fjóra sem léttur réttur.

IMG_1304

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég svona 250 g af góðu brauði, reif það í bita (það má líka skera það niður en mér finnst samt koma betur út að rífa það), dreifði þeim á bökunarplötu og bakaði í 5-7 mínútur, eða þar til brauðið var byrjað að verða stökkt en ekki farið að brenna. Þá tók ég það út og lét það kólna.

IMG_1320

Svo tók ég 150 g af beikoni og steikti það á pönnu þar til það var stökkt. Setti það svo á eldhúspappírsörk, lagði aðra örk yfir og setti pressu eða farg ofan á (já, ég veit að það eiga ekki allir sérstaka beikonpressu eins og ég). Svo bætti ég 1/2 msk af ólífuolíu á beikonpönnuna. Opnaði eina litla ferskjudós – það eru venjulega svona 4 ferskjuhelmingar í hverri og ég skar hvern þeirra í 4 báta, setti þá á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur.

IMG_1325

Svo setti ég 100 g af blönduðum salatblöðum í skál eða á fat og reif eina mozzarellakúlu niður í bita og blandaði saman við. Skar svo beikonið í bita og setti út í, ásamt ferskjubátunum.

IMG_1328

Að lokum setti ég brauðið í skálina og blandaði öllu saman við.

Ég tók svo eina sítrónu, reif af henni börkinn og kreisti úr henni safann i skál og þeytti 3 msk af ólífuolíu og 1 tsk af dijonsinnepi saman við. Grófsaxaði lófafylli af basilíku og hrærði saman við.

IMG_1854

Hellti svo sósunni jafnt yfir og blandaði vel.

*

Ferskju-, beikon- og mozzarellasalat 

250 g gott brauð

150 g beikon

1 lítil dós niðursoðnar ferskjur (4 helmingar)

3 1/2 msk ólífuolía

1/2 sítróna (börkur og safi)

1 tsk dijonsinnep

lófafylli af basilíku

100 g blönduð salatblöð

1 mozzarellakúla

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s