Súkkulaði án sykurs

Einhver spurði mig að því hvort ég væri með bók fyrir jólin. Nei, reyndar ekki. Ég er að vísu búin að gera bók (eða ég er enn að vinna í formálanum reyndar) en hún kemur ekki út fyrr en eftir áramót. Sem mér finnst ágætt því ef ég væri með í jólabókaflóðinu þyrfti ég sennilega að eyða flestum helgum fram að jólum í að kynna bókina á ýmsan hátt. Sem er, ef ég á að vera alveg heiðarleg, ekki það skemmtilegasta sem ég geri.

En ég hef nú samt þegar gefið út tvær matreiðslubækur á árinu, það er líklega bara nóg … Ömmumatur Nönnu kom út í febrúarbyrjun ef ég man rétt og fékk fínar viðtökur og svo kom Sætmeti án sykurs og sætuefna í apríl og fékk enn betri móttökur. Þessar bækur eru allar í sama formati og eru náttúrlega eins konar sería sem þó hefur ekki neitt yfirheiti – ef ég hefði planað þetta svona hefði ég kannski sett eitthvert nafn á hana en þetta bara þróaðist svona og nú eru þær orðnar fjórar og sú fimmta á leiðinni. Fyrri bækurnar tvær eru Múffur í hvert mál og Kjúklingaréttir Nönnu; sú væntanlega hefur enn ekki fengið nafni.

Ef þið þekkið bækurnar (eða einhverjar af þeim) megið þið alveg láta mig vita hvernig ykkur líkar sniðið sem er á þeim – stærðin og uppsetningin. Sjálfri finnst mér það að mörgu leyti mjög hentugt, allavega fyrir bækur af þessu tagi – frekar litlar bækur um tiltölulega afmarkað efni/þema. Og fyrir manneskju eins og mig, sem á auðvelt með og hættir til að skrifa langlokur um alls konar matartengd efni, er að mörgu leyti ágætt að þurfa að skrifa inn í mjög takmarkað rými – uppskriftin sjálf plús inngangstexti verður að rúmast á einni síðu í fremur litlu broti.

En mig langar nú stundum til að gera öðruvísi bækur líka og sjálfsagt verður af því einhverntíma.

_MG_4401

Allavega, ef ykkur vantar hentuga og frekar ódýra bók í jólapakkann, þá minni ég á bækurnar mínar. Til dæmis Ömmumatinn fyrir fólk sem er nýlega byrjað að búa og vantar gömlu góðu grunnuppskriftirnar. Eða Sætmeti án sykurs fyrir þá sem vilja minnka sykurátið. Hér er einmitt uppskrift úr þeirri bók. Jú, það er ávaxtasykur í döðlunum en ég nota nú ekkert óskaplega mikið af þeim í bökuna.

Þetta er ekki hrákaka en það er bara botninn sem er bakaður. Fyllingin er svo þykkt með matarlími og hellt í kalda bökuskelina og látin stífna.

_MG_7880

Ég notaði heimatilbúið, sykurlaust granóla í botninn á bökunni. Það er uppskrift í sykurlausu bókinni sem ég hef svo gert i alls konar útfærslum en í grunninn er þetta grófvölsuð hafragrjón, blönduð álíka magni af hnetu- og fræblöndu (hér pekanhnetur, kókosflögur, möndluflögur og sólbómafræ en ég hef notað alls konar samsetningar), ögn af kryddi (hér kanel og engifer), olíu, vanilluessens og svo hrærði ég stífþeyttri eggjahvítu saman við (til að granólað verði stökkt), dreifið þessu á bökunarplötu og baka við 160°C í 25-30 mínútur, hræri tvisvar eða þrisvar.

En það er líka hægt að nota tilbúna granólablöndu (ég fann aldrei neina sykurlausa þegar ég var að leita en þær eru sjálfsagt til) eða bara hafragrjón.

_MG_7925

Ég semsagt hitaði ofninn í 180°C. Setti svo 100 g af granólablöndunni, 80 g af valhnetum, 70 g af steinhreinsuðum döðlum, skornum í bita, og 1/2 tsk af kanel í matvinnsluvél og lét hana ganga mjög stutt í einu (best að nota púlshnappinn), þar til komin var grófgerð mylsna. Þá blandaði ég smjörinu saman við.

_MG_7928

Ég hellti svo öllu saman í meðalstórt bökuform og þrýsti mylsnunni létt niður á botninn og upp með hliðunum. Bakaði botninn í um 10 mínútur á næstneðstu rim í ofninum, tók hann svo út og kældi hann vel.

