Veislusalat

Þetta sérlega litríka og fallega salat ætti að henta sérlega vel á veisluborð, til dæmis um páskana. Það lítur vissulega býsna sumarlega út en það er hægt að gera það á hvaða árstíma sem er. Ég notaði tvær tegundir af grænum baunum sem ég átti í frysti – auðvitað má nota ferskar líka en það er engin sérstök ástæða til. Og radísurnar eru auðvitað bestar nýuppteknar úr eigin garði (eða potti á svölunum) en þarna var ég reyndar bara með radísur úr búð.

Það eina sem kannski vantar nýtt íslenskt spergilkál, sem er sérlega litsterkt og bragðgott; það er ekki víst að spergilkálið sem maður fær úti í búð núna sé alveg svona fallegt en það verður bara að hafa það, salatið er býsna litríkt samt sem áður, ekki síst þegar hindberjasósan er komin á það.

Salatið getur verið forréttur eða milliréttur en er líka ágætis meðlæti með ýmsum mat. Ég finn ekki myndir af undirbúningnum en þær eru nú kannski óþarfar.

Grænmetissalat (5)

Ég var með 150 g af spergilkáli – íslensku alltsvo, því að ég gerði þetta síðsumars – sem ég skipti í litla kvisti og skar mestalla stilkana af (þá má nota í súpu eða annað). Sauð þá svo í léttsöltuðu vatni í 4 mínútur, helltu þeim svo í sigti og lét kalt vatn buna á þá snöggvast til að stöðva suðuna. Svo tók ég 50 g af frosnum strengjabaunum og 50 g af sykurbaunum (það má nota bara aðra tegundina og þá 100 g) og sauð þær samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum; ef maður er með ferskar baunir má sjóða strengjabaunir í 4-5 mínútur og sykurbaunirnar í 2 mínútur. Lét svo vatn buna á þær í sigti til að stöðva suðuna og kæla þær ögn. Eg dreifði svo spergilkáli og baunum á fat eða diska.

Svo skar ég 4-5 radísur í örþunnar sneiðar og 5-6 þurrkaðar apríkósur(best að nota hálfþurrkaðar/mjúkar apríkósur) í litla bita. Grófsaxaðu 6-8 pekanhnetur og dreifði þessu öllu yfir spergilkálið og baunirnar. Skreytti svo með basilíku (þarna átti ég bæði fjólubláa basilíku og dvergbasilíku) og e.t.v. öðrum kryddjurtum.

Grænmetissalat (2)

Ég gerði svo hindberjasósu – tók 100 g af frystum hindberjum sem ég hafði látið þiðna og maukaiu þau svo í matvinnsluvél (eða með töfrasprota) ásamt 2 msk af saxaðri steinselju. Þeytti svo 1 msk af balsamediki og 2 msk af ólífuolíu saman við og kryddaðu með pipar og salti eftir smekk. Svo dreypti ég dálitlu af hindberjasósunni yfir salatið og bar afganginn fram með.

Grænmetissalat (4)

 

 

Litríkt grænmetissalat með hindberjasósu

150 g spergilkál

salt

50 g strengjabaunir

50 g sykurbaunir (eða aðeins önnur tegundin)

4-5 radísur

5-6 þurrkaðar apríkósur

6-8 pekanhnetur

nokkur basilíkublöð, gjarna fjólublá

e.t.v. aðrar kryddjurtir

*

Hindberjasósa

100 g hindber, fryst

2-3 msk söxuð steinselja

1 msk balsamedik

2 msk ólífuolía

pipar

salt

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s