Suðræn þrenna

Sú var tíðin (þegar ég var ung og það er orðið nokkuð langt síðan) að það var ekki hægt að hafa partí án þess að vera með rækjusalat. Það var kannski eitt eða tvö önnur salöt (eða ídýfur) á boðstólum, en það varð að vera rækjusalat. Og Ritzkex auðvitað. Það var dálítil uppgötvun á sínum tíma að það væri kannski ekki bráðnauðsynlegt að hafa svoleiðis. En það urðu nú samt að vera einhverjar ídýfur …

Ég hef alltaf verið dálítið gefin fyrir salöt og ídýfur, jafnvel þótt það sé ekki partí – ég er reyndar ekki mikið partíljón í seinni tíð og seinni tíð hófst einhverntíma upp úr 1980 – og hef meira að segja gefið út bók sem meira og minna gengur út á svoleiðis, það er þessi hér. Uppskriftirnar sem hér koma eru reyndar í henni, kannski aðeins breyttar, en upphaflega voru þær gerðar fyrir MAN og voru þrjár saman; þess vegna eru þær líka þrjár hér.

Suðræn þrenna (4)

Hér er sjónum beint til Suður-Evrópu, til Grikklands, Ítalíu og Portúgals. Allar ídýfurnar má bera fram með brauði eða kexi en ég notaði hrökkkex og heilkorna-grissini frá Móður Jörð og niðurskorið grænmeti.

_MG_0869

Fyrst er það feta- og spínatídýfa: ég var með fetaostskubb, 175 g, muldi hann í matvinnsluvélarskálina og bætti við tveimur grófsöxuðum vorlaukum og 2-3 hvítlauksgeirum. Ég reif svo gula börkinn af einni sítrónu yfir, setti 75-100 g af spínati, 3/4 tsk af fennikufræjum, pipar og salt út í og maukaði vel saman. Bætti svo við 100 ml af hreinni jógúrt (eða eins og þarf til að maukið verði hæfilega þykkt).

_MG_0963

Smakkaði og bragðbætti með pipar og e.t.v. sítrónusafa og salti. Kældi svo maukið.

_MG_0888

Næst var þá papriku- og tómatmauk og ég hitaði ofninn í 230°C. Fræhreinsaði eina og hálfa papriku (ég var með eina rauða og hálfa gula) og skar þær í bita. Grófsaxaði 125 g af tómötum og flysjaði 3 hvítlauksgeira og kramdi þá létt. Setti allt saman í lítið, eldfast mót, kryddaði með pipar og salti, helltu 3 msk af ólífuolíu yfir og bakaði í um 25 mínútur.

_MG_0893

Ég lét þetta hálfkólna og maukaðu það svo í matvinnsluvél með lófafylli af basilíku og einum vorlauk. Síðan þeytti ég 2 tsk af balsamediki saman við.

_MG_0965 (1)

Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum og lét kólna alveg.

_MG_0874 (1)

Og að lokum er það svo sardínumauk. Ég opnaði eina dós af sardínum í olíu (þetta voru reyndar úrvalsgóðar portúgalskar sardínur sem ég keypti í Porto en það má nota flestar tegundir).

_MG_0875

Setti sardínurnar og olíuna af þeim í matvinnsluvél, ásamt 2 tsk af kapers, 1 1/2 grófsöxuðum vorlauk og 1/2 chilialdini, grófsöxuðu, og maukaði þetta saman. Bætti við lófafylli af steinselju og 100 g af rjómaosti og maukaði.

_MG_0976 (1)

Smakkaði maukið og bragðbætti það með pipar og salti eftir þörfum. Kældi það svo.

Suðræn þrenna

Og þá var suðræna þrennan tilbúin.

*

 

Feta- og spínatídýfa

175 g fetaostur (kubbur)

2 vorlaukar

2-3 hvítlauksgeirar

1 sítróna

75-100 g spínat

3/4 tsk fennikufræ

pipar

100 ml hrein jógúrt, eða eftir þörfum

e.t.v. sítrónusafi og salt

 

*

Papriku- og tómatmauk

1 1/2 paprika

125 g tómatar

3 hvítlauksgeirar

pipar og salt

3 msk ólífuolía

1 vorlaukur

lófafylli af basilíku

2 tsk balsamedik

*

Sardínumauk með kapers

1 dós sardínur í olíu

2 tsk kapers

1 1/2 vorlaukur

1/2 chilialdin, fræhreinsað

lófafylli af steinselju

100 g rjómaostur

pipar og salt

3 comments

  1. Þetta líst mér á!
    Sérstaklega paprikumaukið!
    En áttu ekki góða uppskrift af paprikusúpu?? Fæ stundum svoleiðis í Hámu – en hefur ekki tekist að búa hana til 😦

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s