Erindið til Arras

Þessi færsla er alls ekki neitt um mat. Hún er pínulítið um mig en aðallega um atburði sem gerðust fyrir hundrað árum. Stríð og svoleiðis. Og hún er mjög löng. Bara svo það sé á hreinu.

Það er misjafnt hvað fólk gerir til að fagna því að hafa náð ákveðnum áfanga í lífinu, eins og til dæmis að verða sextugt. Sumir gera ekki neitt og það er ekkert að því. Aðrir halda veislu, stóra eða smáa, og gleðjast með ættingjum, vinum og kunningjum. Sumir gera eitthvað sem þá hefur lengi dreymt um, ganga á fjöll, stökkva í fallhlíf, heimsækja fjarlægt draumaland, bjóða fjölskyldunni í skemmtiferð til útlanda, fara á frægan þriggja stjörnu Michelin-veitingastað eða tónleika með hljómsveitinni sem þeir hafa haldið upp á frá unglingsárum.

Ég gerði ekkert af þessu. En ég fór nú samt til útlanda í tilefni af afmælinu, í eins konar pílagrímsferð. Pílagrímsferðir eru ýmist farnar til að gera yfirbót fyrir syndir eða til að þakka fyrir eitthvað. Ég held ég þurfi ekki að gera yfirbót fyrir neitt sérstakt. En ég fór til Arras, sem er bær í Norður-Frakklandi. Engin stórborg, rúmlega 40.000 íbúar. Ætli þekktustu mennirnir héðan ættaðir séu ekki byltingarleiðtoginn Robespierre og kokkurinn Jean-Christophe Novelli? Ég er samt ekki hér þeirra vegna þótt ég hafi áhuga bæði á byltingum og matargerð – þó ívið meiri á matargerð. Heldur ekki vegna þess að biskupskápa Jóns Arasonar er talin hafa verið gerð hér í Arras, sem var öldum saman fræg fyrir textíllist og vefnað. Og var Jón þó að minnsta kosti nítjánfaldur forfaðir minn.

Hvers vegna er ég þá hérna – einmitt hér í Arras – á sextugsafmælinu mínu? Fallegur bær, jú. Sem á óralanga og áhugaverða sögu, vissulega. En það sama mætti segja um ótal aðra franska og evrópska bæi sem ég hefði getað farið til og í sumum þeirra er betra veður en hérna. Það er ákveðin ástæða fyrir því að ég er hér – hefði þó kannski ekki orðið ástæða fyrir neinn annan en mig – en hún krefst töluvert langrar skýringar. Þeir sem ekki nenna að lesa þá sögu alla og hafa heldur engan áhuga á sorglegum sögum geta svosem bara stokkið aftast í textann og lesið síðustu blaðsíðuna eða svo, frá millifyrirsögninni Þess vegna er ég hér.

Kannski þarf samt að lesa þetta allt til að skilja almennilega, ég veit það ekki. Veit bara að ég þurfti að skrifa það.

„Með barnabörnin á hnjánum“

Þetta byrjaði eiginlega þegar við systkinin fórum yfir myndasafnið sem foreldrar okkar létu eftir sig. Þar kom margt í ljós. Myndir sem við höfðum skoðað ótal sinnum þegar við vorum börn og gjörþekktum; myndir sem við höfðum séð áður en gleymt og rifjuðust þarna upp – og með þeim ýmsar minningar; myndir sem við höfðum ekki séð en voru þó af fólki sem við þekktum; og svo voru myndir sem ekkert okkar vissi af hverjum voru og munum sennilega aldrei vita.

Ein þessara mynda vakti athygli mína og ég hélt fyrst að hún félli örugglega í seinasta flokkinn; gömul, brúntóna mynd af tveimur ungum mönnum í einkennisbúningi. Lögreglumenn? Nei, líklega ekki. Þetta var fremur eins og hermannabúningur. Hvað í ósköpunum var mynd af einhverjum hermönnum að gera í þessu myndasafni? En þegar ég rýndi betur í myndina áttaði ég mig á að ég hafði séð annan manninn áður á mynd og þá í sama búningi, einkennisbúningi kanadískra hermanna í fyrra stríði.

_MG_6859
Júlíus Stefánsson og (líklega) Archie Polson, nýlega innritaðir í herinn.

Þá vissi ég líka hvernig stóð á því að þessi mynd var þarna. Hún hefur komið frá Valgerði langömmu minni á Húsavík því að ungi maðurinn vinstra megin sem stendur þarna beinn í baki í júníforminu sínu, dökkhærður og brúneygur, dálítið barnalegur, einhver sakleysislegur heiðríkjusvipur á andlitinu, dauft vandræðalegt bros í munnvikinu, var bróðursonur hennar, Júlíus Valtýr Stefánsson. Hún sá hann aldrei nema á mynd, því að Stefán hálfbróðir hennar flutti úr Skagafirði vestur um haf með Pálínu konu sinni og ungum syni hennar 1888 og gerðist bóndi á Nýjabæ nálægt Gimli. Júlíus, yngsti sonur þeirra, fæddist 31. júlí 1896. Skyldi hann hafa hlotið nafnið af því að hann fæddist síðasta dag júlímánaðar? Það eina sem ég veit um uppvöxt hans er að hann datt í brunn við bæinn þegar hann var tveggja eða þriggja ára og móðir hans klöngraðist ofan í brunninn og tókst að binda um hann reipi svo að hægt var að draga hann upp. Hann var ekki feigur í það skiptið.

Júlíus er sagður hafa verið efnilegur ungur maður, vel gefinn og var enn í námi þegar stríðið hófst – kannski stefndi hann á langskólanám. En á fyrstu árum stríðsins gengu ungir Íslendingar í herinn einn af öðrum. Sumir vildu ólmir fara, berjast fyrir föðurlandið, vinna hetjudáðir, sjá meira af heiminum eða bara skjóta helvítis Húnana. Mér líst einhvernveginn þannig á myndina af Júlíusi að hann hafi ekki verið í þeim hópi. En félagslegur þrýstingur var mikill, hraustir ungir menn áttu að gera skyldu sína og skrá sig í herinn, berjast fyrir föðurlandið.

