Að undanförnu hefur verið auðveldara en stundum áður að fá ýmsa bita af nautakjöti sem ekki hefur verið mikið um í stórmörkuðum og kjötborðum alla jafna. Bæði er náttúrlega búið að opna Matarbúrið úti á Granda og svo hefur Hagkaup verið að selja bringu (brisket), nautarif og nautakinnar og aðra góða og bragðmikla bita sem henta fyrir langa og hæga eldamennsku.
Ég eldaði semsagt nautarif á dögunum (og ætla að elda bringu á morgun). Þetta gerir maður nú helst um helgar því rifin þurfa drjúgan tíma en þá verða þau líka svo meyr að hægt er að borða þau með skeið. Upphaflega ætlaði ég að láta þau malla í rauðvíni en þegar ég kannaði birgðastöðu heimilisins fannst engin rauðvínsflaska sem ég tímdi í svoleiðis. Aftur á móti átti ég Guinnessdós og áttaði mig á að það væri líklega alveg upplagt að nota hana. Svo að hér eru bjórsoðin nautarif, gjörið svo vel.
Þetta voru einir sjö bitar, líklega svona 1,5 kg eða rúmlega það. Ég byrjaði á að krydda kjötið með pipar og salti og kveikti líka á ofninum og stillti hann á 160°C.
Svo hitaði ég dálitla olíu í þykkbotna potti og brúnaði rifin vel á öllum hliðum. Þau komust reyndar ekki öll í þennan pott svo að ég brúnaði hin á pönnu (sem er reyndar líka lokið af pottinum) á meðan.
Þau brúnuðust ykkur að segja mjög fallega. Svo tók ég þau úr pottinum og setti til hliðar (eða geymdi reyndar öll rifin á pönnunni/pottlokinu) …
… á meðan ég lét tvo saxaða rauðlauka og fjóra hvítlauksgeira krauma þar til laukurinn var byrjaður að mýkjast.
Þá bætti ég í pottinn fjórum gulrótum og tveimur sellerístönglum sem ég var búin að skera niður, ásamt tveimur lárviðarlaufum, nokkrum timjangreinum og dálitlum pipar og salti. Lét þetta krauma í nokkrar mínútur í viðbót.
Svo setti ég kjötið aftur í pottinn og hellti innihaldinu úr einni Guinnessdós yfir.
Bætti við hálfum lítra af vatni og hitaði að suðu. Þegar farið var að bullsjóða setti ég lokið á pottinn og stakk honum í ofninn.
Þar var hann næstu þrjá klukkutíma, næstum óhreyfður en ég tók hann þó einu sinni út til að hræra aðeins í og athuga hvort þyrfti að bæta við vatni.
Og svona leit þetta út þegar kjötið var tilbúið.
Ég bar svo kjötið fram með kartöflustöppu og grænu salati. Það var svo meyrt að það datt í sundur og sósan var bragðmikil og góð.
Bjórsoðin nautarif
1,5 kg nautarif
nýmalaður pipar
salt
2 msk olía
2 rauðlaukar (eða venjulegir)
4 hvítlauksgeirar
4 gulrætur
2 sellerístönglar
nokkrar timjangreinar
2 lárviðarlauf
500 ml Guinness (eða annar dökkur bjór)
500 ml vatn, og meira eftir þörfum
Þetta er sjúklega girnilegt! Hvað mundir þú segja að þetta magn væri fyrir marga?
Fjóra til fimm, hugsa ég. Við vorum fimm og það var enginn afgangur og ákveðnir aðilar hefðu örugglega þegið meira …