Ég ætlaði eiginlega að setja inn aðra uppskrift hér núna, svona hálfpartinn í tilefni af konudeginum – fyrir mig alltsvo, það er nú ekki eins og einhver annar geri eitthvað fyrir mig á konudaginn svo að það má segja að fyrir mér séu allir dagar konudagar – en svo rann upp fyrir mér að í þessa uppskrift þarf granóla og þar sem þetta átti nú að vera sykurlaust verður það auðvitað að vera sykurlaust granóla. Það er svosem ekki auðfundið í búðum og það er miklu einfaldara – að ekki sé nú talað um ódýrara – að gera það bara heima hjá sér. Ekki mikið vesen heldur.
Ég nota þess vegna eingöngu granólablöndur sem ég geri sjálf og set í þær bara nokkurn veginn það sem ég á hverju sinni, þótt uppistaðan sé alltaf grófvölsuð hafragrjón og svo er eitthvað af hnetum og fræjum, krydd, olía (oftast ólífuolía en ekki skilyrði), og svo blanda ég alltaf þeyttum eggjahvítum saman við blönduna áður en hún fer í ofninn. Það geri ég til að granólað verði ögn stökkara en er út af fyrir sig ekki nauðsynlegt, svona ef maður er vegan eða vill/þarf að forðast egg. Ég set aldrei neinn sykur, vil frekar fá sætt bragð (ef það á að vera) úr ávöxtum eða öðru sem ég borða með. En það mætti svo sem alveg setja kannski 2 msk af hlynsírópi út í, saman við olíuna; það gerir blönduna stökkari og kannski eru eggjahvíturnar þá óþarfar. Ég hef ekki prófað.
Ég set aldrei neina þurrkaða ávexti, rúsínur eða annað slíkt, út í blönduna áður en hún fer í ofninn, finnst það verra (þeir geta farið að brenna) en blanda þeim stundum saman við eftir að blandan er orðin köld.
Ég nota þessa blöndu – eða aðrar svipaðar því það er hægt að breyta til á ýmsan hátt eins og ég sagði – bæði í morgunmat, t.d. út á hreina jógúrt og annað slíkt, og svo líka sem botn/grunn í ýmiss konar kökur og ábætisrétti, til dæmis súkkulaðiábæti, súkkulaðikókosböku, súkkulaðiostaköku (hmm, ákveðið þema hér í gangi?), í orkubita og ýmislegt fleira. Það má líka hnoða granólablöndunni saman við maukaðar döðlur, kannski ásamt kakói og fleiru, og búa til nammikúlur.
En allavega, hér er granólablandan, eða ein útfærsla af henni. Svo má líka finna uppskriftir, ekki ósvipaðar, í bókunum mínum Sætmeti án sykurs og Létt og litríkt.
En ég byrjaði á að hita ofninn í 160°C. Blandaði svo saman í skál svona 250 g af grófvölsuðum hafragrjónum, 50 g af sólblómafræjum, 50 g af graskersfræjum og 50 g af möndluflögum. Ég hefði kannski sett nokkrar saxaðar pekanhnetur með en átti þær ekki þegar til átti að taka.
Svo blandaði ég 1 tsk af kanel, 1 tsk af engiferdufti og svona 1/2 tsk af salti saman við.
Svo hrærði ég 100 ml af ólífuolíu og 1 tsk af vanilluessens saman í könnu (má líka hrista saman í hristiglasi), hellti yfir og blandaði. Ef maður notar hlynsíróp eða annan sykur má líka blanda því saman við olíuna.
Og svo þeytti ég að lokum tvær eggjahvítur og blandaði þeim saman við með sleikju.
Dreifði svo öllu saman á pappírsklædda bökunarplötu og setti í miðjan ofninn.
Ég ristaði blönduna þar til hún var gullinbrún og stökk – það ætti að taka 25-30 mínútur. Best er að hræra einu sinni eða tvisvar í henni á meðan – ég geri það einfaldlega með því að taka plötuna út, lyfta brúnunum á pappírnum, hvolfa öllu inn að miðju og dreifa svo úr því aftur.
Ég tók svo plötuna út þegar mér fannst granólað orðið hæfilega ristað og lét það kólna alveg áður en ég setti það í krukku.
Granólablanda
250 g grófvölsuð hafragrjón
50 g sólblómafræ
50 g graskersfræ
50 g möndluflögur
1 tsk kanell
1 tsk engifer (duft)
1/2 tsk salt
100 ml ólífuolía
1 tsk vanilluessens
2 eggjahvítur
[…] hér er svo uppskriftin sem ég ætlaði að setja inn í gær en ákvað svo að setja granólablönduna fyrst því að hún er notuð í botninn. Þessi er í hollari kantinum (sorrí, Ævar, úr því […]