Á „hersafnaðarfundi“ sem haldinn var 10. mars 1916 lýsti einn ræðumanna því meðal annars, eins og sagt er frá í Lögbergi, „með allmiklum alvöruhita hversu dýra skyldu hann teldi það afkomendum hinna fornu Víkinga að láta nú hendur standa fram úr ermum og sýna það að engir væru þeir hér í álfu er feti stigu framar í hugrekki og djarfleika. Hvatti hann unga menn til þess að skoða sjálfa sig í huga sér, þar sem þeir sætu með barnabörn sín á hnjám sér og segðu þeim sannar sögur úr mesta stríði sem veröldin hefði þekkt, þar sem þeir sjálfir hefðu verið hluttakendur.“

Sjálfsagt náði eitthvað af þessu tagi eyrum Júlíusar. Skömmu seinna, þann 22. mars, lét hann verða af því að skrá sig í 108. herdeild Kanadahers. Hann var nítján ára. Myndin er örugglega tekin þegar hann var við herþjálfun um sumarið eða um það bil sem henni lauk. Ég held að sá sem er með honum á myndinni sé nágranni hans og nær jafnaldri, Archibald Jón Polson, af skagfirskum ættum og raunar afkomandi Gísla Konráðssonar sagnaritara og Efemíu konu hans og þá mjög fjarskyldur frændi minn. Hann var vottur að undirskrift Júlíusar á herskráningarblaði hans, þá nýskráður sjálfur, og þeir hafa sjálfsagt fylgst að í þjálfuninni. Ég er þó ekki alveg viss en sýnist þetta vera hann þegar ég skoða mynd sem er í Minningarriti íslenskra hermanna.

Þeir fóru ásamt fleirum úr 108. herdeildinni frá Winnipeg 12. september 1916 og sex dögum seinna sigldu þeir frá Halifax með skipinu Olympia áleiðis til Englands. Júlíus hefur án efa kvatt foreldra sína og eldri bræður innilega; þau sáu hann aldrei aftur. Hann kom til Liverpool 25. september, var fyrst við æfingar í Witley Camp í Surrey og frá því í nóvember í Seaford nálægt Brighton. Á þessum tíma hefur hann áreiðanlega brugðið sér til London, allir Kanadamennirnir fengu sex daga leyfi í höfuðborginni eftir komuna til Englands og þeir skrifuðu heim og sögðu frá heimsóknum í Tower og að Buckinghamhöll og á alla helstu ferðamannastaðina.

Einn Íslendinganna segir frá því í bréfi sem hann sendi frá Seaford í lok nóvember að Júlíus sé einn þeirra sem gangist undir sérstakar æfingar og eigi að fara fljótlega á vígvöllinn. Hann var þó ekki farinn á jóladag, var þá einn af 36 íslenskum hermönnum sem voru boðnir til jólaveislu hjá kapteini Jósef B. Skaptason, fjármálastjóra herdeildarinnar, og Guðrúnu konu hans, sem bjuggu þar skammt frá. Þar fengu þeir veislumat og síðan var „spilað og teflt, sagðar sögur, rifjaðar upp minningar að heiman frá jólum og öðrum hátíðisdögum …“ og þegar leið á kvöldið var mikið sungið.

Þann 28. desember var Júlíus sendur til Frakklands og var kominn á vígstöðvarnar fyrir áramót. Þá hafa tekið við fáeinir mánuðir í skotgröfunum, sem voru svo nálægt skotgröfum Þjóðverja að raddir og hóstar heyrðust á milli yfir gaddavírsflækjurnar í einskismannslandinu. Sumstaðar voru bara nokkrir tugir metra á milli. Í lok mars voru dregin af honum tveggja daga laun fyrir eitthvert agabrot en annars finnst ekkert skráð um líf hans þessa mánuði. Úr skotgröfunum hefur hann áreiðanlega skrifað mörg bréf heim og kannski eru þau til enn, liggja í kassa þar sem enginn getur lengur lesið þau af því að þau eru á íslensku. Mér dugir þó að ímynda mér endalausa biðina, sprengjudunur og skothvelli, kulda og bleytu, spennu, leiðindi, heimþrá, ótta …

En biðin tók enda. Þegar leið að páskum var öllum kanadísku herfylkjunum stefnt saman við bæinn Arras; það var í fyrsta sinn sem allar sveitir Kanadamanna komu saman sem eitt herlið. Þarna lá víglínan neðan við sjö kílómetra langa hæð sem kallaðist Vimyháls, örfáum kílómetrum norður af Arras. Þjóðverjar höfðu náð hálsinum snemma í styrjöldinni, þar var vígstaða þeirra góð og þeir höfðu gott útsýni yfir lið óvinanna. Yfir eitt hundrað þúsund franskir hermenn höfðu þegar fallið eða særst í tilraunum til að ná hálsinum aftur. Bretar höfðu líka gert tilraunir til þess með engum árangri. Nú fengu Kanadamenn þetta hlutverk og það var þáttur í mikilli vorsókn Bandamanna, sem ætluðu að reyna að rjúfa víglínu Þjóðverja og færa stríðið upp úr skotgröfunum.

Archie, félagi Júlíusar, var þó ekki þarna. Rétt fyrir páska hafði hann orðið fyrir sprengikúlu í smáþorpi rétt aftan við skotgrafirnar og særst mjög illa, missti hægri handlegginn og særðist á báðum fótum. Eftir þrjá daga tókst að koma honum á franskt sjúkrahús. Síðar var hann sendur til Englands og lést þar um haustið af sárum sínum.

