Haustmatur á arabískum nótum

Ég tek ekki slátur í haust og geri það sjaldan núorðið. Það er ekki beint fyrir einbúa og fjölskyldan fúlsar við því, meira og minna. Gikkirnir.

Annars var ég að rifja upp gamlar minningar í dag, það eru einmitt þrjú ár síðan mamma dó, og var meðal annars að hugsa um slátursuðu í Djúpadal. Slátrið (eða slátrið og lifrarpylsan, það var aldrei talað um blóðmör, hann var bara kallaður slátur) var soðið í stórum járnpotti á steinsteyptum hlóðum í gamla bænum í Dal, sem var sambyggður steinhúsinu – eða öllu heldur, það hafði verið byggt áfast honum og þótt  ekki væri lengur búið í torfbænum var hann nýttur töluvert til geymslu og ýmissa bústarfa. Þar var slátrið soðið og hangikjötið reykt, þar var skilvindan, saltkjötstunnur og sláturtunnur og ýmislegt fleira. Og þegar búið var að sjóða slátrið var það látið kólna í stórum hrúgum í búrinu, margir tugir keppa í senn, og síðan súrsað í stórri tunnu sem stóð undir stiganum upp á loft; önnur minni við hliðina á henni.

Ég man eftir að hafa verið í búrinu að fylgjast með mömmu í einhverju sláturstússi þegar fréttir bárust af dauða einhvers stórmennis. Kannski var það Kennedy forseti. Ég man það ekki en ég man greinilega eftir hrúgunni af bústnum slátur- og lifrarpylsukeppum sem enn voru hálfvolgir og biðu þess að vera sökkt á bólakaf í ískalda sýruna í tunnunni. Það er ekkert eins kalt og köld sýra og þar sem ég vissi náttúrlega ýmislegt um Flugumýrarbrennu – Flugumýri er næsti bær utan við Dal – kenndi ég ógurlega mikið í brjósti um Gissur jarl sem hafði þurft að fela sig í sýrukeraldinu. Af því að honum hafði verið svo kalt, ekki af því að hann hafði misst konuna sína og synina í eldinum.

En þetta var útúrdúr, ég geri oft útúrdúra þegar ég er að skrifa um mat. Og ég ætlaði ekkert að skrifa um sláturgerð en aftur á móti smávegis um lifur, sem tilheyrir nú slátrinu svosem. Lifur finnst mér afbragðsmatur líka en það finnst gikkjunum í fjölskyldunni náttúrlega ekki. En það gerir ekkert til því að lifur er ekkert mál að elda fyrir einn. Hún er náttúrlega of stór til að elda hana alla en það má bara skera helminginn af og stinga í frysti.

Svo er lifur og annar innmatur náttúrlega langódýrasta kjötmetið sem fæst í verslunum og hægt að gera ýmislegt við hana. Það er upplagt að prófa eitthvað annað en hefðbundnar íslenskar uppskriftir, bera lifrina til dæmis ekki fram í brúnni sósu með soðnum kartöflum, heldur sterkkrydda hana að arabískum hætti. En það er um að gera að steikja hana ekki of lengi, hún á að vera mjúk og meyr en ekki hörð og seig.

Og hér er semsagt uppskrift að arabísk-kryddaðri lambalifur með kartöfluteningum. Uppskriftin er reyndar ekki fyrir einn, heldur kannski 3-4, eftir því hvað fólk er mikið fyrir lifur. En alveg hægt að minnka hana.

Lifur er líka mjög fljótelduð svo að ég byrjaði á kartöfluteningunum. Þeir eru steiktir á pönnu og það tekur smástund. Jæja, svona 10 mínútur ef maður sker kartöflurnar smátt. Og svo fer auðvitað einhver tími í að skera þær smátt … Það má náttúrlega líka hafa t.d. kartöflustöppu með lifrinni í staðinn fyrir teningana.

_MG_8650

En allavega, ég tók svona 700 g af kartöflum, óþarfi að flysja þær nema kannski ef hýðið er mjög þykkt. Skar þær í 8 mm – 1 cm sneiðar, staflaði sneiðunum upp og skar þær í ræmur og ræmurnar síðan í teninga. Svo skolaði ég teningana úr köldu vatni og lét renna vel af þeim á hreinu viskastykki (eða eldhúspappír).

Svo hitaði ég 100 ml af olíu á stórrp pönnu. Setti teningana á hana og dreifði vel úr þeim, kryddaði með pipar og salti og steikti teningana við meðalhita þar til þeir voru meyrir og gullinbrúnir – það gæti tekið 8-10 mínútur. Hrærði oft í þeim á meðan. Tók þá svo upp með gataspaða og setti á eldhúspappír til að láta renna af þeim.

_MG_8653

Á meðan tók ég eina lambalifur, svona 500 g, hreinsaið hana og skar hana á ská í um 1 cm þykkar sneiðar. Skar líka tvo rauðlauka í fjórðunga og síðan í sneiðar og skar 250 g af sveppum í sneiðar (ég notaði kastaníusveppi en það má nota venjulega).

_MG_8658

Ég hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og lét lauk og sveppi krauma við nokkuð góðan hita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn er farinn að mýkjast og sveppirnir hafa tekið góðan lit. Kryddaði með pipar og salti. Svo tók ég sveppina og laukinn af pönnunni með gataspaða, setti á disk og hélt heitu.

_MG_8654

Ég blandaði svo saman 3 msk af hveiti, 2 tsk af paprikudufti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af timjani,, 1/2 tsk af childufti (ekki chilipipar) og dálitlum pipar og salti á diski.

_MG_8659

Ég velti lifrarsneiðunum vel upp úr hveitiblöndunni.

_MG_8663

Ég bætti svo 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnuna, hitaði hana vel, raðaði lifrarsneiðunum á hana og steikti þær við góðan hita í um 1 1/2 mínútur á hvorri hlið, alls ekki lengur.

_MG_8673

Svo setti ég þær á hitað fat ásamt kartöfluteningunum og dreifði lauk og sveppum yfir (eða við hliðina).

_MG_8690

Með þessu bar ég svo fram grænt salat, súrsaðar rauðrófur og asíur (en þetta tvennt seinasta er nú bara mín sérviska, alls ekkert arabískt við það). Nei, engin sósa, en ég hellti feitinni af pönnunni yfir.

*

Arabísk-krydduð lambalifur með kartöfluteningum

1 lambalifur, um 500 g

2 rauðlaukar

250 g kastaníusveppir (eða venjulegir sveppir)

2 msk olía

2 msk smjör

pipar

salt

3 msk hveiti

2 tsk paprikuduft

1 tsk kummin (cumin)

1 tsk timjan, þurrkað

1/4 – 1/2 tsk chiliduft, eftir smekk

*

Steiktir kartöfluteningar

700 g kartöflur

100 ml olía

nýmalaður pipar

salt

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s