Ég hef alveg látið bloggið eiga sig undanfarna tvo mánuði en það er vegna þess að ég hef verið á kafi í að vinna nýja bók (segi nánar frá henni seinna) og allur frítími minn hefur einfaldlega farið í það – tilraunir, eldamennsku, myndatökur, skriftir – en nú er það frá – nema ég er enn að burðast við að skrifa formálann. Ég á oft í mestu vandræðum með formála og þeir geta tafið fyrir bókum. Maður endar yfirleitt á að skrifa þá þótt bækurnar hefjist á þeim. Kannski ætti ég að prófa einhverntíma að byrja á formálanum. En það gengur samt eiginlega ekki því að bækurnar mínar hafa tilhneigingu til að breytast töluvert á meðan ég er að vinna þær og verða að einhverju allt öðru, samanber smáréttabókin sem ég ætlaði að gera með 200 uppskriftum sem varð svo að Matreiðslubók Nönnu með 3600 uppskriftum …
Meira um það seinna semsagt. En hér kemur uppskrift sem er ekki úr væntanlegri bók og er ekki einu sinni vitund lík neinu sem verður í henni. Nema hvað hún er frekar einföld og auðveld og bara ansi hreint góð, sem gildir náttúrlega um allar uppskriftirnar í bókinni, finnst mér …
Þetta er uppskrift frá Norður-Kýpur, þar sem ég var um síðustu jól. Eða ég var eiginlega meira á suðurhlutanum, sem heitir bara Kýpur, gisti bara jólanóttina norðan megin, en þegar ég var í Nikósíu fór ég norður yfir landamærin til að borða hádegismatinn flesta daga. Og þessi uppskrift er þaðan en ég geri nú ráð fyrir að eitthvað mjög svipað sé eldað sunnan megin.
Þetta eru semsagt kúrbíts-, feta- og mintubuff, einstaklega góð grænmetisbuff, tilvalin sem meze eða forréttur. Á Kýpur er algengara að gera litlar bollur úr blöndunni og djúpsteikja þær en mér finnst þetta enn betra sem pönnusteikt buff.
Ég byrjaði á að taka um 500 g af kúrbít og rífa hann á grófu rifjárni. Svo setti ég hann í sigti – eða reyndar reif ég hann beint ofan í dörslag – og stráði svona 1 tsk af salti yfir og lét þetta standa í a.m.k. hálftíma.
Svo hvolfdi ég kúrbítnum úr sigtinni á viskastykki (þarf nokkuð að taka fram að það á að vera hreint?), tók um hornin á því til að mynda sekk og kreisti eins mikinn safa og ég gat úr kúrbítnum. Og það er alveg töluvert af safa.
Svo saxaði ég 3-4 vorlauka og væna lúku af mintulaufi frekar smátt og blandaði saman við kúrbítinn í skál. Síðan grófmuldi ég 200 g af fetaosti (helst ekta grískum, hann er mun betri í þetta, en það má nota annan ef maður er tilneyddur) og blandaði saman við kúrbítinn, ásamt einu eggi og slatta af pipar.
Síðan hrærði ég hveiti saman við, svona 100 g, eða bara eins miklu og þurfti til að blandan loddi saman og hægt væri að móta lítil buff úr henni með lófunum – um 16 stykki. En þau eiga samt að vera frekar blaut, ekki þurr, og það er gott að strá hveiti á lófana svo að auðveldara sé að móta þau.
Svo hitaði ég svona 4 msk af ólífuolíu á pönnu og steikti buffin við meðalhita í 3–4 mínútur á hvorri hlið …
… eða þar til þau höfðu tekið góðan lit. Lét svo renna af þeim á eldhúspappír. Ég var búin að gera einfalda jógúrtsósu – hrærði 300 g af grískri jógúrt og 100 ml af ólífuolíu vel saman, kryddaði með pipar og salti og þynnti sósuna e.t.v. svolítið með köldu vatni (það má líka krydda með hvítlauk, söxuðum kryddjurtum eða einhverju öðru ef maður vill).
Svo bar ég buffin fram með sósunni, ásamt salatblöðum og grænmeti. Þetta ætti að passa fyrir svona fjóra sem smáréttur eða forréttur.
*
Kúrbíts-, feta- og mintubuff
um 500 g kúrbítur
1 tsk salt
3–4 vorlaukar
væn lófafylli af mintulaufi
200 g fetaostur, helst grískur
1 egg
pipar
um 100 g hveiti
4 msk ólífuolía
salatblöð, tómatar eða annað grænmeti
*
Jógúrtsósa
300 g grísk jógúrt
100 ml ólífuolía
pipar og salt
e.t.v. svolítið kalt vatn