Þetta var hart vor í Norður-Frakklandi; kuldi, slydda og snjór um páskahátíðina. Páskadagurinn allur fór í undirbúning fyrir áhlaupið. Hermennirnir sváfu ekki mikið um nóttina, kannski ekkert. Um þrjúleytið var þeim borinn morgunverður, öllu betri en vant var; beikon, brauð, smjör, te og appelsína. Appelsínur voru allavega ekki hversdagskostur, hvorki í skotgröfunum né heima í Kanada. Að loknum morgunverði fengu allir svolitla lögg af rommi – kannski það hafi aukið kjarkinn hjá sumum, einhverjir skulfu svo mikið að þeir fengu aukaskammt – og svo festu þeir byssustingina á rifflana sína, tóku það sem þeim hafði verið falið að bera – til dæmis vélbyssur eða þung skotfæri, byrðin gat verið yfir 30 kíló – og biðu átekta.

Strjálli stórskotahríð hafði verið haldið uppi um nóttina að vanda en klukkan fimm þagnaði hún. Þetta var ónotalegt hlé, sagði einn félaga Júlíusar síðar, hundrað sinnum verra en bardaginn sjálfur. Þögnin skar í eyrun. En ekki lengi. Skyndilega var eins og himinn og jörð væru að ganga af göflunum, hermennirnir klifruðu upp stigana og spruttu upp úr skotgröfunum. Það er varla hægt annað en að sjá fyrir sér lokaatriðið í Blackadder 4.

Orrustan um Vimyháls hófst klukkan hálfsex að morgni annars páskadags, 9. apríl 1917, með mikilli sprengikúlu- og gashylkjahríð og síðan réðst tuttugu þúsund manna fótgöngulið Kanadamanna fram og mætti harðri mótspyrnu, sumstaðar þó ekki eins harðri og vænta hefði mátt við því Þjóðverjar voru ekki alveg viðbúnir. Mörgum sóttist yfirferðin um einskismannslandið milli skotgrafanna þó fremur seint, ekki bara vegna skot- og sprengjuhríðar, gaddavírs og annarra hindrana, heldur ekki síður vegna drullusvaðs og polla sem sumstaðar þurfti að vaða í mitti. Og sumar sprengjurnar þeyttu leðjunni ofan af hálfrotnuðum líkum og líkamsleifum hermanna sem fallið höfðu í fyrri orrustum á svæðinu.

Orrustan stóð allan daginn og næsta og þarnæsta og lauk ekki fyrr en 12. apríl með fullum sigri Kanadamanna, sem náðu hálsinum undir sig og hröktu Þjóðverja að nýrri víglínu. Það var þó ekki breið landræma sem þeir náðu; flestar stórorrustur fyrri heimsstyrjaldar urðu býsna dýrar í mannslífum fyrir hvern þumlung sem víglínan þokaðist til og hvergi var mannfallið meira, deilt niður á þá daga sem orrustan tók, en einmitt þarna. Þjóðverjar töldu þetta ekki mikið tap fyrir sig. En vígstaða Bandamanna batnaði heldur og nafnið Vimy Ridge er enn mjög vel þekkt í kanadískri sögu. Þessi sigur skipti miklu fyrir kanadískt þjóðarstolt, þótt nútíma sagnfræðingar telji gildi hans ofmetið, og hershöfðingi Kanadamanna sagði síðar að þarna hefði hann orðið vitni að fæðingu þjóðar.

Það snerti þó ekki Júlíus frænda minn. Hann var einn af þeim 3.598 Kanadamönnum – þar af voru níu ungir Vestur-Íslendingar – sem létu lífið í bardaganum. Hann var í þeirri herdeild sem mætti harðastri mótspyrnu og missti flesta menn; fremstu sveitirnar voru stráfelldar nánast um leið og þær komu upp úr skotgröfunum. Júlíusar var saknað eftir fyrsta daginn og hann hefur örugglega fallið þá. Kannski varð hann fyrir sprengikúlu eða steig á jarðsprengju og tættist í sundur. Kannski féll hann fyrir vélbyssuskothríð í einskismannslandinu og hvarf í leðjublandað vatn í einhverjum sprengjugígnum. Kannski fékk hann í sig sprengjubrot eða skot, lá klukkutímum saman helsærður í ískaldri leðjunni og heyrði skothríðina, sprengjudunurnar, sársaukaveinin og neyðarópin í kringum sig áður en hann sökk ofan í drullusvaðið. Það veit enginn.

Líklega hafa foreldrar hans fljótlega verið látnir vita af því að hans væri saknað og það má gera ráð fyrir að þau hafi fyrst í stað haldið dauðahaldi í vonina um að hann kæmi fram, ef til vill í þýskum fangabúðum; kannski er það ástæðan til þess að ekki birtist mynd og frásögn af falli hans í vesturíslensku blöðunum eins og oftast var, bara minnst á að hann væri skráður „missing“ og nafn hans ekki einu sinni haft rétt. En „missing“ þýddi í rauninni yfirleitt „missing, presumed dead“; þannig var skráningunni breytt þegar kom fram í ágúst og þannig er hún enn. Hann liggur einhvers staðar þarna í ómerktri gröf – eða kannski bara undir grassverðinum í slakkanum neðan við Vimyháls – en nafn hans var seinna letrað á voldugt minnismerkið sem þar reis.

_MG_6563

Hvenær skyldi Valgerður langamma hafa frétt af því að bróðursonurinn sem hún hafði aldrei séð hefði fallið í Norðurálfuófriðnum mikla? Í stríði sem hafði líklega fram að því virst órafjarri þótt það orsakaði vissulega vöruskort og dýrtíð á Íslandi og gerði fátæku verkafólki á Húsavík lífið erfiðara – og var þó varla á bætandi. Sjálfsagt hefur hún verið búin að fá senda myndina af þessum myndarlega frænda í hermannabúningnum. Nú hafði hann látið lífið, tvítugur að aldri, í ókunnugu landi til að berjast fyrir annað ókunnugt land – og til hvers? Ég er sannfærð um að langamma tók börnin sín bæði, sjö og níu ára, og faðmaði þau vel og lengi, þakklát í þeirri fullvissu að þau myndu þó ekki deyja í stríði. Hún vissi ekki að þau myndu bæði falla í valinn, litlu eldri en Júlíus, í orrustunni við hvíta dauðann.