Þá var það fyllingin. Ég byrjaði á að leggja 3 matarlímsblöð í bleyti í kalt vatn. Svo opnaði ég dós af kókosmjólk og hellti 150 ml af innihaldinu (ef kókosmjólkin hefur skilið sig eins og oftast er er best að hræra ekkert upp í henni, nota bara þunna vökvann) í lítinn pott og hitaði rólega – mjólkin á ekki að sjóða. Ég kreisti vatnið úr matarlímsblöðunum, setti þau út í og hrærði þar til þau voru bráðin. Þá tók ég pottinn af hitanum, hrærði afganginum af kókosmjólkinni (250 ml) saman við og setti til hliðar.

_MG_7930

Svo setti ég 100 g af steinhreinsuðum döðlum,75 g af linu smjöri og 25 g af kakódufti í matvinnsluvél …

_MG_7932

… og maukaði vel saman. Síðan hrærði ég kókosmjólkinni saman við.

_MG_7936

Síðan hellti ég fyllingunni gætilega í kalda bökuskelina og setti bökuna í ísskáp þar til fyllingin hafði stífnað, það tekur einhverja klukkutíma.

_MG_8088

Svo má skreyta bökuna með kókosflögum eða kókosmjöli.

_MG_8109

Súkkulaðibaka

100 g sykurlaust granóla (eða hafragrjón)

80 g valhnetur

70 g döðlur, steinhreinsaðar og skornar í bita

½ tsk kanell

50 g smjör, lint

Fyllingin:

3 matarlímsblöð

400 ml kókosmjólk

100 g döðlur, steinhreinsaðar

75 g smjör, lint

25 g kakóduft

e.t.v. kókosflögur eða gróft kókosmjöl

8 comments

  1. Finnst bækurnar þínar alveg frábærar, góður matur og auðveldar uppskriftir, ég lifi eftir allt er gott í hófi en elda mikið hollt elska að gera eitthvað með engum viðbættum hvítum sykri og þoli ekki gervi sætuefni og elska hreinlega nýjustu sykurlausu bókina þína, ísinn með bökuðu bönunum og döðlum vaktri gríðarega lukku hjá öllum á heimilinum og við teljum 5 á öllum aldri. Færlsurnar þínar á blogginu þínu er góðar og ég les þær oftast alveg í gegn og við hjónin vitnum oft í þig þegar þú talar um að pizzur og sushi hefur verið breytt kallast það ekki lengur sömu nöfnunum og tökum heilshugar undir það. Hlakka til að fylgjast áfram með þér og bæti nýjustu bókinni örugglega í safnið. Vel ger Nanna 🙂

    • Takk fyrir það. Næsta bók verður svona heldur í hollari geiranum (eða bara maturinn sem ég er sjálf mest að borða núna), hversdagsmatur úr frekar hversdagslegu hráefni en í (vonandi) spennandi útfærslum/búningi.

  2. Mér finnst bækurnar þínar voða aðgenilegar og auðveldar í notkun, (á reyndar ekki fyrstu bókina bara hinar 3) . Uppskriftirnar eru mjög góðar og auðvelt að fara eftir þeim, finnst oft voða leiðinlegt þegar höfundar telja sig þufa að skreyta uppskriftir um of eða flækja þær til að láta matseldina virka eitthvað meira en hún er.

    • Takk, eitt af markmiðunum hjá mér er einmitt að hafa uppskriftirnar heldur í einfaldara lagi, ég bendi þá stundum á eitthvað sem hægt er að gera (og er ekki nauðsynlegt en getur verið til bóta) frekar en að hafa það með í uppskriftinni.

  3. Gaf einmitt dótturinni sem er farin út til Danmerkur í nám Ömmumatarbókina mína (og keypti mér aðra sjálf í staðinn). Mjög fín stærð og brot, aðgengilegt og ekki allt of stórt eða mikið. Bakarinn í fjölskyldunni (yngri dóttirin) á svo múffubókina og mig langar í kjúklingabókina líka en er ekki (enn) dottin í sykurleysi 🙂

    • Nei, það er svosem ekki fyrir alla – en gott að vita af því að það er alveg hægt að bjóða upp á ýmiss konar sætmeti án þess að nota sykur.

  4. Ég er hrifin af uppsetningunni af fyrri bókunum, stærðin er hentug og þær eru þægilega aðgengilegar. Ég greindist með sykursýki 1 fyrir ári og hef þurft að minnka sætmetið síðan. Svolítið erfitt í byrjun þar sem ég er mikill sætindagrís en ég hef prófað mig áfram með ýmislegt. Kannski ég bæti sykurlausu bókinni á jólagjafaóskalistann 🙂 Ég á nú þegar múffubókina og kjúklingabókina frá þér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s