Ég held ég hafi ekki sett hér inn fiskuppskrift í dágóðan tíma. Ja, nema saltfiskgratínið um daginn. Ég hef samt ekkert borðað minni ferskan fisk en venjulega – nokkrum sinnum í viku yfirleitt – en af einhverri ástæðu hef ég lítið verið að mynda hann.
Líklega spilar skammdegið eitthvað inn í, eins og ég hef oft sagt tek ég eiginlega eingöngu myndir við dagsljós (með fáeinum undantekningum og er alltaf hundóánægð með útkomuna), ég kann ekki annað, og núna er oftast orðið of skuggsýnt þegar ég kem heim og er búin að elda og mig langar ekkert að taka mynd. Ekki einu sinni þegar maturinn lítur bara ljómandi vel út, ég veit að hann mun ekki gera það á mynd. Þannig að ég tek þá aðallega matarmyndir um helgar (þá borða ég bara þegar ég er svöng, ef ég er ein allavega, og það er ekkert endilega á hefðbundnum matmálstímum).
En þessar síðustu helgar hef ég verið frekar upptekin og sá tími sem ég hef á annað borð haft aflögu fyrir myndatökur (og eldamennsku fyrir myndatökur) hefur farið í myndir fyrir þætti sem ég skrifa í blöð – um daginn var það jólagóðgæti fyrir nóvemberblað MAN, um síðustu helgi hægeldaðar kræsingar (nautabringa (brisket) og kalkúnaleggir) fyrir næsta tölublað Stundarinnar, sem kemur núna í vikulokin. Afskaplega gott allt saman, þótt ég segi sjálf frá, og ég var þokkalega sátt við myndirnar.
En ég myndaði ekki hlýrann sem ég steikti í kvöldmatinn núna áðan og hefði hann þó alveg átt það skilið. Með steiktum kartöfluteningum, spergilkáli og tómötum. Afbragðsfiskur. Hér kemur samt fiskuppskrift en hún er frá því einhverntíma í vor, í marslok, minnir mig. Birtist allavega í maíblaði MAN. Steikt rauðspretta á bulgursalati. En það má svosem nota annan fisk. Rauðsprettan var bara alveg hreint ágæt. Uppskriftin er fyrir tvo og ég var með eitt meðalstórt rauðsprettuflak, kannski rúmlega 400 grömm, en það má líka nota tvö minni. Og ekkert mál að tvöfalda hana og hafa fyrir fjóra.
Ég byrjaði á að taka 125 g af bulgurkorni og sjóða samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. En það má líka nota t.d. kúskús.
Ég saxaði svo 1 rauðlauk smátt og 1-2 hvítlauksgeira mjög smátt. Hitaði 1 1/2 msk af ólífuolíu á pönnu og lét lauk, hvítlauk og 2 timjangreinar (eða 1/2 tsk þurrkað timjan) krauma í nokkrar mínútur.
Svo skar ég 5-6 þurrkaðar apríkósur í litla bita og setti á pönnuna ásamt 3/4 tsk af möluðum kóríanderfræjum og 3/4 tsk af kummini.
Svo saxaði ég 2 vel þroskaða tómat gróft. hrærði þessu saman við laukblönduna og lét krauma í 3-4 mínútur í viðbót.
Að lokum setti ég spínatið á pönnuna, hrærði vel í, lagði lok yfir og tók pönnuna af hitanum. Láttu standa í 2-3 mínútur og hrærði svo bulgurkorninu saman við.
Ég setti svo dálítið heilhveiti á disk, kryddaði það með pipar og salti og velti rauðsprettuflökunum upp úr heilhveitinu.
Svo hitaði ég 1/2 msk af olíu og 1 1/2 msk af smjöri á pönnu og steikti rauðsprettuna í 1 1/2-2 mínútur með roðhliðina upp við góðan hita. Sneri henni svo og steikti í um 2 mínútur á roðhliðinni, eða þar til fiskurinn var rétt steiktur í gegn.
Þegar rauðsprettan var tilbúin hellti ég bulgursalatinu af pönnunni á fat …
… og lagði rauðsprettuna ofan á. Bar sítrónubáta fram með.
*
Rauðspretta á volgu bulgursalati
1 lítil rauðsprettuflök eða 1 stærra, alls um 400-500 g
125 ml bulgurkorn (eða t.d. kúskús)
1 rauðlaukur
2 hvítlauksgeirar
2 1/2msk ólífuolía
2 timjangreinar
pipar
salt
5-6 þurrkaðar apríkósur
3/4 tsk kóríanderfræ, malað
3/4 tsk kummin (cumin)
1-2 vel þroskaðir tómatar
100 g spínat
1 msk smjör
heilhveiti
sítrónubátar