Soðinn rjómi og smoothie

Jólabókaflóðgáttirnar eru að opnast og þar sem ég vinn hjá bókaútgáfu verð ég auðvitað rækilega vör við það. Í október verða yfirleitt nokkur vatnaskil – síðustu eftirlegukindurnar eru sendar í prentsmiðju og maður snýr sér að því að vinna í bókum næsta árs. Svo að ég er eiginlega meira og minna komin yfir á árið 2016. Í vinnunni allavega; hér heima er ég bara komin í jólaundirbúning því að fyrr í þessum mánuði var ég að gera ýmislegt jólalegt góðgæti fyrir MAN og svo hef ég aðeins haldið áfram í þeim gír síðan. Nema fyrir sjálfa mig.

Ég er ekki með neina matreiðslubók fyrir þessi jól og finnst það satt að segja ágætt. Hef sjaldan átt eins rólegan og notalegan desember og í fyrra, þegar ég var heldur ekki með bók. Það er að segja, ekki jólabók. Ég sendi vissulega frá mér tvær bækur í fyrra (Icelandic Food and Cookery og Does anyone actually eat this?) og svo var ég með tvær bækur á fyrri hluta þessa árs, það er að segja Ömmumatur Nönnu og Sætmeti án sykurs og sætuefna, og þið megið nú alveg hafa þær í huga þegar þið veltið fyrir ykkur jólagjöfum, ég held að þær standi alveg fyrir sínu …

En allavega, hér er  uppskrift að eftirrétti úr Sætmeti án sykurs. Þetta er, minnir mig, ein af uppskriftunum sem varð til áður en ég sleppti sykrinum sjálf – ég fór að setja saman slíkar uppskriftir eftir að dóttir mín hætti sykuráti og mér fannst að ég yrði nú stundum að hafa einhvern eftirrétt sem hún gæti borðað þegar fjölskyldan kom í mat – eitthvað annað en bara ávexti. Svo að ég gerði panna cotta.  Það er vel hægt að gera án þess að nota nokkurn viðbættan sykur – bara ávaxtamauk og ber.

Nei, auðvitað verður það ekki alveg eins og hefðbundið panna cotta. En alveg ágætt samt sem áður. Og ef þið hafið aldrei notað matarlím er þetta ágæt uppskrift til að byrja á. Getur eiginlega ekki klikkað.

_MG_7941

Ég notaði ávaxtamauk (smoothie) frá Innocent, granatepli og bláber, en það er vitaskuld hægt að nota aðrar tegundir og aðrar bragðtegundir. Í staðinn fyrir smoothie getur maður auðvitað líka maukað ferska ávexti eða ber, til dæmis bláber eða mangó, en ef notuð eru lítið sæt ber eða ávextir er gott að mauka vel þroskaðan banana með.

_MG_7944

Ég setti fyrst 250 ml af rjóma í pott, hitaði að suðu og lét hann sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Í sumum panna cotta-uppskriftum er rjóminn ekki soðinn en panna cotta þýðir soðinn rjómi og það er ástæða fyrir cotta-hlutanum af nafninu. Svo lagði ég fimm matarlímsblöð (fjögur duga ef maður ætlar að bera búðinginn fram í forminu en ekki hvolfa honum úr því) í bleyti í kalt vatn á meðan.

Ég tók svo pottinn af hitanum, tók matarlímsblöðin, kreisti vatnið úr þeim, setti þau út í heitan rjómann og hrærði þar til þau voru bráðin.

_MG_7946

Síðan hrærði ég 250 ml af ávaxtasmoothie saman við og hellti blöndunni í fjögur form (eða sex lítil).

_MG_7947

Setti þau í kæli í nokkra klukkutíma, þar til búðingurinn hafði stífnað.

Þegar panna cotta-ið var orðið stíft setti ég 100 g af frosnum hindberjum  í lítinn pott ásamt safa úr einni appelsínu og lét malla nokkrar mínútur. Lagði á meðan hálft matarlímsblað (klippti það í sundur með skærum) í bleyti – hefði notað hellt blað ef ég hefði ætlað að bera búðinginn fram í formunum – og bræddi það svo í heitri sósunni.

_MG_8164

Ég lét sósuna kólna alveg, losaði svo búðingana úr formunum og hvolfdi þeim á diska. Hellti sósunni yfir þá og bar svo  fram fersk ber með.

_MG_8174

Ef ég hefði borið búðingana fram í formunum hefði ég látið sósuna kólna bara þar til hún var ylvolg, hellt henni svo yfir búðingana og látið standa í kæli þar til hlaupið hefur stífnað.

_MG_8185

Ávaxta-panna cotta

250 ml rjómi

4−5 matarlímsblöð

250 ml ávaxtasmoothie (ég notaði granatepli og bláber)

Ofan á/sósa

100 g frosin hindber

safi úr 1 appelsínu

½−1 matarlímsblað

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s