Baunabrúnkur

Eins og ég hef áður nefnt var ég í haust að gera tilraunir með uppskriftir að orkubitum og þess háttar fyrir barnabörnin og hér er annað sýnishorn – þetta eru reyndar fremur kökur en orkubitar; eiginlega eru þetta brúnkur.

Brúnkurnar eru glúten-, eggja- og mjólkurefnalausar og innihalda ekki viðbættan sykur (en í þeim eru döðlur svo að þær eru ekki lausar við ávaxtasykur). Ég notaði dálítið prótínduft í þær en reyndar mætti líka nota meira af möndlumjöli í staðinn. Þá væri ágætt að bæta aðeins við kakóið í uppskriftinni, og eins ef notað er t.d. vanilluprótín í staðinn fyrir súkkulaðiprótínduft.

En aðalhráefnið í brúnkunum kemur ýmsum á óvart. Sumir smakkaranna voru að reyna að giska á hvað væri í kökunum en aðeins einn komst nálægt réttu svari.

_MG_7476

Ég notaði nefnilega niðursoðnar svartar baunir, eina dós. Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C og svo opnaði ég dósina, hellti baununum I sigti og skolaði þær vel undir kalda krananum.

_MG_7478

Svo setti ég þær í matvinnsluvél ásamt 100 g af steinhreinsuðum döðlum, 4 msk af olíu og 1 tsk af vanillu og maukaði þetta vel saman.

_MG_7479

Svo bætti ég við 75 g af prótíndufti, 50 g af möndlumjöli, kúfaðri matskeið af kakódufti, 1 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti …

_MG_7480

… og blandaði vel, þar til allt var orðið að mauki.

_MG_7481

Svo grófsaxaði ég 80 g af valhnetum og blandaði þeim saman við með sleikju. Síðan hellti ég deiginu í fremur lítið, pappírsklætt mót, sléttaði yfirborðið …

_MG_7492

… og bakaði á næstneðstu rim í 16-18 mínútur, eða þar til jaðrarnir og yfirborðið höfðu stífnað en kakan var enn dálítið mjúk í miðju.

Prótínbrúnkur (3)

Ég lét kökuna kólna í forminu og skar hana svo í bita. Tólf fremur litla bita en það má auðvitað hafa þá færri og stærri.

Prótínbrúnkur (4) (1)

Prótínbrúnkur með valhnetum

1 dós svartar baunir, skolaðar vel

100 g döðlur

4 msk olía

1 tsk vanilluessens

75 g súkkulaðiprótínduft

50 g möndlumjöl

1 msk kakóduft (kúfuð)

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

80 g valhnetur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s