Ef einhver er enn að borða kjöt …

Af því að það eru nú líklega ekki alveg allir hættir að borða kjöt – til dæmis er ég ekkert endanlega hætt því þótt það sé lítið um það þennan mánuðinn – þá ákvað ég að skjóta hér inn einni kjötuppskrift. Eða nánar til tekið hakkuppskrift.

Annars elda ég mun sjaldnar úr hakki en ég gerði hér áður fyrr, þá minnir mig að ég hafi tautað eitthvað um að ég ætti eiginlega að gera bókina 365 hakkréttir eða eitthvað ámóta. En hakkréttir eru ekkert endilega hentugir þegar maður eldar fyrir einn, bæði eru skammtarnir sem hægt er að kaupa of stórir ef búðin manns er ekki með kjötborð og svo finnst manni oft varla taka því að gera hakkuppskrift sem hentar einum. Svo að nú orðið nota ég hakk líklega helst ef einhver kemur í mat.

Þessi uppskrift er fyrir marga – það er að segja, þetta er ekkert stór skammtur, hæfilegur kvöldmatur fyrir fjóra líklega, en hún er eiginlega hugsuð sem hluti af tapashlaðborði því að ég gerði þetta fyrir tapasþátt sem ég var með í MAN í fyrrahaust. En þetta er líka fyrirtaks kvöldmatur, til dæmis með kartöflustöppu eða kúskús eða bara grænmetissalati.

Litlar kjötbollur (albóndigas) eru mjög algengur tapasréttur og til í ótal útgáfum. Úr þessum skammti urðu um 30 bollur hjá mér en auðvitað má hafa þær minni eða stærri eftir vild. Nú orðið finnst mér yfirleitt langþægilegast að baka kjötbollur í ofni en það má svosem líka brúna þær á pönnu og sjóða þær svo í sósunni.

Mér finnst best að blanda saman nauta- og svínahakki í svona bollur en það má líka nota bara nautahakk, helst 16-20% feitt. Allavega 12%. Mjög magurt hakk er ekki gott í bollur. Ég var með 250 g af nautahakki og sama magn af svínahakki.

_mg_5452

Ég byrjaði á að taka 2-3 sneiðar af dagsgömlu brauði, skera þær í bita og setja þá í skál. Svo hellti ég 75 ml af mjólk yfir og lét brauðið drekka hana í sig.

_mg_5455

Svo tók ég hálfan lauk og einn hvítlauksgeira, saxaði þá og setti í matvinnsluvélina, ásamt brauðinu, mjólkinni og kryddinu sem ég notaði, sem var 1 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1/2 tsk af kanel, negull á hnífsoddi, 1/4 tsk af pipar og 3/4 tsk af salti, og lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk. Auðvitað má nota hendurnar eða sleif en þá er best að saxa lauk og hvítlauk mjög smátt.

_mg_5456

Svo blandaði ég nauta- og svínahakkinu saman við (250 g af hvoru), ásamt lófafylli af smátt saxaðri steinselju.

_mg_5458

 

 

 

Ég kveikti á ofninum og hitaði hann í 200°C. Tók svo farsið og mótaði það í kringlóttar bollur, á stærð við valhnetu (þær urðu semsagt um 30).

_mg_5459

Svo hellti ég 1 msk af ólífuolíu í eldfast mót, setti bollurnar í mótið og velti þeim upp úr olíunni. Setti þær í ofninn og bakaði þær í 12 mínútur (þær eiga ekki að vera alveg fullbakaðar).

_mg_5463

Á meðan bollurnar voru í ofninum gerði ég tómatsósuna. Byrjaði á að hita 4 msk af ólífuolíu á pönnu, saxaði 1 lauk og 3-4 hvítlauksgeira, setti þá á pönnuna ásamt fáeinum timjangreinum (eða 1 tsk af þurrkuðu timjani) og lét krauma þar til laukurinn fór að mýkjast. Þá hellti ég 150 ml af rauðvíni (eða hvítvíni, nú, eða bara vatni og kannski ögn af kjötkrafti ef maður býr ekki svo vel að eiga vín til sósubrúks) á pönnuna og lét sjóða aðeins.

_mg_5471

Svo hellti ég einni dós af söxuðum tómötum á pönnuna, kryddaði með pipar og salti og lét malla í um 5 mínútur.

_mg_5472

Veiddi svo timjangreinarnar upp úr, tók bollurnar úr ofninum og setti þær á pönnuna og lét þær malla í sósunni í nokkrar mínútur.

_MG_5516.jpg

Það má bara bera bollurnar fram á pönnunni. Eða setja þær á fat.

_mg_5510

 

 

Spænskar kjötbollur í tómatsósu

250 g nautahakk

250 g svínakjöt

2-3 sneiðar af góðu brauði

75 ml mjólk

1/2 laukur

1 hvítlauksgeiri

1 tsk kummin

1 tsk kóríander

½ tsk kanell

negull á hnífsoddi

1/4 tsk pipar

3/4 tsk salt

lófafylli af steinselju

1 msk ólífuolía

 

*

Tómatsósa

4 msk ólífuolía

1 laukur

3-4 hvítlauksgeirar

blöðin af nokkrum timjangreinum

150 ml rauðvín eða hvítvín (eða vatn)

1 dós tómatar, saxaðir

pipar og salt

2 comments

  1. Það var óhefðbundinn bolludagur í gær með þessari frábæru uppskrift sem vakti mikla hrifningu! Bollurnar og sósan voru fullkomin og þurfti ekki að bæta neinu við. Bar þær fram með góðri kartöflumús. Takk fyrir!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s