„Þó öll heimsins stríð líði undir lok“

Mér varð dálítið um þegar ég áttaði mig á því hve nálægt fyrri heimsstyrjöldin hafði höggvið þessari húsvísku fjölskyldu. Júlíus var ekki eini frændinn sem fór í stríðið. Þorbergur langafi átti líka tvo unga frændur sem skráðu sig í herinn og voru sendir á vígvöllinn. Hvorugur þeirra kom aftur. Það er undarlegt að hugsa til þess að af þeim 94 Vestur-Íslendingum sem féllu í orrustum fyrri heimsstyrjaldar voru þrír náskyldir Nönnu ömmu minni.

Aðalbjörg móðir Þorbergs langafa var ein af tíu systkinum frá Hóli á Tjörnesi en sjálf ólst hún ekki upp þar. Hún var tvíburi og þegar hún fæddist 1851 var Guðrún móðir hennar 22 ára og átti fyrir þrjá unga syni á lífi. Önnur tvíburasystirin, Aðalbjörg, var því tekin í fóstur að Bakka í sömu sveit og ólst þar upp. Tvær systur dóu ungar en öll hin systkinin ólust upp með foreldrum sínum þar til Guðmundur faðir þeirra dó sumarið 1862, rúmlega sextugur að aldri. Guðrún, sem var 27 árum yngri, hélt búskapnum áfram í nokkur ár en líklega hafa flest barnanna farið mjög ung að vinna fyrir sér annars staðar. Þau urðu vinnufólk og bændur og bjuggu flest við þröngan kost, enda fóru erfið ár í hönd.

Einn bræðranna, Kristján, giftist ungri ekkju í Ytri-Tungu á Tjörnesi og bjó þar í fjórtán ár. Hann var hraustmenni og kjarkmaður eins og þessi saga sýnir: Einn hafísveturinn upp úr 1880 var hann ásamt fleirum úti á hafís við Tjörnes að veiða hákarl gegnum vakir á ísnum. Þeir skáru hákarlinn jafnóðum og settu í hrúgur. Einn daginn kom ísbjörn askvaðandi, fór beint að einni hrúgunni og fór að rífa í sig hákarlinn. Kristján var selaskytta góð og sendi nú ungling heim eftir selabyssu og skotfærum en sá fór byssuvillt og kom aftur með fuglabyssu hlaðna smáhöglum. Kristján ákvað þó að reyna að nota hana, fór eins nærri birninum og hann þorði, ætlaði að skjóta í hjartastað en hrinan lenti í bógi dýrsins svo að hann brotnaði. Kristján skaut tveimur haglaskotum í viðbót á dýrið en það komst í vök og hvarf. En morguninn eftir lá björninn dauður á vakarbarminum. Kristján seldi feldinn á 120 krónur, sem var mikið fé, en kjötið var étið og þótti sæmilegt. Þetta hefur því verið góð búbót.

Ekki veitti af. Níundi áratugur nítjándu aldar var mikil hafís- og harðindatíð norðanlands og lífsbaráttan erfið við ysta haf. Árið 1888 voru Kristján og Helga Þórðardóttir kona hans um fertugt og áttu sex börn á aldrinum 1–15 ára. Börnin munu öll hafa verið mannvænleg og vel gefin og möguleikarnir á betri framtíð fyrir þau hafa áreiðanlega átt stóran þátt í þeirri ákvörðun hjónanna að flytja vestur um haf. Fjölskyldan hélt því til Seyðisfjarðar, fór þaðan með skipinu Vaagen áleiðis til Vesturheims og settist að á Gimli í Manitoba.

Lífsbarátta frumbyggjans var erfið og ekki varð hún auðveldari eftir að Kristján varð fyrir því haustið 1898 að stinga sig á fiskbeini og fá blóðeitrun. Svo illa fór að taka þurfti af honum hægri handlegginn við olnboga. „Meðvitundin um það að maður sé hjálparþurfi er ekki ljettbærasta afleiðingin af tilfellum svipuðum mínum,“ segir hann í þakkarbréfi til þeirra sem lögðu honum lið.

Börnin þurftu snemma að fara að vinna fyrir sér en þau voru dugleg og vegnaði vel. Elsti sonurinn, Albert, braust til mennta, varð kennari og fór svo í prestaskóla rúmlega þrítugur, varð prestur og einn af framámönnum Vestur-Íslendinga um áratuga skeið. Fimm af sex sonum Hannesar bróður hans, kaupmanns á Gimli, luku doktorsprófi og sá sjötti lést þegar doktorsritgerð hans var nær tilbúin; þeir bræðurnir voru eitt sinn kallaðir í tímaritsgrein „The Six Most Wanted Brains in Canada.“

Screen Shot 2017-03-18 at 23.12.42
Baldur Kristjánsson.

Og vestra fæddist Baldur, yngsti sonur Kristjáns og Helgu, í litlum bjálkakofa 9. október 1891. Laglegur piltur, tæplega meðalmaður á hæð, rjóður í kinnum, bláeygur og brúnhærður. Hann er sagður hafa verið íþróttamaður góður og sérlega gefinn fyrir tónlist og söng, eins og systkini hans voru líklega öll. Í herskráningarskýrslu er hann sagður „painter“, sennilega hefur hann unnið við húsamálun með Tryggva bróður sínum.

Á fyrsta áratug aldarinnar stofnaði Baldur, ásamt bræðrum sínum þremur og allnokkrum félögum þeirra, lúðrasveitina The Gimli Band. Hann var yngstur allra í sveitinni og hæfileikaríkastur, eftir því sem segir í Gimli Saga. Þegar lúðrasveitin var stofnuð átti enginn meðlimanna hljóðfæri eða kunni að spila á það en þeir söfnuðu í sjóð, keyptu eitt og eitt hljóðfæri, lærðu af sjálfum sér og æfðu sig óspart . Þeir héldu svo fyrstu tónleika sína í félagsheimilinu á Gimli, þar sem mæður þeirra voru einu gestirnir, engir aðrir tímdu að borga sig inn. En á endanum voru þeir fengnir til að spila á flestum samkomum og viðburðum á Gimli og nágrenni – annaðhvort sveitin öll eða Baldur og bræður hans.

