Súkkulaðikrúsidúllukaka

Síðasta kaka sem ég setti hér uppskrift að var með sykri svo að það er alveg kominn tími á eina sykurlausa, er það ekki? Eða sko: þessi kaka er sykurlaus eins og ég gerði hana (af því að ég vildi nú geta borðað hana sjálf) en hún þarf ekkert að vera það. Ég notaði heimagerða, ósæta granólablöndu (uppskrift t.d. í Sætmeti án sykurs) en það er hægt að nota keypta blöndu – ég er reyndar ekki viss hvort sykurlausar granólablöndur fást hér því ég kaupi aldrei tilbúnar blöndur, finnst miklu betra að gera þær sjálf – en ef fólk er ekki sérstaklega að forðast sykur má alveg nota aðra blöndu.

Ég notaði líka dálítið af St. Dalfour-sultu í fyllinguna því hún er ekki með viðbættum sykri en það má alveg nota aðrar tegundir, með eða án sykurs. Eða bara sykur ef því er að skipta.

Þetta er semsagt óbökuð súkkulaðiostakaka. Glútenlaus ef það er málið. En nei, ekki hrákaka (eins og það er nú líka skelfilega ljótt og vont orð) því að granólablandan er jú ristuð í ofni.

_MG_7234

Ég notaði samtals 250 g af granólablöndu og byrjaði á að setja helminginn í matvinnsluvél ásamt 6 steinhreinsuðum döðlum og 75 g af linu smjöri og lét vélina ganga þar til allt var maukað vel saman. Þá setti ég afganginn af granólablöndunni út í og lét vélina rétt blanda þessu saman (ég notaði púlshnappinn) en alls ekki í mauk því ég vildi hafa grófa áferð.

_MG_7236

Ég hellti svo blöndunni í lausbotna bökuform og þrýsti henni á botninn og upp með hliðunum. Kældi botninn svo vel (setti hann reyndar bara í frysti í  svona 15 mínútur.

_MG_7239

Á meðan tók ég 500 g af mjúkum mascarponeosti (2 dósir – það má líka nota rjómaost en mascarponeosturinn er betri), 1 vel þroskaðan banana og 125 ml af  jarðarberjasultu frá St. Dalfour (má reyndar vera hvaða sulta sem er og líklega hvaða bragð sem er líka) í matvinnsluvél ()eða hrærivél og maukaði vel saman.

_MG_7241

Þegar þetta var orðið alveg slétt bætti ég við 50 g af kakóduti og 1 tsk af vanilluessens og hrærði vel saman við.

_MG_7245

Svo hellti ég fyllingunni í bökuskelina, sléttaði yfirborðið …

_MG_7247

… og svo tók ég grillpinna og notaði hann til að gera krúsidúllumynstur í yfirborðið. Kældi svo ostakökuna vel (og það þarf að geyma hana í kæli).

_MG_7276

Bar hana svo fram með ferskum berjum og berjasósu …

_MG_7296

… sem ég gerði bara þannig að ég setti 150 ml af berja-smoothie (án viðbætts sykurs auðvitað) og 200 g af frosnum berjum í pott, hitaði og sauð í nokkrar mínútur, maukaði svo og lét kólna.

Þetta var bara nokkuð góð kaka.

*

Súkkulaðiostakaka með berjasósu

250 g granólablanda, keypt eða heimagerð

6 döðlur, steinhreinsaðar

75 g smjör, lint

500 g (2 dósir) mascarponeostur, mjúkur

1 banani, vel þroskaður

125 ml sykurlaus sulta eftir smekk

50 g kakóduft

1 tsk vanilluessens

Berjasósa

200 g frosin ber eftir smekk

150 ml ávaxtamauk (smoothie)

fersk ber

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s