Kosturinn við að elda fisk á hverjum degi í febrúar – fiskbrúar – er að þá borða ég hollan, góðan, fljótlegan og fjölbreyttan mat daglega. Ég geri það reyndar yfirleitt – góðan og fjölbreyttan allavega, það er fremur spurning um hollustuna og fljótlegheitin – en þetta er allavega aukin hvatning.
Ókosturinn er sjómannaverkfallið, sem nú er reyndar búið en hefur orðið til þess að úrvalið af nýjum fiski er ekki alltaf mikið og stundum hefur það verið sorglega aumt. Ýsa er reyndar oftast til en ég er bara ekki mikið fyrir ýsu þótt hún geti verið ágæt; ég tek samt flesta aðra fiska fram yfir hana. Og jú, það er hægt að fá eitthvað af frosnum fiski en ég er ekki mjög hrifin af honum, svona yfirleitt. En það eru undantekningar, meira um það hér á eftir.
Það er nú samt hægt að finna ýmislegt og undanfarna viku er ég búin að elda eggjaköku með paprikusteinbít (afgangaréttur); rauðsprettu með steiktu rósakáli, spínati og kasjúhnetum; ýsu í tómatkarrísósu með jarðhnetum; smjörsteiktan hörpuskelfisk með grænum baunum, sykurbaunum, klettsalati, spírum og kryddjurtavinaigrettu; pasta með reyktri bleikju og kapers; hlýra í sterkri karrísósu með sykurbaunum og hrísgrjónum; rjómalagaða hörpuskelfiskssúpu; steikta bleikju með mangó- og avókadósalsa; og í kvöld var svertur grillpönnusteiktur túnfiskur með tómötum.
Túnfiskurinn er frá Spáni og var auðvitað frosinn, ég keypti hann í Kolaportinu á laugardaginn og lét hann þiðna í ísskápnum. Þetta var 200 g biti, passlegur í matinn handa mér, og kostaði 640 krónur. Stundum krydda ég túnfisk bara með pipar og salti en ég ákvað að gera sterkkryddaðan fisk, eiginlega svertan (blackened) og steikja hann á grillpönnu.
Ég byrjaði á að búa til kryddblöndu: 2 msk paprikuduft, 1 msk þurrkað timjan, 1 msk þurrkað óreganó, 1 1/2 tsk laukduft, 1 1/2 tsk hvítlauksduft, 1 tsk pipar, 1/2 tsk cayennepipar (eða meira ef maður vill hafa þetta verulega sterkt), 1 1/2 tsk salt. Blandaði þessu saman í lítilli skál. Þetta er þó heldur meira en þarf á einn fiskbita en afganginn má geyma og nota til að krydda ýmsa rétti.
Ég tók túnfisksneiðina úr kæli svona hálftíma áður en ég byrjaði að elda svo að hún væri ekki ísköld (það væri samt í lagi en þá þarf aðeins lengri steikingartíma). Stráði hluta af kryddinu á disk og þrýsti fiskinum niður í það.
Stráði svo meira kryddi yfir og þrýsti því niður og inn í fiskinn. (Ekki of fast samt, það á ekki að kremja fiskinn.)
Svo hitaði ég litla grillpönnu vel (þetta er reyndar lokið af einum steypujárnspottinum mínum, sem er jafnframt panna), penslaði hana með svolítilli olíu, setti túnfiskinn á hana og steikti við háan hita í eina og hálfa mínútu.
Þá sneri ég fiskinum, dreifði hálfum kokkteiltómötum í kring og steikti túnfiskinn í svona eina og hálfa mínútu á hinni hliðinni en tók hann þá af og steikti tómatana áfram smástund. – Steikingin er auðvitað eftir smekk en það á aldrei nokkurn tíma að steikja ferskan túnfisk í gegn, hann verður þurr og leiðinlegur. Hann á að vera hrár í miðju (sjá myndina). En tvær mínútur á hlið væru svosem í lagi – það fer svo auðvitað eftir þykktinni á stykkinu.
Ég hafði bara grænt salat með, ásamt tómötunum og nokkrum muldum valhnetum. En það mætti hafa ýmiss konar gufusoðið eða steikt grænmeti, t.d. spergilkál, gulrætur, sykurbaunir, papriku og fleira, eða þá kúskús eða soðið bygg. Og ef til vill milda kryddjurtavinaigrettu eða hvítlauksmajónes ef maður vill hafa sósu.
*
Sterkkryddaður túnfiskur
1 túnfisksneið, um 200 g, á mann
2 msk paprikuduft
1 msk þurrkað timjan
1 msk þurrkað óreganó
1 1/2 tsk laukduft
1 1/2 tsk hvítlauksduft
1 tsk pipar
1/2 tsk cayennepipar
1 1/2 tsk salt
olía á pönnuna
100-150 g kokkteiltómatar á mann