Sögu lúðrasveitarinnar lauk eftir að stríðið hófst, enda gerðust margir þeirra félaga sjálfboðaliðar. Baldur gekk í kanadíska herinn 25. maí 1916 en þá sem hljóðfæraleikari í lúðrasveit 197. kanadísku herdeildarinnar, sem skipuð var sjálfboðaliðum sem voru af skandinavísku bergi brotnir. Baldur er sagður hafa sett það skilyrði að honum yrði ekki þröngvað til vopnaburðar. „Ég tek aldrei upp byssuna,“ sagði hann. Ekki hefur það þó verið fyrir kjarkleysi ef hann líktist föður sínum sem hafði ráðist til atlögu við hvítabjörn með haglabyssu að vopni. Ungur að árum hafði Baldur lagt líf sitt í í stórhættu til að bjarga börnum frá drukknun og tókst það með miklu snarræði. Hann var enginn hugleysingi. Hann vildi bara spila músík og ekki er ólíklegt að hann hafi séð þarna tækifæri sem honum gafst annars ekki til að mennta sig í tónlist. Á það var reyndar spilað í herskráningaráróðrinum, eða eins og stóð í Heimskringlu þetta sumar:

„Ættu … söngnæmir Íslendingar að nota tækifærið tafarlaust, og ganga í hljóðfærasveitina. Þar geta þeir notið beztu tilsagnar og kenslu hjá Sigurði H. Thingholt … Það er athugaleysi og fásinna fyrir þar til henta menn, að grípa ekki þetta tækifæri. Góður hljóðfæraleikari getur átt völ á atvinnu í þeirri list, þó öll heimsins stríð líði undir lok.“

Reyndar þarf ekkert að efast um að það var einmitt þetta sem fékk Baldur til að gerast sjálfboðaliði: Það var stjórnandi lúðrasveitarinnar, H. S. Helgason Thingholt, sem skrifaði undir herskráningarblað hans sem vottur.

Herdeildin var við æfingar um sumarið og fram yfir áramót; Baldur stundaði lúðrablástur af kappi og hefur líklega staðið sig vel því 14. október var hann hækkaður í tign og gerður að korpórál. Í nóvember voru hins vegar dregin af honum tveggja vikna laun. Kannski gerði hann eitthvað af sér en líklegra er að hann hafi fengið leyfi, kannski til að aðstoða einhentan föður sinn við uppskeru eða önnur bústörf.

Í janúar var meirihluti 197. herdeildarinnar sendur til Englands. Baldur varð þó eftir, og sennilega lúðrasveitin öll, og var fluttur yfir í 251. herdeild, sem hafði aðsetur í Winnipeg. Þar var hann í herbúðum fram á haust en um sumarið var lúðrasveitin lögð niður og 1. júlí var Baldur lækkaður í tign og varð aftur óbreyttur hermaður. Hann mótmælti og minnti á skilyrðið sem hann hafði sett en á það var ekki hlustað. Menn töldu sig ekkert hafa að gera við tónlistarmenn sem ekki bæru byssur. Og um haustið var hann skyndilega sendur til Englands. Séra Albert bróðir hans kom til Winnipeg til að hitta hann og leitaði hans í tvo daga áður en hann komst að því að Baldur hefði verið sendur af stað fyrirvaralaust, svo að honum gafst ekkert færi á láta fjölskylduna vita, hvað þá kveðja. Það gerði ástvinum hans síðar sorgina enn þungbærari.

Baldur sigldi frá Halifax með farþegaskipinu Metagama 4. október 1917 og kom til Liverpool 17. október. Daginn eftir var hann kominn til æfingabúða í Dibgate í Kent. Hann var í Englandi um veturinn; sumir kanadísku hermennirnir voru fljótlega sendir til Frakklands en margir voru settir í vinnuflokka og dreifðust um England, stunduðu skógarhögg og ýmis önnur störf og voru þar allt fram á næsta ár, jafnvel lengur. Sumir fóru aldrei á vígstöðvarnar. Þeir voru misánægðir með þetta, sumum gramdist að komast ekki í stríðið, aðrir undu sér vel.

Hvort Baldur hafði aðgang að hljóðfæri þarna veit ég ekki en hann hefur þá áreiðanlega spilað Marseillasinn öðru hverju; einn félagi hans segir frá því í minningarljóði að honum hafi verið lagið hugleikið. Hann var ekki sendur á vígvöllinn fyrr en 12. mars 1918. Samkvæmt því sem kom fram í bréfum sem hann skrifaði heim höfðu skoðanir hans breyst við Englandsdvölina og hann taldi skyldu sína að berjast með félögum sínum; leggja sitt af mörkum til að stríðinu lyki sem fyrst.

Ég veit ekki hvort hann tók þátt í bardögum um vorið og sumarið en hann var að minnsta kosti á vígstöðvunum þegar lokasóknin hófst síðsumars 1918. Þar voru Kanadamenn í fremstu víglínu, enda höfðu kanadísku herdeildirnar getið sér gott orð og voru taldar úrvalssveitir. Eldsnemma morguns þann 8. ágúst, í þoku og náttmyrkri, hófu Bandamenn framrás við bæinn Amiens, suður af Arras, tókst að koma Þjóðverjum að óvörum – sumir sátu enn að morgunverði þegar þeir voru teknir til fanga – og hrekja þá til baka. Þetta var upphafið á Hundrað daga sókninni, endalokum stríðsins.

Orrustan við Amiens stóð í þrjá daga og síðasta daginn, 11. ágúst, féll Baldur; varð fyrir sprengikúlu þar sem hann stóð vakt í vélbyssuhreiðri í skotgröf við þorpið Fouquescourt, suðaustan Amiens. Líklega hvílir hann í grafreit þar en gröf hans er ómerkt og það var enginn lúðrablástur þegar hann var lagður til hvílu. Nafn hans er hins vegar á minnisvarðanum á Vimyhálsi. Kristján faðir hans dó mánuði síðar, kannski var það fregnin af falli yngsta sonarins sem reið honum að fullu.

