Það er orðið ansi langt síðan ég hef komið með kjötuppskrift og þess vegna er hér önnur uppskrift úr sama þætti og salatið sem ég setti inn í gær. Þetta var hvorttveggja gert fyrir tveggja ára afmælisblað MAN 2015 og ég setti þá upp matarveislu – hér er semsagt aðalrétturinn, nautasteik með kryddjurtasósu. Svona fyrir þá sem ekki eru komnir með sous vide-græjur …
Þegar kjötstykki eru steikt með hefðbundinni aðferð er oft byrjað á að brúna þau á pönnu og svo eru þau kláruð í ofninum og síðan látin standa og jafna sig nokkra stund en hér er farin öfug leið – kjötið er fyrst steikt í ofni, svo látið bíða smástund og síðan brúnað. Þannig er auðveldara að fá kjötið jafnrautt í gegn og það má skera það um leið og það kemur af pönnunni.
Ég var með tvær um 500 g sneiðar af nauta-ribeye en ef notaður er einn þykkari biti þarf kjötið lengri tíma í ofninum. Ég nuddaði kjötið með 1 msk af olíu, kryddaði það með 1 tsk af sinnepsdufti (eða öðru kryddi eftir smekk), nýmöluðum pipar og salti og setti það í eldfast mót. Hitaði ofninn í 170°C.
Ég steikti kjötið í um 12 mínútur (lengur ef það er þykkara) eða þar til kjarnahitinn er 55°C, eða eftir smekk) Þá tók ég það út og lét það bíða í 10 mínútur.
Á meðan sauð ég 200 g af sykurbaunum í saltvatni í 2 mínútur, eða samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum ef notaðar eru frystar baunir. Skar 100 g af kirsiberjatómötum í helminga. Ég gerði líka kryddjurtasósu: maukaði saman 1/2 knippi af basilíku, 1/2 knippi af flatblaða steinselju, 1 hvítlauksgeira, 1 msk af nýkreistum sítrónusafa, pipar og salt og þeytti svo 125 ml af ólífuolíu saman við smátt og smátt. Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
Ég hitaði svo þykkbotna pönnu mjög vel, setti 1 msk af olíu á hana og brúnaði kjötið við háan hita í 1-2 mínútur á hvorri hlið. Skar það svo í sneiðar þvert á vöðvaþræðina.
Dreifðu sykurbaunum og kirsiberjatómötum á fat, leggðu kjötsneiðarnar ofan á og dreyptu dálítilli kryddjurtasósu yfir. Berðu afganginn af sósunni fram með kjötinu, ásamt hnúðkáls- og eplasalati og e.t.v. bökuðum kartöflubátum.
Já, salatið: ég skar tvö rauð epli í fjórðunga, kjarnhreinsaði þau og skar þau í örþunnar sneiðar (notaði matvinnsluvél, það er fljótlegast). Setti sneiðarnar í skál ásamt safa úr 1 sítrónu og blandaði til að þekja eplasneiðarnar með safanum svo að þær yrðu ekki brúnar. Svo reif ég 500 g af hnúðkáli á grófu rifjárni og blandaði saman við eplin, ásamt dálítilli saxaðri steinselju, pipar og salti. Stráði 2 msk af grófsöxuðum pistasíuhnetum yfir.
*
Nautasteik með kryddjurtasósu
1 kg nauta-ribeye
2 msk olía
1 tsk sinnepsduft
nýmalaður pipar
salt
200 g sykurbaunir, ferskar eða frystar
100 g kirsiberjatómatar
*
Kryddjurtasósa
1/2 knippi basilíka
1/2 knippi flatblaða steinselja
1 hvítlauksgeiri
1 msk sítrónusafi
pipar
salt
125 ml ólífuolía
*
Hnúðkáls- og eplasalat
2 rauð epli
safi úr 1 sítrónu
500 g hnúðkál
3-4 msk söxuð steinselja
pipar
salt
2 msk pistasíuhnetur, grófsaxaðar (eða aðrar hnetur)