Skyrkaka, sykurlaus (eða þannig)

Og hér er svo uppskriftin sem ég ætlaði að setja inn í gær en ákvað svo að setja granólablönduna fyrst því að hún er notuð í botninn. Þessi er í hollari kantinum (sorrí, Ævar, úr því verður bætt seinna) en bragðið er nú ekki sem verst heldur. Sykurlaus – tja, sko, ég notaði St. Dalfour-sultu, sem er ekki með viðbættum sykri, þannig séð, en er auðvitað sætt með ávaxtaþykkni sem er nú sykur líka … Ég nota hana samt stöku sinnum í hófi. Rétt eins og ég fæ mér stöku sinnum vínglas, það er nú náttúrulegur sykur í léttvíni … Svo má nota aðrar sultutegundir, sykurlausar eða ekki, eftir því hvað þið viljið forðast.

Í staðinn fyrir að gera eina stóra köku má líka gera úr þessu litla ábætisrétti í glösum, það er ekki síðra. Þá er farið alveg eins að nema notuð falleg glerglös með sléttum hliðum – ætli 6-8 væri ekki hæfilegur fjöldi en það fer eftir hvað maður vill hafa skammtana stóra auðvitað.

Þetta er uppskrift sem birtist fyrst í jólablaði MAN en ég er búin að gera smábreytingar á henni síðan þá.

_mg_8458

En allavega, ég byrjaði á að taka 225 g af sykurlausri granólablöndu, til dæmis þessari frá í gær, setja 100 g af linu smjöri út í og blanda vel saman með sleikju. Það má svosem nota matvinnsluvél en þá er best að láta hana ganga sem styst og nota bara púlshnappinn, sé hann til staðar, því blandan á að vera fremur gróf.

Ef maður vill bragðbæta botninn eitthvað er það svosem alveg í lagi. Það má til dæmis mauka nokkrar döðlur saman við smjörið áður en því er blandað saman við granólað til að fá svolitla sætu þótt mér finnist það óþarft. Eða bæta við söxuðum hnetum eða einhverju kryddi, til dæmis.

_mg_8459

Ég hellti svo blöndunni í bökuform (eða eitthvert hentugt mót, eða bara í glös) og þrýsti henni jafnt niður á botninn og aðeins upp með hliðunum. Kældi þetta svo vel.

_mg_8462

Ég tók svo tvö matarlímsblöð og lagði þau í bleyti í köldu vatni í nokkrar mínútur.Á meðan hrærði ég saman 500 g af óhrærðu (eða allavega óbragðbættu) skyri saman við 2 eggjarauður og 100 g af hindberjasultu (St. Dalfour eins og ég sagði). Það má auðvitað nota aðrar bragðtegundir en þetta er jú hindberjaskyrkaka svo að …

Ef maður vill forðast egg er alveg í lagi að sleppa eggjarauðunum.

_mg_8467

Svo setti ég 25 g af hindberjasultu, 1 msk af vatni og matarlímsblöðin tvö í lítinn pott og bræddi við mjög vægan hita – bræðslumark matarlíms er mjög lágt og það þarf því ekki að hita mikið. Ef blandan er mjög heit er best að láta hana hálfkólna áður en henni er hellt rólega út í skyrblönduna í mjórri bunu og hrært vel á meðan.

_mg_8468

Síðan stífþeytti ég 200 ml af rjóma í annarri skál og blandaði saman við hindberjaskyrblönduna með sleikju.

_mg_8469

Ég setti svo hindberjaskyrblönduna ofan á granólabotninn og sléttaði yfirborðið.

_mg_8470

Svo dreifði/raðaði ég svona 200 g af ferskum hindberjum yfir og kældi vel.

_mg_8481

Ég stráði reyndar líka ögn af kókosflögum (þessum stóru) yfir upp á punt af því að ég átti þær til en það er óþarfi og allavega engin ástæða til að kaupa þær sérstaklega fyrir þetta.

_mg_8532

Hindberjaskyrkaka með granólabotni

225 g granólablanda, sykurlaus

100 g lint smjör

2 matarlímsblöð

500 g óhrært skyr

2 eggjarauður

125 ml hindberjasulta án viðbætts sykurs

1 msk vatn

200 ml rjómi

200-250 g fersk hindber

1-2 msk kókosflögur (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s