_MG_6577

„Sendið oss drengina yðar“

Guðmundur, elsti bróðir Aðalbjargar langalangömmu, varð samferða Kristjáni til Vesturheims 1888. Hann var ekkjumaður en með honum fór barnsmóðir hans sem hann giftist svo vestra og ungur sonur þeirra. Að minnsta kosti þrjú börn Guðmundar urðu eftir. Dóttir hans, Aðalbjörg Pálína, var þá 17 ára og hafði verið í vistum frá því um tíu ára aldur, enda foreldrar hennar bláfátæk. Hún var vinnukona áfram þar til hún giftist árið 1900 Andrési Þorbergssyni. Þau voru fyrst vinnuhjú á Bakka á Tjörnesi og eru þar í manntalinu 1901 ásamt syni sínum, Þorbergi Eiríki, sem fæddist 20. maí það ár. Í vesturíslenskum heimildum er hann talinn ári eldri, jafnvel þremur árum eldri, en manntalið og kirkjubækur taka af öll tvímæli.

Þau bjuggu lengst af á Húsavík og voru áreiðanlega örsnauð. Í manntalinu 1910 eru þau í Nýjabæ á Húsavík, hann tæplega fimmtugur, hún um fertugt, með dætur sínar, sex og tveggja ára. Sonurinn er ekki hjá þeim, hann er niðursetningur á Bakka. Níu ára sveitarlimur. En tveimur árum síðar, 23. júní 1912, steig fjölskyldan um borð í skipið Ceres þegar það kom við fyrir norðan á leið sinni frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Frá Reykjavík héldu þau svo ásamt fleiri fjölskyldum áfram með Ceres 30. júní til Leith í Skotlandi, þar sem þau skiptu yfir í skip sem sigldi til Vesturheims. Þau voru komin til Winnipeg 17. júlí og settust fljótlega að í Íslendingabyggðinni Baldur. Bróðir Andrésar hafði flutt vestur tveimur árum fyrr og hefur kannski styrkt þau til flutninganna. Pálína átti líka föður og tvo hálfbræður vestra.

Þorbergur Eiríkur – hann virðist hafa notað Eiríksnafnið, a.m.k. eftir að hann kom vestur – hefur verið nýorðinn ellefu ára þegar hann flutti til Kanada sumarið 1912. Amma mín á Húsavík var þá sex ára og hefur sennilega þekkt þennan frænda sinn, og örugglega systur hans tvær, sem kannski voru leiksystur hennar. Að minnsta kosti hefur Þorbergur langafi þekkt nafna sinn og foreldra hans.

Eiríkur var sagður efnilegur, skarpgreindur og bókhneigður, en það var líklega ekki mulið undir niðursetninginn fyrrverandi, enda held ég að foreldrum hans hafi ekki vegnað sérlega vel vestra – móðir hans var berklaveik og faðir hans farinn að reskjast. Fimmtán ára var hann kominn til Argylebyggðar og farinn að vinna þar við járnbrautina; sagður sterkur, röskur og ósérhlífinn. Hávaxinn eftir aldri, ljós yfirlitum og bláeygur.

En þann 3. mars 1917 var hann heima í Baldur og skráði sig þá til þjónustu í 223. sveit kanadíska hersins, sem aðallega eða eingöngu var skipuð mönnum af skandinavískum uppruna. Votturinn sem skrifaði undir herskráningarblaðið með honum var Herbert Axford, einn Fálkanna sem seinna urðu Ólympíumeistarar í íshokkí. Hann var einn af liðsöfnunarmönnum herdeildarinnar og var sendur í Íslendingabyggðirnar til að afla sjálfboðaliða.

Eiríkur var enn aðeins fimmtán ára – jafngamall og Úlfur dóttursonur minn er núna – og hefur logið til aldurs, er sagður fæddur 1898 á herskráningarblaðinu. Aldurstakmarkið var átján ár en það var ekkert verið að krefja menn um skilríki, þúsundir kanadískra unglinga fóru í skotgrafirnar. Á blaðinu er reitur merktur „Apparent Age“ þar sem sá sem sá um skráninguna átti að meta aldur sjálfboðaliðans og þar stendur 19 ár. Eiríkur hefur verið æstur í að komast á vígvöllinn, enda er sagt um hann að hann hafi ætíð verið með þeim fyrstu að bjóða sig fram sem sjálfboðaliði þegar til einhverra mannrauna kom.

Screen Shot 2017-03-18 at 23.13.30.png
Blaðamynd af Þorbergi Eiríki. Hann var reyndar bara sextán ára þegar hún birtist og hafði þá verið ár í hernum.

Kannski var hann ævintýragjarn og leit á herþjónustuna sem tækifæri til að upplifa eitthvað, verða maður; kannski sá hann þarna möguleika á að öðlast viðurkenningu í nýju heimalandi, þar sem margir litu niður á Íslendinga, ekki síst þá sem nýlega voru komnir og töluðu kannski ekki einu sinni sómasamlega ensku. Kannski var hann bara dæmigerður unglingur sem hlustaði á stríðsáróðurinn og hreifst auðveldlega með. Íslendingablöðin spöruðu ekki hvatningarorðin og í Lögbergi stóð þetta, einmitt í frásögn af því að Þorbergur Eiríkur og fáeinir aðrir hefðu skráð sig í herinn: „Síðan um mitt sumar í fyrra hefur tæplega nokkur Íslendingur gengið í herinn og mætti það virðast sem merki þess að Íslendingar í heild sinni hafi vanrækt skyldu sína þegar um hina síðustu og einu ábyggilegu sönnun var að ræða um canadiska borgaraskyldu.“ Og stuttu síðar: „Vér skorum á foreldrana, sem enn hafa 4–5 syni heima, og enn hafa enga þeirra látið. Sendið oss drengina yðar.“

