Matur borinn fram í (sultu)krukkum er rosalega hipsteralegur, skilst mér, sem sennilega þýðir að þetta sé komið úr tísku (eða ég hef reyndar ekki hugmynd um það, ég fylgist svo illa með) en það getur samt verið þægilegt að hafa hann þannig, til dæmis þegar hann er hafður sem nesti.
Þegar ég gerði pikknikkþátt fyrir MAN í sumar var ég einmitt með rækjusalat (eða kannski öllu heldur rækjukokkteil) í litlum krukkum, ætlaðan sem nesti í lautarferðina. Það er ekkert lautarferðaveður núna en þetta gæti reyndar alveg hentað sem nesti í vinnuna, til dæmis. Eða sem forréttur í matarboðið ef maður vill vera rosalega mikill hipster.
Krukkurnar sem ég notaði voru keyptar í Söstrene Grene og ég er reyndar ekkert viss um að það sé nógu hipsteralegt. Eða hipsterískt eða eitthvað …
Taktu 250 g af rækjum, skelflettum og soðnum og helst frekar stórum, og látu þær þiðna alveg í sigti svo að renni af þeim. Kreistu safann úr einni sítrónu í skál og kryddaðu með dálitlum pipar og salti. Flysjaðu og steinhreinsaðu eitt vel þroskað avókadó og skerðu það í teninga. Settu þá út í sítrónusafann og hrærðu gætilega til að þekja avókadóbitana með safa svo að þeir verði ekki brúnir. Skerðu 2-3 vel þroskaða tómata í tvennt, skafðu úr þeim fræin og safann (það má nota það í annað, ég safna þessu stundum saman í krukku í frysti og nota seinna í súpu eða sósu) en skerðu svo tómatkjötið í bita og blandaðu saman við avókadóið.
Settu rækjurnar og væna lúku af grófsöxuðum salatblöðum út í og blandaðu lauslega.
Skiptu salatinu í 3-4 litlar krukkur (auðvitað má líka setja það einfaldlega í skál eða á diska) og lokaðu þeim. Geymdu þær í kæli ef ekki á að bera þær fram strax.
Svo kreisti ég safann úr límónunum í hristiglas og bætti við 2 msk af ólífuolíu, cayennepipar á hnífsoddi, svolitlum pipar og salti og hristi þetta vel saman. Hellti salatsósunni í litla flösku (eða bara í skál eða litla könnu) og bar fram með rækjusalatinu.
Rækjusalat í krukkum
250 g rækjur, helst fremur stórar
1 sítróna
pipar
salt
1 avókadó, vel þroskað
2-3 tómatar, vel þroskaðir
lófafylli af salatblöðum
1-2 límónur
2 msk ólífuolía
smáklípa af cayennepipar