Ég nota ansi mikið af ferskum kryddjurtum, rækta þær í eldhúsglugganum á veturna og á svölunum á sumrin (jæja, sumar fara nú aldrei út) og kaupi býsna mikið af þeim líka. Og þá reyni ég auðvitað að láta þær ekki verða ónýtar og nota þess vegna enn meira af kryddjurtum fyrir vikið … En þær eru bara svo góðar (ókei, misjafnlega góðar kannski) og skreyta matinn oft svo mikið.
Hér kemur uppskrift að rétti sem er reyndar sumarréttur – eða ég gerði hann allavega í fyrrasumar þegar kryddjurtirnar mínar stóðu með miklum blóma – en ég hef gert svipað að vetri til líka þegar ég átti mikið af kryddjurtum sem ég þurfti að nýta.
Ég var með fjórar frekar litlar kjúklingabringur en það mætti líka nota tvær stórar, skornar í sundur á þykktina. Eiginlega áttu þetta að vera léttar samlokur, bara snarl, en þar sem heil kjúklingabringa (lítil að vísu) er sett á hverja bollu verður þetta fullkomin máltíð ef salat er borið fram með.
Ég tók litla lófafylli af fersku timjani, aðra af óreganói og svo eina af mintulaufi (það mætti líka nota aðrar kryddjurtir) og 2-3 hvítlauksgeira og saxaði þetta smátt.Svo blandaði ég þessu saman við fínrifinn börk af einni sítrónu, pipar og salt, blandaði dálítilli ólífuolíu saman við og setti helminginn af þessu í eldfast mót.
Ég smurði vel á báðar hliðar á kjúklingabringunum en setti afganginn til hliðar og þynnti með meiri olíu (þetta voru samtals 100 ml sem ég notaði). Lét bringurnar standa í um hálftíma við stofuhita (eða í kæli í allt að hálfan sólarhring).
Ég grillaði svo bringurnar (það má líka steikja þær á grillpönnu eða bara venjulegri pönnu) þar til þær voru rétt steiktar í gegn. Skar á meðan fjórar brauðbollur í tvennt og grillaðu þær þar til þær voru farnar að brúnast. Það má líka nota átta brauðsneiðar og grilla þær eða steikja á báðum hliðum.
Svo tók ég tvö lítil, vel þroskuð avókadó, flysjaði þau og og steinhreinsaði og skar þau í sneiðar. Setti bolluhelminga eða brauðsneiðar á diska eða fat og setti klettasalat og avókadó ofan á. Skar hverja kjúklingabringu í tvennt á þykktina og setti báða helmingana ofan á avókadóið. Svo setti ég 1 msk af kryddjurtamauki ofan á, lagði efri bolluhelminginn ofan á og skreytti með timjani (eða öðrum ferskum kryddjurtum).
*
Bollur með kryddjurtamaríneruðum grilluðum kjúklingabringum
4 kjúklingabringur, litlar
lítil lófafylli af fersku timjani
lítil lófafylli af fersku óreganói
lítil lófafylli af ferskri mintu
2-3 hvítlauksgeirar
fínrifinn börkur af 1 sítrónu
pipar og salt
100 ml ólífuolía
4 brauðbollur (eða 8 sneiðar af góðu brauði)
2 lítil avókadó, vel þroskuð
klettasalat eða annað salat