Smávegis sætt fyrir páskana …
„Ostakökur“ þurfa ekki að vera stórar; hér má segja að hvert jarðarber sé ostakaka, þar sem berin eru fyllt með bragðbættum mascarpone-osti og síðan dýft í súkkulaðikökumylsnu sem kemur í staðinn fyrir botninn.
Þegar ég gerði þetta átti ég stóran kassa af gómsætum jarðarberjum, meðalstórum eða kannski tæplega það. Allavega er best að þau séu sem jöfnust að stærð og hlussustóru jarðarberin sem sumstaðar fást núna henta alls ekki í þetta.
Ég notaði 500 g af berjum en það má auðvitað nota meira eða minna eftir atvikum. Ég fjarlægði grænu blöðin og holaði berin innan með hnífsoddi.
Ég hrærði svo saman 250 g af mascarpone-osti, 1 msk af hunangi (eða eftir smekk) og 1 tsk af vanilluessens. Setti kúfaða teskeið af blöndunni í hvert ber – fyllingin á sem sagt að að mynda kúf upp úr berinu, helst dálítið óreglulegan en ekki sléttan.
Svo tók ég nokkrar súkkulaðibitakökur, þær mega vera hvort heldur er heimabakaðar eða keyptar, og muldi þær fremur fínt en þó ekki í duft. Ég setti þær í matvinnsluvél og notaði púlshnappinn á henni en það má líka mylja þær í höndunum eða setja þær í plastpoka og mylja þær með kökukefli.
Ég setti mylsnuna svo á disk (sem þarf ekkert að vera merktur Kaupfélagi Skagfirðinga þótt þessi sé það) og velti hverju beri – það er að segja fyllingarendanum – upp úr kökumylsnunni þannig að hún þeki fyllinguna.
Ég kældi svo berin áður en ég bar þau fram. Hjá mér urðu þetta svona 40-50 ber (nei, þau eru ekki öll þarna á diskinum) en það fer auðvitað eftir því hve stór þau eru.
*
Ostaköku-jarðarber
500 g jarðarber
250 g mascarpone-ostur
1 msk hunang, eða eftir smekk
1 tsk vanilluessens
nokkrar súkkulaðibitakökur, heimabakaðar eða keyptar