Foreldrar Eiríks áttu bara þennan eina son og þau sendu hann áreiðanlega ekki í herinn fimmtán ára, hann hefur sjálfsagt skráð sig án þess að þau vissu af og gegn vilja þeirra. Honum varð brátt að ósk sinni; sléttum tveimur mánuðum eftir herskráninguna, þann 3. maí 1917, steig hann í borð um skip í Halifax ásamt félögum sínum og kom til Liverpool 14. maí, tæpri viku fyrir sextánda afmælisdaginn. Í deildinni voru um 600 menn, þriðjungur Íslendingar. Hálfum mánuði síðar var Eiríkur lagður inn á hersjúkrahúsið í Moore Barracks í Shorncliffe-herbúðunum með svæsna hettusótt og lá þar í þrjár vikur. Hann var útskrifaður 21. júní og var svo við heræfingar í Englandi um sumarið en síðan sendur til Frakklands 7. september. Í minningargrein eru höfð eftir honum ummæli á þá leið að hann hlakki til að geta farið að mæta óvinunum í sama mæli og vildi óska að félagarnir að heiman væru komnir að taka þátt í því – dæmigerð hreystiyrði unglings sem veit ekkert út í hvað hann er að fara. En það leið ekki á löngu þar til hann hlaut sannkallaða eldskírn.

Þann 26. október hófst orrustan um Passchendaele í Belgíu, þar sem kanadískt herlið, ásamt Bretum, Áströlum, Nýsjálendingum og Frökkum, barðist við Þjóðverja og náði að lokum Passchendaele-hálsi á sitt vald 10. nóvember. Mannfallið var gífurlegt og í miklum haustrigningum varð orrustuvöllurinn eitt gróðurlaust drullufen, þakið vatnsfylltum sprengjugígum, þar sem stundum flutu upp lík manna sem fallið höfðu í fyrri orrustum á svæðinu. Þetta var sögð vera einhver blóðugasta og drullugasta orrusta allrar styrjaldarinnar. „The Battle of Passchendaele is a vivid symbol of the mud, madness and the senseless slaughter of the First World War,“ stendur í Kanadísku alfræðibókinni.

Hermennirnir óðu drulluna í hné eða dýpra allan daginn, voru síblautir og hraktir, mökuðu fæturna í lýsi til að fá ekki fótamein, komust oft ekkert áfram, leirinn stíflaði byssuhlaupin, þeir villtust í súldinni, vissu iðulega ekki hvar óvinurinn var eða í hvaða átt þeir áttu að skjóta. Ef þeir særðust komust sjúkraflutningamenn oft hvorki lönd né strönd, þurftu að vaða eðju og polla upp í mitti. Og stöðugt rigndi skotum og sprengjuhríð yfir hermennina. Einn Kanadamannanna lýsir hugarástandi þeirra þannig að „… okkur stóð orðið á sama um allt, við vildum bara komast burtu, og eina leiðin til þess var að falla eða særast og við hefðum allir tekið hvoru sem var fagnandi.“

Í þessum hildarleik féllu eða særðust illa um 275.000 hermenn Bandamanna. Þar af voru 15.600 Kanadamenn. Og allt var þetta tilgangslaust og breytti engu um vígstöðuna í styrjöldinni. Sextán ára þingeyski strákurinn komst einhvern veginn lifandi og ósærður í gegnum þessa skelfingarhryðju en hvaða áhrif það hafði á hann er erfitt að gera sér í hugarlund. Það herti hann á ytra byrði og hann er sagður hafa verið sérlega ósérhlífinn og ógjarn á að teljast undan því sem krafist var. En skyldi hann ekki stundum hafa vaknað á nóttunni í martraðarhrolli, kannski fundist hann vera að sökkva ofan í drullufenið í Passchendaele, sem átti það til að gleypa hermenn þegar þeir sváfu í gjótum og sprengjugígum?

Hvar hann var um veturinn og vorið veit ég ekki, nema hvað í mars fékk hann tveggja vikna leyfi og dvaldist þá í Englandi. Í apríl birtist stutt klausa um hann í blaðinu Voröld og þar segir meðal annars: „Er nú í skotgröfunum, að berjast fyrir einstaklings frelsi og alheims friði komandi alda.“ Ekki veit ég heldur hvar hann eyddi sautjánda afmælisdeginum sínum í maí eða í hvaða orrustum hann barðist, en þær munu hafa verið nokkrar. En þegar Hundrað daga sóknin hófst 8. ágúst var hann þar og tók þátt í orrustunni við Amiens, þar sem kanadísku herfylkin sóttu hart fram og tókst að brjóta varnir Þjóðverja á bak aftur og þar sem Baldur frændi hans féll.

_MG_6566
Næstur fyrir neðan Eirík á Vimy-minnisvarðanum er annar ungur Vestur-Íslendingur, Stephen Helgi Thorson, bróðir teiknarans Charlie Thorson.

Kanadamennirnir voru síðan sendir austur fyrir Arras, nálægt bænum Cambrai. Þar hófu þeir um haustið sókn til norðausturs að Hindenburglínunni, varnarlínu Þjóðverja, og þá var heppnikvóti niðursetningsins af Tjörnesi uppurinn. Hann féll 10. október, rúmum mánuði fyrir stríðslok, „killed in action at Arras“, stendur í gögnum hersins. Á þessum tíma var ekki verið að berjast í eða við bæinn en ég veit að 10. október náði herflokkurinn sem Eiríkur tilheyrði á sitt vald þorpinu Thun St. Martin, rétt norðaustur af Cambrai, og missti nokkra menn. Þar hefur hann líklega fallið. Gröf hans er óþekkt en nafn hans er á Vimy-minnismerkinu.

