Ég var spurð um uppskrift að paprikusúpu og lítið mál að verða við því. Nú veit ég ekkert hvort þetta er nokkuð í átt að þeirri paprikusúpu sem fyrirspyrjandinn var með í huga en þessi hefur allavega þótt nokkuð góð og einföld er hún líka, því að ég notaði grillaða papriku úr krukku. En það má líka nota papriku-tómatgrunn eins og í ídýfunni sem ég gaf uppskrift að í gær, ef maður vill gera þetta frá grunni.
Þessi súpa er í bókinni minni, Pottur, panna og Nanna, sem kom út síðasta haust og er um matreiðslu í steypujárnspottum og -pönnum. Nú skal ég játa – og tek það líka fram í bókinni – að það er kannski engin sérstök ástæða til að elda þessa sáraeinföldu en ljúffengu súpu í steypujárnspotti fremur en öðrum pottum. Hún nýtur sín bara svo vel – ég takla nú ekki um þegar potturinn er svartur að innan. En það má nota hvaða pott sem er …
Myndirnar voru allar teknar fyrir bókina og eru þess vegna í portrettformati. En svosem ekki verri fyrir það. – Súpan var hugsuð sem forréttur fyrir fjóra en það má líka bera hana fram eina sér með brauði og þá passar hún líklega fyrir tvo.
Ég byrjaði á að saxa einn lauk smátt og 2-3 hvítlauksgeira mjög smátt. Hitaði svo 1 msk af olíu (ég notaði bara olíu úr paprikukrukkunni) í þykkbotna potti og lét lauk og hvítlauk krauma við vægan hita í um 8 mínútur. Svo setti ég 1 krukku af grillaðri papriku í hakkara (eða matvinnsluvél eða blandara), ásamt lófafylli af basilíkublöðum (það mætti skilja smávegis eftir til að skreyta), og maukaði þetta saman. Hellti svo blöndunni í pottinn.
Þá opnaði ég dós af söxuðum tómötum og hellti innihaldinu út í, ásamt 1 msk af tómatkrafti (paste) og 250 ml af vatni. Kryddaði með klípu af cayennepipar og pipar og salti eftir smekk, hitaði að suðu og lét malla rólega í um 10 mínútur. Þá hrærði ég 250 ml af rjóma saman við og lét malla í nokkrar mínútur í viðbót.
Og þá er súpan barasta tilbúin. Nema ef maður vill má skreyta hana með nokkrum basilíkublöðum eða ræmum af saxaðri basilíku. En það er engan veginn nauðsynlegt.
*
Papriku-tómatsúpa
1 laukur
2-3 hvítlauksgeirar
1 msk olía
1 krukka grilluð paprika
lófafylli af basilíkublöðum
1 dós saxaðir tómatar
1 msk tómatkraftur (paste)
250 ml vatn
cayennepipar á hnífsoddi
pipar
salt
250 ml rjómi
Takk fyrir páskasúpuna! Hlakka til að elda hana.