Boltavængir

Fyrir tveimur árum var líka eitthvert fótboltamót og þá gerði ég þátt fyrir MAN með uppskriftum sem hentuðu þegar verið væri að horfa. Ég geri engan sérstakan þátt fyrir neinn núna en hér er uppskrift (eða uppskriftir) úr þessum þætti, það má alveg endurnýta þær …

Þetta eru tvenns konar kjúklingavængir, sem hægt ert að útbúa fyrirfram og stinga svo í ofninn þegar fólk fer að svengja, eða eiga þá til fullsteikta og hita þá bara upp. Og svo eru uppskriftir að sósum með.

Hér er miðað við tvo bakka af kjúklingavængjum, kannski svona 1,5 kíló samtals, en það má auðvitað stækka uppskriftina eftir þörfum ef margir eru að horfa. Já, og auðvitað er fótbolti ekkert skilyrði.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég vængina, hjó (eða skar) hvern væng í þrennt og geymdi vængendana til að nota í soð (það má líka bara henda þeim).

_MG_0417

Svo bjó ég til hjúpana, fyrst  hnetu- og laukhjúpinn. Ég setti 100 ml (1 dl) af steiktum lauk (pylsulauk) og 100 ml af pekanhnetum (eða valhnetum), grófmuldi 8-10 saltkexkökur og setti þær út í og bætti við 1 tsk af paprikudufti, 1 tsk af þurrkuðu timjani, cayennepipar á hnífsoddi og svo pipar og salti og malaði þetta  í grófa mylsnu.

Svo hellti ég blöndunni á disk og velti helmingnum af kjúklingavængjunum vel upp úr henni.

_MG_0420

Þá var það sesamhjúpurinn. Ég blandaði 5 msk af sesamfræi, 1 tsk af karrídufti, 1 tsk af garam masala, 1 tsk af túrmeriki og salti saman á öðrum diski og velti hinum helmingnum af kjúklingavængjunum upp úr kryddblöndunni.

_MG_0422

Síðan raðaði ég vængjunum á pappírsklædda bökunarplötu, setti hana í miðjan ofninn og bakaði vængina í 15 mínútur. Þá tók ég plötuna út, sneri vængjunum við og bakaði þá í 15 mínútur í viðbót.

Á meðan gerði ég tvær ídýfur – fyrst tómatídýfu; ég setti 1 saxaðan vorlauk, 2 msk af tómatmauki (puré), 6 sólþurrkaða tómata í olíu, 150 ml af grískri jógúrt og dálítið af pipar og salti í matvinnsluvél og maukaði það vel saman.

Og svo gráðaostsídýfu – maukaði saman 150 ml af sýrðum rjóma, 75 g af gráðaosti, 1 saxaðan vorlauk, lófafylli af kóríanderlauf, væna skvettu af tabascosósu (eða eftir smekk), pipar og salt.

_MG_0459

Þá er það bara einn kaldour og allt tilbúið fyrir Króatana. Eða eitthvað …

*

Tvenns konar kjúklingavængir með sósum

2 bakkar kjúklingavængir (um 1,5 kg)

Hnetu- og laukhjúpur

100 ml steiktur laukur

100 ml pekan- eða valhnetur

8-10 saltkexkökur

1 tsk paprikuduft

1 tsk timjan

cayennepipar

pipar og salt

*

Sesamhjúpur

5 msk sesamfræ

1 tsk karríduft

1 tsk garam masala

1 tsk túrmerik

salt

*

Tómatídýfa

1 vorlaukur, saxaður smátt

2 msk tómatmauk (puré)

6 sólþurrkaðir tómatar í olíu, skornir í bita

150 ml grísk jógúrt

pipar og salt

*

Gráðaostsídýfa

150 ml sýrður rjómi, 18%

75 g gráðaostur, mulinn

1 vorlaukur

lófafylli af kóríanderlaufi

væn skvetta af tabascosósu

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s