Þess vegna er ég hér

Þessir ungu frændur mínir – einn 26 ára, annar tvítugur og sá þriðji sautján og hálfs árs – voru aðeins þrír af þeim rúmlega fimmtíu þúsund Kanadahermönnum sem féllu í Stríðinu mikla, eins og það var kallað áður en næsta heimsstyrjöld hófst. Nöfnin þeirra eru bara þrjú af þeim 11.285 nöfnum sem eru grafin í minnismerkið á Vimyhálsi en þar eru skráðir þeir Kanadamenn sem féllu í stríðinu og eiga sér ekki merkta gröf. Þessir piltar létu ekkert eftir sig, enga afkomendur, engin verk, ekkert nema minningar sem nú eru löngu horfnar með þeim sem áttu þær. Nöfnin á minnisvarðanum eru það eina sem eftir stendur. Og þess vegna langaði mig að koma hingað og sjá þau.

Reyndar átti ég einn frænda enn sem féll í stríðinu, Stanley Smith, sem var þremenningur við hina ömmu mína, dóttursonur Guðríðar systur Hólmfríðar langalangömmu. Hann var enskur í föðurætt. Ég veit fátt um hann en hann særðist alvarlega í orrustu við Ligny St. Flochel, hér örskammt vestar, aðfaranótt 9. september 1918. Hann var fluttur suður til Rouen á sjúkrahús en lést á leiðinni eða nýkominn þangað 10. september, tæpra 26 ára að aldri. Hann var grafinn í hermannagrafreit í Rouen og því er nafn hans ekki hér.

Ég vissi svo sem ekki af tilvist neins þessara ungu manna fyrr en fyrir örfáum árum. Ég get ekki sagt að mér finnist þeir hafi verið náskyldir mér en þeir voru vissulega náskyldir langafa mínum og langömmu. Þau þekktu þá eða foreldra þeirra og systkini. Þegar ég áttaði mig á því var einhvern veginn eins og stríðið og hörmungar þess færðust nær.

Og þótt langur tími sé liðinn eru þeir samt ekki svo fjarri mér. Þegar ég fæddist voru tæp fjörutíu ár frá stríðslokum. Þeir hefðu sennilega allir verið á lífi þá, hefði stríðið ekki komið til. Kannski hefðu þeir verið á meðal Vestur-Íslendinganna sem komu stundum í heimsókn þegar ég var barn, aðallega til að heimsækja Stebba afabróður minn, sem hafði búið í Manitoba í yfir 30 ár en sneri svo aftur heim. Það er meira að segja mjög líklegt að Júlíus hefði verið í þeim hópi. Þeir Stebbi voru jafnaldrar og Stebbi dvaldi hjá foreldrum hans fyrst eftir að hann kom vestur, nokkrum árum eftir stríðslok. Valdimar, eldri bróðir Júlíusar, kom tvisvar sinnum til Íslands og börn Valdimars komu oft. Sjálfsagt hefði Júlíus því komið líka. Kannski myndum við systkinin þá stundum rifja upp komu hans og tala um hann eins og aðra Vestur-Íslendinga sem komu í heimsókn þegar við vorum börn og okkur þóttu kúnstugir, Sigga frá Sæpress og fleiri. Mér finnst það svolítið undarleg tilhugsun.

En þessir þrír komu aldrei, þeir höfnuðu hér – lífi þeirra lauk fyrir nærri einni öld, hér í Norður-Frakklandi, á svæðinu umhverfis Arras, í stríði sem manni finnst nú eiginlega að hafi ekki komið þeim við; stríði sem hefði aldrei átt að vera háð. Það gildir auðvitað um öll stríð en kannski ekki síst um þetta. Þeir fórnuðu lífinu eins og milljónir annarra – fyrir svo sem ekki neitt. Hvar þeir liggja veit enginn en nöfnin þeirra eru hér og annað ekki. Kannski er ég fyrsta manneskjan sem vitja þeirra hingað í öll þessi ár. Ég veit það ekki.

Og þess vegna er ég hérna. Eftir að ég uppgötvaði að þeir hefðu einu sinni verið til, verið lifandi, átt sér sögu – þá langaði mig að komast að öllu sem ég gæti um þessa fjarlægu frændur, kynnast fortíð ungu mannanna sem áttu sér enga framtíð. Komast að því hvers vegna þeir fóru í stríðið. Mér finnst núna að ég þekki þá næstum því, fyrir mér eru þeir að minnsta kosti ekki lengur nöfnin tóm. Og mig langaði að votta þeim virðingu mína á einhvern hátt; ekki sem hermönnum, ekki sem föllnum hetjum, heldur bara sem mönnum. Og ekki bara þeim, heldur öllum hinum líka – þeim sem eiga nöfn sín á minnismerkinu, þeim sem liggja í öllum görðunum hér í kring – eða utangarðs – og líka öllum sem hafa látið lífið af völdum styrjalda í aldanna rás, sem hermenn, óbreyttir borgarar, fangar, flóttamenn. Öllum sem hefðu átt að lifa.

Þess vegna er ég hér. Mér dettur ekkert betra í hug að gera á sextugsafmælinu mínu en að færa lífinu á einhvern hátt þakkir fyrir að hafa gefið mér öll þessi ár, fyrir að hafa verið mér gott, fyrir að ég hef aldrei upplifað annað en frið – þótt ekki skorti ófrið í heiminum – og fyrir að börnin mín og barnabörnin hafa ekki þurft að kenna á stríði og hörmungum þess. Og þurfa vonandi aldrei. En það héldu líka foreldrar þessara drengja örugglega þegar þeir fluttu með fjölskyldur sínar vestur um haf í leit að betra lífi, efnahagsflóttamenn þeirra tíma.

Og þegar ég stóð við minnismerkið á Vimyhálsi og hugleiddi þetta allt fannst mér ég heyra napra goluna hvísla að mér broti úr þekktu ljóði eftir kanadískan hermann:

We are the Dead. Short days ago

We lived, felt dawn, saw sunset glow

Loved and were loved, and now we lie

In Flanders fields.

Þess vegna er ég hérna.

_MG_6554
Minnismerkið á Vimyhálsi. Það er áhrifamikið og er óvenjulegt að því leyti að það snýst meira um frið en stríð.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s