Ég var að horfa á tagínuna mína frammi í eldhúsi áðan – eða öllu heldur, mér varð litið á hana af tilviljun, ég stóð ekki beinlínis stjörf og góndi á hana þar sem hún trónir uppi á eldhússkápnum – og fór af einhverri ástæðu að hugsa um hvað ég væri búin að eiga hana lengi. Og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri líklega orðin meira en tólf ára gömul. Ég keypti hana 2003, í búðinni Agadir á Laugaveginum, sem þau hjónin Nanný, Jóhanna Á. H. Jóhannsdóttir, og Brahim Boutarhroucht ráku og seldu þar vörur frá Marokkó, en búðin var held ég ekki til nema í rúmt ár.
Ég man að ég fór í búðina rétt eftir að hún var opnuð, bæði til að heilsa upp á Nanný, sem ég hafði unnið með hjá Fróða, en þó fyrst og fremst til að kaupa mér tagínu. Mig var lengi búið að langa í svoleiðis en þær fengust ekki hérlendis og fást ekki enn, nema emaleraðar steypujárnstagínur frá Emile Henry, minnir mig, en ég vildi tagínu úr leir. Hafði stundum látið mér detta í hug að kaupa hana erlendis og flytja heim en það er nú bara svo að tagínur henta ekki vel til slíkra flutninga, bæði vegna þyngdar og þó fyrst og fremst vegna lögunar. Svo að ég var voða kát þegar ég fékk tagínuna hjá Nanný. Sá eftir því seinna að hafa ekki keypt aðra en þessi hefur þó enst mér vel og er enn heil.
Tagína (tajine), ef þið vitið það ekki, er marokkóskur leirpottur. Neðri hlutinn er stór, flatbotna diskur með lágum börmum, lokið er hátt og keilulaga. Maturinn er látinn malla í tagínunni, oftast á viðarkolaeldi en það má lika elda á gasi eða setja hana í ofn, og það þarf ekki mikinn vökva því gufan stígur upp í lokið, þéttist þar og vökvinn drýpur aftur ofan á matinn. Það er alveg hægt að elda tagínurétti í þykkbotna potti með þéttu loki en þeir verða kannski ekki nákvæmlega eins.
En hér er uppskrift að marokkóskum grænmetispottrétti sem ég eldaði alltsvo í tagínunni en það má bara nota þykkbotna pott, gjarna steypujárnspott. Rétturinn er svolítið sætur eins og norðurafrískir pottréttir eru oft en það er eingöngu vegna gráfíkjanna sem ég notaði. Það má sleppa þeim en nota þá e.t.v. svolítið hunang, eða þá aðra ávexti, svo sem apríkósur eða rúsínur.
Ég byrjaði á setja tagínuna á gashelluna og hita hana rólega en annars má bara nota víðan, þykkbotna pott. Svo tók ég tvo lauka og saxaði þá fremur gróft og saxaði svo tvo hvítlauksgeira smátt. Ég hitaði 2 msk af olíu í tagínunni og lét lauk og hvítlauk krauma við meðalhita í 5-6 mínútur.
Ég stráði svo 2 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1 tsk af paprikudufti og 1/2 tsk af kanel yfir og hrærði vel.
Ég tók svo hálft butternutgrasker, flysjaði það og fræhreinsaði og skar það í fremur litla bita. Skar svo 250 g af gulrótum í sneiðar og fræhreinsaði eina rauða papriku og skar hana í bita. Fræhreinsaði líka eitt chilialdin og skar það smátt. Setti þetta allt í pottinn, hrærði og lét krauma smástund.
Ég kryddaði þetta svo með 1 tsk af þurrkuðu óreganói, pipar og salti. Hellti öllu úr einni dós af söxuðum tómötum út í, bætti við 300 ml af vatni og hitaði að suðu.
Að lokum setti ég 1 dós af kjúklingabaunum og 80 g af grófsöxuðum gráfíkjum út í, ásamt kjúklingabaunum. Setti svo lokið á tagínuna og lét malla við hægan hita í 20-25 mínútur, eða þar til grænmetið var vel meyrt. Ef vökvinn er of mikill má þykkja sósuna með maísmjöli hrærðu út í svolitlu köldu vatni.
Ég smakkaði svo, bætti við ögn af pipar og salti og bar réttinn svo fram í tagínunni og stráði dálítilli steinselju yfir.
Með þessu er upplagt að hafa kúskús – ég var reyndar með perlukúskúks – en það mætti líka hafa bulgur eða hrísgrjón. Nú, eða bara grænt salat.
*
Marokkóskur grænmetispottréttur
2 laukar
2 hvítlauksgeirar
2 msk olía
2 tsk kummin
1 tsk kóríanderduft
1 tsk paprikuduft
1/2 tsk kanell
1/2 butternutgrasker, meðalstórt
250 g gulrætur
1 rauð paprika
1 rautt chilialdin
1 tsk óreganó
pipar
salt
1 dós saxaðir tómatar
300 ml vatn
1 dós kjúklingabaunir
80 g gráfíkjur
e.t.v. svolítið maísmjöl til þykkingar
e.t.v. steinselja